Stjórnmálamenning, siðferði og skautun

eftir Bjarni Halldór Janusson

Upptökur frá samræðu ákveðinna þingmanna virtust á allra vörum eftir að þær litu dagsins ljós. Umfjöllun um þær hefur náð út fyrir landsteina, siðfræðingur og háskólaprófessor taldi fulla ástæðu til að yfirvöld hefðu rannsókn á málinu og áhrifanna virðist gæta í viðhorfi almennings til þeirra þingmanna er tóku þátt í fyrrnefndum samræðum. Jafnframt hefur siðanefnd Alþingis tekið málið fyrir, en það mun vera í fyrsta sinn sem sú nefnd tekur til starfa frá stofnun hennar. Umfjöllun fjölmiðla af málinu hefur verið mikil og áberandi frá því að upptökurnar bárust fjölmiðlum.

Þær upptökur hafa vakið mikla reiði meðal almennings og því hefur eftirspurn eftir umfjöllun verið mikil sömuleiðis. Það er almenn kurteisi að samskipti manna á milli fari fram af öðru en meiðandi og níðandi háði, líkt og ummæli og orðræða fyrrnefndra þingmanna einkenndist af. Þegar kjörnir fulltrúar fylgja slíkum viðmiðum ekki eftir og grafa undan mikilvægum gildum málefanlegrar umræðu og siðaðrar stjórnmálamenningar með athæfi sínu, þá er skiljanlegt að kjósendur upplifi sig svikna og reiða. Það er skiljanlegt að almenningur treysti illa þessum þingmönnum til þess að fjalla rétt og hlutlaust um málefni fatlaðra, kvenna og jaðarhópa samfélagsins, þegar þeir hæðast að slíkum hópum með meiðandi ummælum sínum, lítillækkandi viðbrögðum sínum og afmennskandi orðræðu sinni.

Upptökurnar staðfesta einnig rótgróið vandamál flokksbundinna stöðuveitinga innan stjórnmála, sem er ekki síst vandamál íslenskra stjórnmála vegna smæðar samfélagsins. Slíkt er ekki til þess fallið að auka traust og ánægju almennings. Það sem enn frekar ýtir undir óánægju og vantraust er það ábyrgðarleysi sem hinir áðurnefndu þingmenn gerast sekir um í kjölfar krafna um uppsagnir þeirra og iðrun. Þeir ýmist telja málið ekki nógu alvarlegt, bera ábyrgðar- og sakleysi fyrir sig, eða fara undan í flæmingi og láta líkt og sjálfstjórn þeirra hafi horfið út um gluggann. Staðreyndin er sú að þeir bera ábyrgð, þeir eru sekir og allar tilraunir til að halda öðru fram er fyrirsláttur.

Afleiðingar málsins eru þær að aðrir þingmenn, sem sumir voru sjálfir fórnarlömb meiðandi ummæla, sjá sér líklegast illa fært að starfa með þessum þingmönnum. Það ætti auðvitað einnig við um þá samfélagshópa, sem þingmenn þurfa að leita til hverju sinni, og urðu fyrir meiðandi áhrifum ummælanna. Þrátt fyrir þessar afleiðingar og skaðlegu áhrif þessa máls virðist lítið hægt að gera í stöðunni. Það er eingöngu í valdi kjósenda að bregðast við málinu með viðeigandi hætti, næst þegar gengið verður til Alþingiskosninga.

Orðræða er félagsmótandi og að miklu leyti orsakavaldandi sem slík. Þess vegna er mikilvægt að þetta tiltekna mál fái athygli sem skyldi. Orðræðan hefur ekki eingöngu skaðleg áhrif á samband stjórnmála við samfélagshópa þess, heldur kastar hún einnig rýrð á Alþingi og skaðar ímynd þess sem stofnunar – sem ýtir undir enn frekari vantraust kjósenda í garð stjórnmála og stjórnmálamanna. Það út af fyrir sig er alvarlegt vandamál. Vantraustið er nógu mikið fyrir. Ekki er þetta mál til þess fallið að auka trúverðugleika þingmanna, en trúverðugleiki er frumforsenda þess að einn geti treyst öðrum; að aðili A geti treyst aðila B til að gera X – í sem einfaldasta og stysta máli sagt. Þegar þingmenn bera jafnrétti og umbætur fyrir sig á tyllidögum, en grafa síðan undan slíkum gildum í einrúmi, þá verður forsendubresturinn til þess að trúverðugleiki þeirra verði lítt marktækur.

Það er betra fyrir stjórnmálamenn að viðurkenna mistök og upplýsa um eigin vanþekkingu eða vanhæfni í tilteknu máli fyrir fram, þegar slíkt er raunin, fremur en að sú vanhæfni eða vanþekking komi upp á yfirborðið síðar. Þegar yfirlýsingar stjórnmálamanna um hæfni, kunnáttu eða afstöðu stangast á við við það sem satt og raunverulegt er – þegar ekki er innistæða fyrir slíkum yfirlýsingum – þá geta afleiðingarnar verið alvarlegar fyrir stjórnmálamenninguna í heild sinni. Þær afleiðingar grafa undan stöðu og ásýnd stjórnmálamannsins vegna vanhæfni eða vanþekkingar – auk þess sem trúverðugleiki hans hlyti skaða sem yrði til þess að draga úr jákvæðri ásýnd og trausti gagnvart stjórnmálamanninum sjálfum, og gagnvart sviði stjórnmálanna í heild sinni og því trausti sem borið er til þess.

