Snúin staða í íslenskum stjórnmálum

eftir Bjarni Halldór Janusson

Eftir að niðurstöður nýliðinna Alþingiskosninga lágu fyrir var öllum ljóst að staðan yrði verulega snúin. Tilkoma nýrra flokka gerði það að verkum að ekkert þótti augljóst þegar kæmi að myndun ríkisstjórnar. Nú hafa tvær tilraunir til að mynda ríkisstjórn runnið út í sandinn vegna málefnalegs ágreinings.

Fyrst áttu sér stað viðræður milli Sjálfstæðisflokks, Bjartrar Framtíðar og Viðreisnar. Skipaðir voru málefnahópar og málin rædd í þaula. Ekkert varð úr þeim viðræðum og formaður Sjálfstæðisflokks sleit þeim vegna málefnalegs ágreinings. Fyrst og fremst urðu ólíkar stefnur í sjávarútvegsmálum og Evrópumálum valdurinn að því, en þar bar mest á milli flokka.

Síðar áttu sér stað viðræður milli Vinstri grænna, Pírata, Samfylkingarinnar, Bjartrar framtíðar og Viðreisnar. Líkt og í fyrri viðræðum voru málin rædd í þaula, en mest bar á milli flokka í sjávarútvegsmálum, landbúnaðarmálum og efnahagsmálum, eins og auðvitað var alkunnugt áður en viðræður hófust. Það varð ásteytingarsteinn þessa viðræðna þegar formaður Vinstri grænna ákvað að slíta þeim viðræðum.

Það er eðlilegt að stjórnmálaflokkar séu ekki sammála um allt. Væru allir sammála um allt á þingi væri það ansi einsleitt og hugmyndasnautt. Ágreiningur manna á milli er þess vegna eðlilegur í stjórnmálum. Þó þarf á næstunni að leysa þann ágreining milli flokka, svo hægt sé að mynda starfhæfa ríkisstjórn. Því er tilvalið að fara yfir þau atriði þar sem ágreiningurinn er hvað mestur og erfiðast gæti reynst að leysa úr.

Ágreiningur í efnahagsmálum

Ágætis samhljómur er hvað ríkisfjármál varðar og eru flestir flokkar fylgjandi því að auknum fjármunum sé varið í uppbyggingu innviða, þó ágreiningur sé raunar um hversu miklu skuli varið til hinna ýmsu samfélagsmála og hvaða leiðir skuli fara til að afla ríkinu tekna. Þó ekki hafi verið mikill ágreiningur um þetta í fyrri viðræðum þá var verulegur ágreiningur til staðar í seinni viðræðum, fyrst og fremst hvað varðar leiðir ríkisins til að afla tekna.

Mikill áhugi var fyrir því meðal vinstriflokka að skattar á einstaklingar yrðu hækkaðir verulega. Uppi á borðinu voru hugmyndir um margs konar skattahækkanir, jafnt táknrænar sem og aðrar sem hefðu íþyngjandi áhrif á einstaklinga og fyrirtæki. Það samræmist illa þeirri áætlun sem Viðreisn hefur lagt fram. Þar er lögð áhersla á að endurraða fjárfestingum ríkisins í þágu grunnþjónustu þess, án þess að komi til skattahækkana á almenning. Það yrði gert með því að lækka árlega vaxtabyrði hins opinbera, draga úr rekstri ríkisins þar sem ekki er þörf á beinni hlutdeild þess, svo sem í fjármálageira, ásamt því að nýta fjármuni betur og eyða ekki fjármunum að óþörfu.

Varasamt er að ráðast í þær skattahækkanir sem boðaðar voru eða auka útgjöld um hátt í 70 milljarða kr. við núverandi stig hagsveiflunnar, þar sem nú þarf að vara sig á að stuðla ekki að aukinni þenslu í hagkerfinu. Einnig má velta fyrir sér hvort slík aukning væri yfirhöfuð sjálfbær, þar sem tekjustofnar hins opinbera færu lækkandi með hagsveiflu niður á við.

Ágreiningur í landbúnaðarmálum

Í landbúnaðarmálum birtist ágreiningur með skýrum hætti í orðum eða gjörðum flokka. Í fyrri viðræðum var auðvitað samið við þann flokk sem stóð að gerð nýrra búvörulaga – og því ljóst að erfitt yrði að semja um stórfelldar breytingar á sviði landbúnaðarmála. Þó ber að nefna að í viðræðum hafi sá flokkur verið móttækilegur fyrir mikilvægum breytingum í landbúnaðarmálum.

