Sóknargjöld: sokkinn kostnaður

eftir Arnór Bragi Elvarsson

Þessa grein tekur 3 mínútur að lesa

Íslendingar hafa frest út mánuðinn til þess að skipta um trú fyrir næsta ár. Fyrir buddu skattgreiðenda skiptir engu máli í hvaða trúfélag það er skráð: sóknargjöld skattgreiðenda eru alltaf hirt og færð á reikning trúfélags, þangað sem maður sækir mögulega aldrei messu. Messur Þjóðkirkjunnar eru ekki jafn vel sóttar og áður: Síðastliðin ár hafa Íslendingar flykkst úr Þjóðkirkjunni yfir í Siðmennt, Fríkirkjuna, eða jafnvel Zúista. Sá sem þetta skrifar telur til síðastnefnda hópsins, án þess þó að vera Zúistatrúar.

Stofnað var til trúfélags utan um Zúistatrú til þess að gera öllum félögum þess kleift að fá sóknargjöld sín endurgreidd. Félagsaðild í trúfélaginu rauk upp úr öllu valdi og tæpt 1% þjóðarinnar var tilbúið að taka þátt í tilrauninni og mótmæla núverandi kerfi þar sem ríkið stundar skattlagningu fyrir fjármögnun trúfélaga. Slíkt fyrirkomulag er óheppilegt; ef þjónustu trúfélaga er virkilega þarfnast eiga trúfélög að geta reitt sig á félagsmenn þess án aðkomu ríkisins.

Síðan undirritaður skráði sig í Zúista hefur fyrrverandi formaður félagsins séð sér gott til glóðarinnar, fengið stjórnarskipti dæmd ólögmæt, rekið fyrrverandi stjórn úr félaginu og situr nú á félagssjóði með sóknargjöldum um 2.000 manns, en þar af sækja ekki allir um endurgreiðslu sóknargjalda úr sjóðum félagsins. Önnur sóknarbörn trúfélagsins spyrja sig því eflaust hvert þessir peningar fara víst trúfélagið stendur hvorki undir kostnaði messa né vöffluboða. Á síðasta ári vildi formaður Zúista ekki veita fjölmiðum upplýsingar um fjárhagsstöðu félagsins þegar Vísir kom að dyrum.

Á sama tíma og trúfélögum með misgóðan ásetning er greitt úr ríkissjóði gerir fjármálaráðherra sig uppvísan um að gera lítið úr gagnrýnendum aðskilnaðar ríkis og kirkju. Helsti gagnrýnandi Þjóðkirkjunnar er þó þjóðin sjálf: 33 prósent íbúa standa árið 2018 utan Þjóðkirkjunnar skv. Hagstofu. Þar af hafa 12% skráð sig úr Þjóðkirkjunni á sl. 10 árum, og 22% frá aldamótum.

Árið 1997 gerði ríkið samning við Þjóðkirkjuna um kaup á landi. Þessi samningur bindur enn frekar saman hagsmuni ríkis og kirkju og virðist ekki hafa verið hefðbundinn kaupsamningur milli tveggja aðila. Það fer ekki á milli mála að ríkið eigi að standa við kaupin á eign kirkjunnar og borga sanngjarnt verð fyrir þá eign sem hafði verið í haldi ríkisins frá því löngu áður. Þetta eru þó engin haldbær rök fyrir því að á Þjóðkirkju sé meiri þörf en öðrum trúfélögum. Fráleitt er að fjármálaráðherra haldi því fram að vanhæfni ungs fólks sem aldrei hafi lent í áföllum á lífsleiðinni réttlæti það að Ríkissjóður greiði stjarnfræðileg laun sumra sóknarpresta. Trúfrelsi felur í sér skýra kröfu að engri trú og engum trúendum sé umbunað frekar en öðrum. Aðskilnaður ríkis og kirkju er því óhjákvæmilegur.

Undirritaður hefur fundið ríkan stuðning frá prestum Þjóðkirkjunnar og annara í gegnum tíðina, og greitt fyrir, en trúfélag verður líklega valið af handahófi þetta árið. Hin Lúterska kirkja mun ekki hljóta mín sóknargjöld fyrr en sterkari skil hafa verið gerð milli hennar og ríkisins. Þangað til verður hlustað á öll gylliboð annara trúfélaga enda eru sóknargjöld ekki annað en sokkinn kostnaður.