Snertilausar almenningssamgöngur

eftir Tryggvi Másson

Aðgöngumiði hefur í gegnum tíðina verið órjúfanlegur hluti af notkun almenningssamgangna. Fyrst var hann einungis í formi áþreifanlegra miða en hefur með tímanum þróast í klippikort og áskriftarkort. Á allra síðustu árum, samfara hraðri tækniþróun, hefur aðgöngumiðinn svo fært sig yfir í stafrænt form, sem snjallkort og snjallforrit eins og t.d. Strætó-appið.

Þó tækninni fleyti fram, þá virðast aðgöngumiðar doka við. Ennþá í dag þurfa flestir farþegar að kaupa sér einhverskonar aðgöngumiða, sama í hvaða formi þeir eru, til að nýta sér almenningssamgöngur. Þessir miðar sem eiga að auðvelda notkun á samgöngum, eru samt afar óskilvirkt greiðslufyrirkomulag því það getur verið talsverð fyrirhöfn fyrir farþega að verða sér út um miðana og jafnframt fyrir veitendur þjónustu að útvega þá. Samkvæmt ráðgjafafyrirtækinu McKinsey verja rekstraraðilar almenningssamgangna að jafnaði 10-15% af tekjum sínum í að taka við greiðslum farþega í formi aðgöngumiða. Það er spurning hvort tíma og fjármunum starfsmanna og farþega sé ekki betur varið í annað.

Þörfin fyrir aðgöngumiðum mun þó líklega heyra sögunni til í náinni framtíð. Nú þegar hafa nokkrar borgir innleitt nýtt greiðslufyrirkomulag sem gerir aðgöngumiða eins og við þekkjum þá í dag óþarfa. Það er greiðslufyrirkomulag sem Íslendingar þekkja nú þegar mæta vel og hafa flestir notað á einhverjum tímapunkti. Það eru snertilausar greiðslur (e. contactless payments). Í ágúst síðastliðinn var þetta greiðslufyrirkomulag til að mynda tekið upp í neðanjarðarlestarkerfi Mílanóborgar á Ítalíu. Mílanó varð þar með fyrsta borgin á Ítalíu og meðal fyrstu borga Evrópu til að taka upp kerfi sem býður uppá snertilausar greiðslur.

Snertilaus Mílanóborg

Í lok júní síðastliðins hafði að minnsta kosti eitt snertilaust hlið verið sett upp á hverri stoppistöð neðanjarðarlestakerfis Mílanó. Þannig gátu allir, sem eiga greiðslukort sem býður upp á snertilausar greiðslur, lagt kort sitt við skynjara og gengið rakleitt í gegnum aðgangshliðið og um borð í neðanjarðarlest. Á áfangastað er kortið lagt við álíka hlið og gjaldfært er eftir lengd ferðalagsins.

Höfundur prófaði þetta kerfi nýlega og hefur hann aldrei áður upplifað jafn greitt aðgengi að almenningssamgöngum. Fyrir utanaðkomandi aðila sem þekkir ekki til borgarinnar eru það ótrúleg þægindi að þurfa ekki að standa í langri röð til að kaupa miða. Þannig getur ferðalangur sloppið undan því að lúslesa lestarkort, ná í einhver snjallforrit eða annað þvíumlíkt til þess að nota almenningssamgöngur borgarinnar.

Snertilaus Lundúnaborg

Mílanó er ekki eina borgin sem innleitt hefur snertilausar greiðslur. Árið 2012 ákvaðu Sam­göngu­yf­ir­völd í London (e. Transport for London) að innleiða snertilausar greiðslur í almenningssamgöngur borgarinnar. Fyrst var það gert með hinu svokallaða Ostrukorti (e. Oystercard) og síðar með snertilausum greiðslukortum. Nú fjórum árum seinna er helmingur allra „pay as you go“ ferða greiddar með snertilausum greiðslum í gegnum greiðslukort eða síma.

Ólíkt stöðunni í Mílanó þá er einnig búið að innleiða þessa lausn í strætisvagna London. Líkt og í neðanjarðarlestunum ítölsku skráir þú þig inn með kortinu og svo út þegar ferðinni lýkur. Í vinsælustu strætisvagnaleið London eru snertilausar greiðslur rúmlega 60% af öllum „pay as you go“ ferðum.

Því fylgja ýmsir kostir að taka upp snertilaust greiðslukerfi. Augljóslega stuðlar slíkt kerfi að minni fyrirhöfn fyrir notendur en um leið dregur það úr rekstrarkostnaði þess sem þjónustuna veitir. Nú þegar hefur snertilausa greiðslukerfið, ásamt öðrum aðgerðum, dregið úr kostnaði við tekjuöflun (miðasala o.s.frv.) á milli 8-15% í London og Samgönguyfirvöld búast við því að þessi kostnaður geti dregist saman um allt að 6% til viðbótar með aukinni notkun kerfisins.

Borgir víða um heim eru farnar að átta sig á kostum þess að taka upp snertilausar greiðslur í almenningssamgöngum. Skipulagsyfirvöld í stórborgunum New York, Sydney, Miami og Boston hafa t.a.m. allar kynnt fyrirætlanir um þær muni að innleiða snertilausar greiðslur í almenningssamgöngur sínar á næstu árum.

Snertilaus Reykjavíkurborg?

Hér á landi ætti að vera tiltölulega auðvelt að innleiða snertilaust greiðslufyrirkomulag í almenningssamgöngur. Tæknin er nú þegar til staðar eins og dæmin sanna. Íslendingar eiga flestir snertilaus greiðslukort og hafa reynslu af því að nota þau. Þráðlaus internettenging er nú þegar til staðar í flestum ef ekki öllum strætisvögnum.

Ef stjórnvöldum á Íslandi er alvara í því að fjölga þeim sem nýta sér almenningssamgöngur er þetta kjörið tækifæri til þess að draga úr kostnaði og bæta þjónustuna á sama tíma. Þessi litla breyting myndi gera almenningssamgöngur að aðgengilegri samgöngumáta fyrir Íslendinga sem og erlenda ferðamenn. Það er því stjórnvöldum ekkert að vanbúnaði til að innleiða snertilausar greiðslur í strætisvagna landsins við fyrsta tækifæri.

Tryggvi Másson

Ritstjórn

Tryggvi er viðskiptafræðingur sem útskrifaðist frá Háskóla Íslands vorið 2016. Hann starfar sem sérfræðingur á Efnahagssviði Samtaka atvinnulífsins. Tryggvi var hagsmuna- og lánasjóðsfulltrúi Stúdentaráðs Háskóla Íslands skólaárið 2015-2016 ásamt því að sitja í ráðinu og hefur áður setið í stjórn Vöku fls. Aðaláhugamál Tryggva eru félagsstörf, hagsmunabarátta og stjórnmál. Skrif hans í Rómi eru að mestu leyti tengd menntamálum og viðskipta- og efnahagsmálum.