Stefnu- og aðgerðalaus ríkisstjórn

eftir Ritstjórn

Í umræðum um stefnuræðu forsætisráðherra gagnrýndi Sigmundur Davíð ríkisstjórnina fyrir skort á sýn og almennt stefnuleysi. Sagði hann að ekki lægi fyrir að gera nokkurn skapaðan hlut undir merkjum ríkisstjórnarinnar.

Því hefur verið haldið fram að ríkisstjórnin sé mynduð um frjálslynd gildi þó alltaf lægi fyrir að helst mætti gagnrýna stjórnararsáttmálann út frá þeirri forsendu að hann væri ekki nógu afdráttarlaus. Í ritstjórnarpistli þessa miðils sem birtist 15. janúar var talið afdráttarleysið yrði lítið vandamál og sáttmálinn væri heilt yfir góður. Svo virðist þó sem að afstaða miðilsins hafi vanmetið stefnuleysi ríkisstjórnarinnar.

Þessi miðill hefur ekki lagt það í vana sinn að taka undir með Sigmundi Davíð en rétt skal vera rétt og á þessari stundu lítur út fyrir að karlinn hafi haft lög að mæla. Eitt merki þess er að á fyrstu 45 dögum þessarar ríkisstjórnar hafa aðeins komið fram fimm stjórnarfrumvörp. Til samanburðar voru lögð fram tíu stjórnarfrumvörp á fyrstu 45 dögum síðustu ríkisstjórnar. Þar að auki er hverjum sem fylgist með pólitík ljóst að lítið er að gerast og ríkisstjórnin eftir allt saman mynduð frekar um ráðherrastóla en aðgerðir. Helst kemst í fréttir þegar að stjórnarþingmenn segjast ekki ætla að styðja fyrirhuguð lagafrumvörp stjórnarinnar.

Þá virðist hratt fjara undan þeim frjálslyndisgildum sem standa átti vörð um og berjast fyrir. Fyrir það fyrsta er áfengisfrumvarpið dautt enn eina ferðina og stjórnarliðar keppast um að lýsa andstöðu sinni við það. Það er raunar merki um algert hugleysi að þessi frjálslyndasta ríkisstjórn sögunnar hafi ekki haft hugrekki til þess að gera áfengisfrumvarpið að stjórnarmáli og afgreiða það í eitt skipti fyrir öll. Þá virðist fjármálaráðherra hafa misskilið hrapallega hvað felist í því að endurskoða peningastefnu landsins og telur nú að hann geti losnað við krónuna með því að banna seðla og myntir. Heilbrigðisráðherra stendur svo í þeirri trú að allt sé þetta sama tóbakið, stjórnlyndið og frjálslyndið, en hann keppist við að skilgreina rafrettur í sama flokk og annað tóbak þrátt fyrir að rafrettur séu langt um hættuminni. Raunar ætti að skilgreina þær sem hjálpartæki til þess að losna undan tóbaksfíkn ef skilgreina ætti á einhvern hátt en það er annað mál.

Svo virðist sem þessi ríkisstjórn ætli sér að feta hinn versta mögulega veg. Að leggja frjálslynd gildi á hilluna á meðan hún leikur sér í embættismannaleik. Hins vegar verður að halda í vonina um að hún finni sinn veg, marki sér skýra stefnu og setji einhver alvöru mál af stað. Verst er að engin teikn eru á lofti um það.

Ritstjórn

Ritstjórn

Ritstjórn Róms skipa Björn Már Ólafsson, Ísak Rúnarsson, Tryggvi Másson, Erla María Tölgyes, Jónína Sigurðardóttir og Oddur Þórðarson.