Stjórnarmyndunarumboð án tilgangs?

eftir Ritstjórn

Það dró loks til tíðinda í stjórnarmyndunarviðræðum á föstudaginn. Eftir að slitnaði upp úr viðræðum Bjarna Benediktssonar og Katrínar Jakobsdóttur fyrr í síðustu viku boðaði forseti Íslands fulltrúa flokkanna á sinn fund. Í kjölfarið var þingflokksformanni/leiðtogi Pírata, Birgitta Jónsdóttir, boðuð á fund forseta þar sem henni var afhent stjórnarmyndunarumboðið.

Sú staða sem er komin upp er athyglisverð fyrir margar sakir. Einkum vegna þess að frá því að Katrín Jakobsdóttir skilaði stjórnarmyndunarumboðinu þann 25. nóvember síðastliðinn og í kjölfarið tók við tímabil þar sem enginn hafði hið eiginlega stjórnarmyndunarumboð, þar til á föstudaginn.

Lesa má ýmislegt í þá ákvörðun Guðna Th. Jóhannessonar forseta að veita engum umboðið. Eftir að búið var að reyna að mynda tvær ríkisstjórnir, aðra á hægri vængnum og hina á vinstri vængnum, þá hefur hann ekki talið líklegt til árangurs að veita næsta flokki í stærðarröðinni, Pírötum sjórnarmyndunarumboðið.

Þótt ótrúlegt megi virðast þá áttu sér stað óformlegar stjórnarmyndunarviðræður þrátt fyrir að enginn hefði umboðið, sem segir svolítið til um ágæti þessa blessaða umboðs. En Sjálfstæðisflokkurinn og Vinstri græn settust niður við óformlegar viðræður nokkra daga áður en þær viðræður runnu út í sandinn. Bæði á meðan þeim viðræðum stóð og eftir þær voru þó talsverðar umræður um að taka annan snúning á DAC stjórnina og 5 flokka stjórnina.

Það hvað við annað hljóð í Guðna eftir að hann hitt formenn allra flokka síðastliðinn föstudag. Þá hafði bæði Katrín Jakobsdóttir og Benedikt Jóhannesson óskað eftir því að gerð yrði hvíld á viðræðum fram yfir helgi. En forsetinn sá enga ástæðu til þess að staldra við og lét Pírata fá umboð til stjórnarmyndunar en þeir vilja gera aðra tilraun við 5 flokka stjórn

Það stakk því svolítið í stúf þegar fulltrúar þessara 5 flokka fóru að tjá sig um þessa ákvörðun forsetans. Katrín Jakobsdóttir segist ekki átta sig á á því hvað a forsendur hafa breyst síðan þetta 5 flokka stjórnarsamstarf var reynt síðast og telur vænlegra til árangurs að mynda þjóðstjórn og boðað yrði til kosninga í kjölfar þess. Þorgerður Katrín telur það óþarft að veita einhverjum ákveðnum flokka stjórnarmyndunarumboð og það skipti í raun og veru ekki máli hver hafi umboðið. Þorsteinn Víglundsson er sammála flokksystur sinni og telur það hafa verið mistök að fela einhverjum umboð til stjórnarmyndunar á þessum tímapunkti.

Það eru því afar misvísandi skilaboð á lofti. Annars vegar telur forsetinn að Píratar séu best til þess fallnir að mynda ríkisstjórn. Hins vegar eru fulltrúar þeirra flokka sem eiga að fara í viðræður við Pírata að draga þessa ákvörðun forsetans í efa. Það er því nokkuð ljóst að það eru einhver púsl sem vanta í þetta púsluspil sem munu skera úr um hvort af þessari ríkisstjórn verður eða ekki.

Ritstjórn

Ritstjórn

Ritstjórn Róms skipa Björn Már Ólafsson, Ísak Rúnarsson, Tryggvi Másson, Erla María Tölgyes, Jónína Sigurðardóttir og Oddur Þórðarson.