Snjallt símabann?

eftir Björn Már Ólafsson

Það vakti mikla athygli í vor þegar fréttir bárust um að Frakkar ætluðu að banna farsíma alfarið í grunn- og leikskólum. Líklega var það afdráttarleysið í fréttaflutningnum sem vakti athygli enda mætti halda að franskir unglingar mættu aldrei framar nota símtæki sín í skólastofunum en á þessu banni Frakka eru nokkrar undantekningar sem rúmast ekki í fyrirsögnum.

Til dæmis geta skólar sjálfir sett sér aðrar reglur um farsímanotkun. Þannig er í raun um að ræða símabann í kennslustofum og á leiksvæðum nema ef um neyð er að ræða eða símarnir eru notaðir í fræðsluskyni.

Í vor bar Sveinbjörg Birna Sveinbjörnsdóttir fram tillögu af svipuðum meiði í borgarstjórn Reykjavíkur. Tillagan var felld með svo miklum meirihluta að það minnti á úrslitin í sögufrægu tapi íslenska karlalandsliðsins í Parken. 14-1 var niðurstaðan.

Í þessu máli vakna hjá mér tvær spurningar:

1) Er farsímanotkun vandamál í skólastofum á Íslandi og 2) eru stjórnmálin rétti staðurinn til að leysa vandamálið?

Við fyrri spurningunni virðist svarið vera já, miðað við ýmsar skoðanagreinar kennara og aðstandenda. Það gefur auga leið að ýmislegt mikilvægt námsefni á grunnskólastigi stenst ekki samkeppnina frá samfélagsmiðlum á borð við Facebook og Instagram. Hvorki í skólastofunni né við heimanámið. Íslendingasögurnar senda nemendum ekki notification þegar eitthvað spennandi er að gerast og stílabókin er ekki gagnvirk. Gríðarstór fyrirtæki út um allan heim eyða milljörðum króna ár hvert í að þróa leiki sem eru ávanabindandi fyrir börn og unglinga. Foreldrar þekkja það margir hverjir sjálfir að nota farsíma og samfélagsmiðla þegar fundirnir á vinnustaðnum verða leiðinlegir og skilningurinn á freistivanda barnanna er því eðlilega mjög mikill í samfélaginu.

Það er ekki hægt að segja að símar og snjalltæki séu alltaf óvinurinn. Tæknibyltingin hefur gert það að verkum að ung börn eru farin að kenna foreldrum sínum á tölvur. Tæknin gerir það að verkum að það hefur aldrei verið auðveldara fyrir börn að nálgast upplýsingar og þekkingu. Kennarar eru í meiri mæli farnir að nota rafrænt kennsluefni og gagnvirkar æfingar sem auðvelt er að nota í snjallsímum. Í aðalnámskrá grunnskóla er meira að segja sérstakur kafli um „menntagildi og megintilgang upplýsinga- og tæknimenntunnar.” Það krefst þess að skólar séu með tölvubúnað sem sé í lagi, eða þá að nemendurnir hafi aðgang að til dæmis snjallsímum.

En það er ekki þannig að upplýsinga- og tæknimenntun ungmenna spretti upp af sjálfu sér um leið og börn fá skjá fyrir framan sig. Það krefst menntunar og þekkingar að geta skilið á milli upplýsinga og falsfrétta. Rétt frá röngu. Hvenær á að nota tölvur og hvenær ekki. Skólastarf snýst líka um mannleg samskipti og að setja mörk. Allir hinir kaflarnir í aðalnámskránni sem vel kennarar þurfa að fara eftir. Svarið við fyrri spurningunni er því já. Ekki alls staðar og í öllum skólum en í sumum skólum.

og þá víkur sögunni að seinni spurningunni, eru stjórnmálin rétti staðurinn til að leysa vandamálið?

Tillagan sem Sveinbjörg Birna lagði fram var, líkt og hún viðurkenndi sjálf að lokum, ekki nægilega vel útfærð en hún var í ætt við þau lög sem hafa nú tekið gildi í Frakklandi. Þar er gengið út frá því að bann við farsímanotkun sé meginreglan en að kennarar geti veitt undantekningar frá henni. Þetta er ansi drastísk regla og erfitt er að sjá að henni verði framfylgt af sérlega miklum krafti. En þessi regla getur hins vegar gert kennurum auðveldara fyrir að eiga við nemendur sem ekki vilja leggja frá sér farsíman.

Það þarf þó ekki að ganga eins langt og gengið var í Frakklandi. Svona margþætt vandamál eitthvað sem við verðum að eftirláta skólunum sjálfum að ráða úr en skólarnir verða að hafa réttu tólin. Sumir kennarar nota snjallsíma og snjalltæki í kennslunni sinni en aðrir ekki. Í sumum skólum er farsímanotkun mikið vandamál og í öðrum ekki. Lausnin verður að vera að skólarnir, og helst kennararnir sjálfir fái að stjórna í eigin skólastofum. Hér á Íslandi er langt og faglegt kennaranám og við einfaldega verðum að veita kennurum það svigrúm sem þeir þurfa til að stjórna í eigin skólastofum. Heimild til að leyfa farsíma í fræðsluskyni og heimild til að banna notkun þeirra. Valið er kennarans.

Björn Már Ólafsson

Ritstjórn

Björn Már er lögfræðingur sem býr og starfar í Danmörku. Hann hefur áður starfað sem blaðamaður á Morgunblaðinu/mbl.is og sem framkvæmdastjóri Stúdentaráðs Háskóla Íslands. Meðal áhugamála hans eru úthaldsíþróttir og ítölsk knattspyrna.