Aukið vantraust og frekari óánægja kjósenda er ekki eingöngu vandamál hérlendis, heldur hefur slíkt verið áberandi þróun á heimsvísu, ekki síst innan Vesturlanda. Vísbendingar um slíkt má einna helst sjá í aukinni skautun stjórnmála (e. political polarization). Áhrifanna má einna helst sjá vestanhafs í Bandaríkjunum. Í auknum mæli hafa fjölmiðlar þarlendis fjallað um hæfni forsetans sérstaklega, fremur en málefni ríkisstjórnar hans. Jafnframt hefur umfjöllun um eiginleika og einkenni forsetans aukist, á kostnað umfjöllunar um tiltekin málefni líðandi stundar. Þessi þróun virðist hafa aukist frá aldamótum, en einnig náð hámarki í tíð núverandi forseta. Hún kann að renna stoðum undir þá kenningu að aukin skautun stjórnmála leiði til aukinnar hópa- og hólfaskiptingar eftir hugmyndum og hagsmunum, sem síðar leiðir til aukinnar forherðingar gagnvart eigin heimsmynd – samhliða auknu vantrausti og óþoli gagnvart andstæðri heimsmynd og hugmyndafræði.

Þessi skautun ku vera helsta ógn lýðræðisskipulags nútímans, en hún hefur smám saman grafið undan veigamiklum gildum þess. Áhrifa hennar gætir einna helst í auknu vantrausti og frekari óánægju kjósenda – auk þess sem stjórnmálin virðast átakameiri nú en áður og að minna virðist um samstarf, samráð og gagnkvæma virðingu innan stjórnmálanna. Það má yfirfæra á svið fjölmiðla til að meta afstöðu og upplifun stjórnmálamanna og kjósenda þeirra af ólíkri umfjöllun fjölmiðlanna, þar sem frekari óþol og óánægja í garð andstæðra hugmynda hefur breikkað gjána þeirra á milli og ýtt undir vantraust í garð fjölmiðla og stjórnmálamenningarinnar sjálfrar. Vegna þeirrar þróunar virðist sem samfélagið sé tvískipt og raunveruleikinn tvenns konar. Stjórnmálamenn og kjósendur lýsa raunar tveimur ólíkum ríkjum þegar þeir lýsa helstu markmiðum og vandamálum Bandaríkjanna.

Fylgifiskur þeirrar þróunar er meðal annars breyting á því hvernig fólk nálgast upplýsingar, metur þær og vinnur úr þeim – ekki síst hvað varðar umfjöllun fjölmiðla og álitsgjafa þeirra. Þó að frekari tæknivæðing og stærri þáttur samfélagsmiðla í upplýsingagjöfinni geri okkur kleift að nálgast upplýsingar með gagnsærri og auðveldari hætti en áður, þá er það ekki í eðli sínu af hinu góða – og gæði þess og gagn ávallt undir okkur sjálfum komið. Aukið svigrúm og valfrelsi í upplýsingagjöf getur gagnast okkur til að taka upplýstari ákvarðanir og kann að veita okkur óháðari og hlutlausari upplýsingar og umfjallanir en áður. Það getur þó einnig grafið undan sjálfu sér, þar sem hið aukna svigrúm og framboð upplýsinga getur reynst okkur yfirþyrmandi. Fyrir vikið getum við freistast til að halda sem fastast í fyrir fram gefna sýn okkar og heimsmynd, nálgast upplýsingarnar út frá þeirri forsendu – og staðfest hana með hlutdrægum upplýsingum okkar.

Þá er kannski við hæfi að spyrja sig; hvernig metum við þær upplýsingar sem koma fram í þessari grein? – Er hægt að sammælast um það að aukið vantraust og frekari gjá innan stjórnmálamenningar einkenni ástandið nú til dags? – Vitanlega tala fyrirliggjandi gögn sínu máli, en gögnin eru hlutlaus í eðli sínu. Þau geta sýnt fram á eina þróun undir tilteknum aðstæðum, en allt aðra í annars konar aðstæðum. Jafnframt getur vel verið um eina ákveðna þróun að ræða sem nú er einkennandi, en hún þarf ekki að vera svo frábrugðin ástandi síðustu aldar, eða þar á undan og svo framvegis. Þetta eru auðvitað allt spurningar sem spyrja má að leikslokum.

Við höfum þá tilhneigingu til að ýkja viðbrögð okkar og viðleitni; að telja þróun ýmist of neikvæða og jákvæða. Líklegast fellur núverandi ástand stjórnmála þar á milli. Sé litið til þeirra þátta sem helst ógna gildum lýðræðissamfélagsins, þá hefur ástandið auðvitað verið talsvert verra áður, ekki þarf að líta til fjarlægari fortíðar en fyrri hluta 20. aldar því til staðfestingar – en jafnframt hefur ástandið verið betra en nú til dags, sé litið til síðari hluta 20. aldar samanborið við ástandið í dag. Það sem við getum gert er hið sama og okkur ber að gera í öllu öðru. Við getum verið vakandi fyrir yfirvofandi hættum, án þess að verða móðursjúk eða óttadrifin, og umfram allt gert okkar til að snúa ástandinu í betra horf hverju sinni.

Bjarni Halldór Janusson

Stjórn & pistlahöfundur

Bjarni Halldór er stjórnmálafræðingur að mennt og hefur nýlokið meistaranámi í stjórnmálaheimspeki við University of York í Bretlandi. Skrif hans hverju sinni munu beinast að helstu málefnum félags- og hugvísinda. Þá verða málefni líðandi stundar og hugmyndafræðilegar vangaveltur fyrst og fremst til umfjöllunar. Hann hefur lengi látið sig félagsmál varða, en þar ber helst að nefna varaþingmennsku á Alþingi og setu í Stúdentaráði HÍ.