Í síðari viðræðum átti eftir að taka landbúnaðarmál almennilega til umræðu og því ekki með allri vissu hægt að spá fyrir um framgang mála þar. Þó má ætla að verulega erfitt hefði orðið að semja um breytingar, stórfelldar eða ekki, í ljósi þess að stærsti flokkurinn í þeim viðræðum stendur gegn breytingum á sviði landbúnaðar. Þannig skrifaði þingmaður Vinstri grænna, sá sami og leiddi vinnu málefnahóps atvinnuvegamála í nýliðnum viðræðum um stjórnarmyndun, grein í Bændablaðið þar sem hún gagnrýndi breytingar á tollafyrirkomulagi og lagðist gegn auknum innflutningi landbúnaðarafurða. Einnig hefur fyrrum formaður Vinstri grænna kallað eftir auknum stuðningi til bænda við gerð búvörulaga. Hann gagnrýndi nýgerða búvörusamninga á þingi í haust fyrir að ganga ekki nógu langt.

Ágreiningur í sjávarútvegsmálum

Hvað sjávarútvegsmál varðar er staðreynd málsins sú að í fyrri viðræðum steytti á að öllu leyti og að miklu leyti í síðari viðræðum. Í fyrri viðræðum voru annars vegar þeir aðilar sem vildu breytt fyrirkomulag gjaldtöku, þar sem auðlindagjaldtöku í formi veiðileyfagjalda yrði skipt út fyrir auðlindagjaldtöku í formi uppboðs veiðiheimilda. Hins vegar voru þeir sem stóðu gegn slíkum breytingum.

Í síðari viðræðum voru annars vegar þeir sem – eins og fyrr segir – vildu innheimta auðlindagjald í gegnum uppboð veiðiheimilda. Hins vegar voru þeir sem mögulega voru opnir fyrir því, en vildu fyrst og fremst leita annarra leiða. Ætla má að það hafi þýtt aukið vægi byggðapotta þegar kæmi að veiðiheimildum – sem þýðir skerðingu annarra veiðiheimilda, ásamt því að fara blandaða leið gjaldtöku, þar sem veiðileyfagjald yrði einnig hækkað.

Vegna ólíkra hugmynda og þeirrar staðreyndar að engin afstaða hafði verið tekin, þá hafði – eðli málsins samkvæmt – lausn í málinu ekki náðst. Á þeim tíma var ekki um allt gefið að almennileg sátt næðist, miðað við mjög ólíkar hugmyndir samningsaðila. Það er staðreynd ef miða má við ólíka stefnu þeirra flokka sem komu að viðræðunum, auk ólíkra viðhorfa til breytinga í sjávarútvegsmálum, en þau viðhorf komu sérstaklega fram á þingi hjá þeim þingmanni sem var fulltrúi Vinstri grænna í stjórnarmyndunarviðræðum um atvinnuvegamál. Að lokum ber að nefna að þó uppboð hafi verið í samstarfsyfirlýsingu Vinstri grænna og Samfylkingarinnar árið 2009 varð ekkert úr því.

Sé ekki brugðist við vaxandi óánægju vegna mikillar arðmyndunar í sjávarútvegi verður það kvótakerfinu að falli, líkt og Ásgeir Jónsson benti á í fréttabréfi Virðingar í síðustu viku. Ljóst er að nauðsynlegt er að ná sátt í þessu máli. Þar er mikilvægt að gefa hvorki of lítið, né að biðja um of mikið – sætta þarf ólík sjónarmið. Þá er hvorki hægt að standa gegn öllum breytingum í þessari atvinnugrein, né að leggja óhóflega byrði á hana.

Að lokum

Hvernig sem viðræður fara verður að koma í ljós. Nú er það verkefni allra að huga að stórum markmiðum framtíðarinnar, takast á við vandamálin af fullum krafti og boða raunhæfar lausnir í þeim málum sem við viljum leysa. Það þarf að gera í sameiningu og í samstarfi allra þingflokka.

Bjarni Halldór Janusson

Stjórn & pistlahöfundur

Bjarni Halldór er stjórnmálafræðingur að mennt og hefur nýlokið meistaranámi í stjórnmálaheimspeki við University of York í Bretlandi. Skrif hans hverju sinni munu beinast að helstu málefnum félags- og hugvísinda. Þá verða málefni líðandi stundar og hugmyndafræðilegar vangaveltur fyrst og fremst til umfjöllunar. Hann hefur lengi látið sig félagsmál varða, en þar ber helst að nefna varaþingmennsku á Alþingi og setu í Stúdentaráði HÍ.