Snjall-börn

eftir Elísabet Erlendsdóttir

Staðurinn er Háskólinn í Reykjavík. Stundin er desember 2013. Jólaprófin eru mætt og stress í bland við eftirvæntingu liggur í loftinu. Háskólanemar í hettupeysum með bauga langt niður á kinnar skríða þreytulega í lestrarbásana. Lítill svefn, kaffi, prófbúðir, skipulag, skipulagsleysi, meira kaffi, óreiða og örvænting einkenndi þessa prófatíð eins og allar aðrar. En eitt er víst að tíminn líður og törnin tók enda eins og öll önnur strembin tímabil.

„Jæja, ég féll allavegana ekki í Hagnýtri forritun..” hugsaði ég þegar búið var að birta allar einkunnir þessarar annar. Ekki að ég hafi verið ánægð með lokaeinkunnina í áfanganum þar sem nemendur í verkfræði í HR læra grunnatriði forritunarmálsins Matlab.

Í þessu tiltekna námskeiði er forritað í hugbúnaði sem byggist á fjórðu kynslóðar forritunarmáli. Kostirnir við Matlab er hversu fljótlegt það er að vinna með tölur og útreikninga en gallinn er sá að fyrir einhvern sem byrjar að læra málið án einhvers grunns í forritun er eins og lítið barn sem byrjar að hlaupa áður en að það svo mikið sem lærir að skríða.

Það var 25% fall í námskeiðinu og ég hefði hæglega getað hækkað þá prósentu um eitt prósentustig. Samt hefur mér alltaf gengið vel að læra, ég reynt að leggja mig fram og vera samviskusöm. Hagnýt forritun var þar ekki nein undantekning. Hvað var þá málið? Heila önn sat ég námskeiðið en skildi ekki af hverju ég skildi ekki neitt. Það hvarflaði því að mér, hefði ég fengið að kynnast sambærilegu námsefni og forritun fyrr á minni leið í gegnum mennastigin, hvernig mér hefði gengið í námskeiðinu.

Þarfir atvinnulífsins

Einar hröðustu tæknibreytingar sögunnar eiga sér stað akkúrat núna. Tækni- og tölvuþróun virðist eiga sér engin mörk og hún nær yfir öll svið samfélagsins. Töluverður fjöldi þeirra nemenda sem sækja sér háskóla- eða iðnmenntun munu innan fárra ára starfa við störf sem eru ekki einu sinni til í dag. Þá er starfsþróunin slík að sífellt er krafist meiri þekkingar á virkni tölvu og eflaust eykst hraði þessarar þróunar á næstu árum. Í skýrslu evrópska skólanetsins frá árinu 2014 er forritun skilgreind sem rökhugsun sem er orðin ein mikilvægasta færni 21. aldarinnar.

Þá kemur fram í skýrslu sem unnin var af starfshópi á vegum mennta- og menningarmálaráðuneytis, Sambandi íslenskra sveitarfélaga og Samtaka iðnaðarins, að Ísland standi frammi fyrir skorti á tæknimenntuðu fólki. Samkvæmt skýrslunni útskrifast um 500 einstaklingar á ári af raungreina- og tæknisviðum Háskóla Íslands en þörfin sé á um 1000 einstaklingum á ári. Augljóslega er ekki verið að uppfylla þarfir atvinnulífsins og óbreytt staða mun draga úr samkeppnishæfni og vaxtartækifærum Íslands.

Snjall-börn

Eflaust þekkja flestir börn sem eru örsnögg að fletta upp hinum ýmsu síðum og forritum í tölvu eða snjallsíma. Að taka myndir á síma foreldra eða systkina sinna og finna myndbönd á YouTube virðist þeim vera leikur einn. Börn í dag eru talin vera með gott tölvulæsi, þ.e. geta vafrað um á netinu og skilja grunnvirkni þess, en fá börn geta þó búið til eigin leiki eða forritað. Þau kunna að lesa en ekki að skrifa.

Börn upp undir 12 ára eru mjög móttækileg fyrir því að læra ný tungumál og þar sem forritun er í raun „samtal” á milli manneskju og tölvu á máli sem þau bæði skilja ættu börn á grunnskólaaldri að vera mjög snögg að tileinka sér forritunarmál. Með því að kenna börnum strax á grunnskólaaldri forritun væri hægt að tryggja öllum börnum næga möguleika til að öðlast færni í þessu gríðarlega mikilvæga fagi sem forritun er og um leið koma í veg fyrir að fagið virki ógnvekjandi á nemendur síðar á skólagöngu þeirra. Þá er ótalið hversu gagnlegt er fyrir alla vettvanga að læra og temja sér rökhugsun á unga aldri.

Undirbúum okkur fyrir framtíðina

Í alþjóðlegu samhengi þar sem þjóðir eiga í stöðugri samkeppni hlýtur framtíðarsýnin að vera sú að ungir Íslendingar standi jafnfætist jafnöldrum sínum í öðrum löndum hvað varðar atvinnutækifæri. Einnig að hér á landi haldist öflugt og stöðugt hagkerfi fyrir ungt hugmyndaríkt fólk sem tilbúið er að taka þátt í samfélagi sem er stöðugum breytingum undiropið, sérstaklega í ljósi öra tæknibreytinga.

Sóknartækifæri Íslendinga hvað varðar þessa alþjóðlegu samkeppni liggja ekki eingöngu í útflutningi á náttúruauðlindum því þær takmarkast við hversu mikil verðmæti er hægt að vinna úr þeim. Dreifa þarf áhættunni og nýta aðrar auðlindir, til dæmis þær sem byggja á hugviti og fjölbreyttri, íslenskri verðmætasköpun. Í aukinni tæknimenntun ungra Íslendinga liggja tækifæri af ýmsum toga. Ávinningur skapandi og hugvitsdrifinna námsgreina, þar sem sérstök áhersla er lögð á hagnýta menntun eins og forritun, er aukin rökhugsun barna sem byrja að læra hana á unga aldri. Frjór hugur krakka á grunnskólaaldri er móttækilegur fyrir miklu magni upplýsinga sem síðar meir þau öðlast svo færni til að nýta í hvers kyns verðmætasköpun. Ekki er seinna vænna en að byrja strax, því eins og allir vita þá eru börnin framtíðin.

Elísabet Erlendsdóttir

Pistlahöfundur

Elísabet er með B.Sc. í rekstrarverkfræði frá Háskólann í Reykjavík, fædd og uppalin á Egilsstöðum. Hún starfar á sviði Viðskiptalausna hjá Advania en hennar helstu áhugamál eru nýjungar í tækni- og nýsköpunargeiranum og jafnréttismál. Hún situr í stjórn Ungra athafnakvenna og gegndi embætti formanns Stúdentafélags Háskólans í Reykjavík skólaárið 2015-2016.