Spennandi tímar framundan

eftir Elís Orri Guðbjartsson

Það er fátt þreyttara en innantómi frasinn „spennandi tímar framundan!“ sem birtist reglulega á hverjum samfélagsmiðlinum á fætur öðrum. Sjálfur hef ég gerst sekur um að flagga frasanum í heila stöng, en það gerði ég síðast þegar ég var að stíga mín fyrstu skref í Háskóla Íslands og útvarpaði því fyrir vinum og vandamönnum hversu gífurlega spenntur ég væri fyrir komandi háskólanáminu. Einbeittur brotavilji af minni hálfu.

Það virðist varla skipta máli hvað við tökum okkur fyrir hendur því í stóra samhenginu er framtíðin spennandi, og þá er ég ekki að tala um lánasjóðinn. Sagt er að erfitt sé að spá og sérstaklega um framtíðina, en það má eflaust slá því föstu að hún verður spennandi. En er hún spennandi á góðan eða slæman hátt?

Í grænum sjó

Kína er vaxandi stórveldi, sem á einungis eftir að stækka. Fullveldi ríkja og landamæri þeirra, bæði á sjó og á landi, eru mikilvægustu hugmyndirnar í alþjóðastjórnmálum. Eins og hendi væri veifað hefur Kína mölbrotið þessar hugmyndir og hernumið stóran hluta Suður-Kínahafs. Með því valtaði það yfir Víetnam, Taívan, Malasíu, Filipseyjar og Brúnei sem áttu, mismikið, tilkall til svæðisins sem Kína telur nú að tilheyri sér og hunsar vísvítandi alþjóðleg lög. Svæðið er gríðarlega efnahagslega mikilvægt, ekki einungis vegna olíu- og gasauðlinda, heldur er það einnig mikilvæg siglingarleið viðskipta.

Fyrst Bandaríkin sitja aðgerðarlaus á hliðarlínunni, ætli Rússland íhugi að leika sambærilegan leik í Svartahafi?

Góður granni gulli betri

Indland og Pakistan hafa í gegnum tíðina eldað grátt silfur saman og standa nú yfir illvígar deilur, með tilheyrandi dauðsföllum sem rekja má til Kashmir, landsvæðis sem bæði ríki gera tilkall til. Stöðugur núningur hefur verið á milli nágrannanna tveggja frá árinu 1947 og hafa þrívegis brotist út stríðsátök á milli þeirra, síðast fyrir rúmum fimmtán árum. Það virðist fátt benda til þess að raunveruleg lausn sé í sjónmáli og vert er að minnast þess að bæði ríkin búa yfir kjarnorkuvopnum, þó þau hafi aldrei verið líkleg til að viðra þau á einn eða annan hátt.

Sundraðar Sameinuðu þjóðirnar

Þegar Sameinuðu þjóðirnar ber á góma má vitna í Gunnar Braga: Hvar er kjarkurinn? Öryggisráð SÞ samanstendur af fimmtán ríkjum, og eiga fimm ríki þar fast sæti; Kína, Frakkland, Rússland, Bretland og Bandaríkin, sem öll búa yfir neitunarvaldi. Neitunarvaldið hefur gert það að verkum að eitt ríki getur komið í veg fyrir að aðgerðir hefjist, sem hefur ítrekað verið misnotað.

Stjórnarhættir Sýrlands, undir al-Assad, henta Rússlandi og því hefur það beitt neitunarvaldi sínu fjórum sinnum þegar kosið hefur verið um umbætur þar í landi, þrátt fyrir að tala fallinna nálgist hálfa milljón. Bandaríkin beita sömuleiðis neitundarvaldi sínu óspart þegar leitað er lausna við deilum Ísraels og Palestínu.

Þar með er þó ekki sagt að neitunarvaldið sé það eina sem hindrar aðgerðir Sameinuðu þjóðanna. Sameinuðu þjóðirnar hafa setið nær aðgerðarlausar á hliðarlínunni í Suður-Súdan, þar sem að minnsta kosti þrjúhundrað þúsund látist á síðustu tveimur árum vegna borgarastríðs, og á tuttugu ára tímabili í Austur-Kongó er fjöldi látinna rúmlega  sex milljónir. En hver er svo sem að telja.

Það má því velta fyrir sér hversu sameinaðar þjóðirnar eru eftir allt saman.

Gerendur óháðir ríkjum

Gerendur óháðir ríkjum (e. non-state actors), þ.e. hvers kyns gerandi á alþjóðasviðinu sem sækir ekki vald sitt til ríkis, hafa sprottið upp eins og gorkúlur og hafa ríki átt í fullu fangi með að halda aftur af þeim, aðallega vegna þess að þeir eru ekki niðurnjörvaðir við ákveðin landamæri.

Í kjölfar örra tækninýjunga er sífellt auðveldara að komast yfir vopn. Flygildi (e. drones), sem auðvelt er að nálgast, eru sagðir vopn 21. aldarinnar og með því að kaupa þrívíddarprentara er bókstaflega hægt að prenta út hverja byssuna á fætur annarri. Auðveldara getur það varla orðið.

Björtu hliðarnar

Á sambærilegum nótunum mætti lengi halda áfram; vandamálin samhliða loftlagsbreytingum, aukinn fjöldi flóttamanna í heiminum, uppgangur öfga-þjóðernisflokka í Evrópu, væntanlegt gjaldþrot Venesúela og efnavopnatilraunir Norður-Kóreu, svo fátt eitt sé nefnt.

Það er þó mikilvægt að horfa framhjá þessum melankólíska raunveruleika og einblína frekar á björtu hliðarnar. Íslenska ríkisstjórnin hefur á kjörtímabilinu niðurfellt vörugjöld á raftæki og getum við því keypt okkur glænýtt sjónvarp á spottprís og fylgst með heiminum hrynja í kringum okkur í háskerpu.

Svo sannarlega spennandi tímar framundan!

Elís Orri Guðbjartsson

Pistlahöfundur

Elís Orri er meistaranemi í alþjóðastjórnmálum við London School of Economics (LSE). Hann tók virkan þátt í stúdentapólitíkinni í Háskóla Íslands og gegndi þar ýmsum trúnaðarstörfum, bæði f.h. Röskvu og Stúdentaráðs, ásamt því að sitja í stjórn ungliðahreyfingar stjórnmálaflokks. Hann er nautnaseggur af bestu gerð og nýtur sín best í góðra vina hópi, sérstaklega með rauðvínsglas í hönd.