Stemningsmyndir og stemningsmenn

eftir Þórhallur Valur Benónýsson

Ég var nýverið í gullbrúðkaupsveislu ömmu minnar og afa. Meðan á veislunni stóð rúlluðu myndir sem teknar hafa verið í tíð hjónabandsins og ég hef í raun hugsað um lítið annað síðan. Á tímum Instagramglamúrs og fullkomnunaráráttufegrunarforrita þar sem allir líta út eins og sótthreinsaðir guðir á hverri einustu mynd sem birt er af þeim hefur gjarnan gleymst að taka tillit til sögulegs gildis ljósmynda. 

Gamlar ljósmyndir hafa mikið gildi þegar kemur að því að skilja tíðaranda og stemningu. Það er hægt að nota ljósmyndir með svipuðum hætti og dagbók Tom Riddle og sogast inn í fortíðina með því að virða þær fyrir sér. Mér fannst ég allt í einu vera mættur í partý árið 1973 þar sem setið var og spilað á spil, einhverjir menn á bumbunni og aðrir í skyrtum. Sumir að fá sér og aðrir að borða. Það var augljóst að nýlega hafði verið sagður slæmur brandari eða framkvæmdur góður hrekkur því einhverjir voru enn glottandi og sumir virtust vera að hrista hausinn. Það var greinilegt að fólki leið vel í nærveru hvers annars og var að skemmta sér. Myndin fangaði nákvæmlega stemninguna sem var í gangi, enginn fékk að stilla sér upp og líklega vissi enginn að til stæði að smella af mynd. 

Niðurstaðan er hreinskilin mynd sem skilar raunverulegri og ósvikinni stemningu til þess sem virðir hana fyrir sér. Það er erfitt að sjá fyrir sér að eftir 50 ár muni einhver líta á mynd af einstaklingi upp við vegg með ölkollu í hendi þar sem stendur undir “Frábært kvöld með besta fólkinu mínu” og upplifa snefil af stemningu. Hverjir voru með þetta kvöld? Hver flokkast sem besta fólkið? Hvað var gert? Var raunverulega gaman? Fórstu í raun og veru út? Hef ég rétt fyrir mér bara af því að ég móðgaðist? Hvað hafa framtíðar kynslóðir gert fyrir mig? Þetta eru spurningar sem munu mögulega vakna og stemningin þetta kvöld lifir ekki áfram með komandi kynslóðum. 


Mér finnst ekki ólíklegt að það séu fleiri sömu skoðunar og ég hvað þetta varðar og ég tel það útskýra afhverju filmumyndavélar eru enn vinsælar. Innst inni erum við flest bara stemningsfólk sem fílar stemningsmyndir. Ég vona að sterilíseruðu instabombumyndirnar sem láta öllum líða verr með sjálfan sig nema aðilann á myndinni séu á undanhaldi og við förum að sjá enn meira af stemningsmyndum. Kæri lesandi, ég er stemningsmaður og næst þegar þú ætlar að taka mynd máttu gjarnan hugsa “minni steríll og meiri stemning.”

Þórhallur Valur Benónýsson

Pistlahöfundur

Þórhallur Valur er laganemi við Háskóla Íslands. Hann hefur tekið virkan þátt í starfi ýmissa félaga t.d. Orator og NFVÍ auk þess að hafa verið varaformaður og oddviti Vöku fls. Þórhallur starfar hjá Verði tryggingum. Helstu áhugamál hans eru knattspyrna, tónlist og öll þau málefni líðandi stundar sem honum finnst sig varða. Skrif hans á Rómi munu snúast að hverju því sem honum finnst sig varða þá stundina.