Snákaolía og samtíminn

eftir Bjarni Halldór Janusson

Á síðustu árum og áratugum hefur vísindum fleygt fram á helstu sviðum mannlífs. Framfarir virðast raunin á hverjum degi og vandamál dagsins í dag eru ekkert nema efni til úrlausnar þann næsta dag. Þetta virðist allt satt og rétt sé litið til allra nýlegra réttindabóta ýmissa jaðarhópa, samfélagslegra úrbóta og tæknilegra lausna á vandamálum okkar. Framþróun hins nútímalega samfélags virðist meitluð í stein og skrifuð í skýin. Hún er þó hvorki fyrirsjáanleg né fyrir fram gefin. Hún kemur og fer, fyrirvaralaust jafnvel. Framtíðin er óráðin og því erfitt að draga ályktanir um hana – og svo virðist sem við séum frekar dæmd til að endurtaka söguna en að læra af henni.

Framþróun er ekki línuleg, hún er oft og tíðum huglæg eða afstæð, og fyrirbærið er of víðfeðmt til að hægt sé að smætta það niður í einfaldar myndir þess. Þetta kann að virðast bölsýni, en þvert á móti gefur þessi afstaða framþróun hlutlaust gildi. Það eru nefnilega ákveðin vandamál sem fylgja í kjölfarið þegar við teljum okkur trú um að framþróun sé fyrir fram staðfest og verði því ávallt fyrir hendi. Það til dæmis grefur undan kennivaldi sérfræðinga og gildi sérfræðiþekkingar. Þegar manneskja verður út undan í lífskjarakapphlaupi nútímamannsins og verður ekki vör við þessa framþróun sem henni var lofað fyrir fram, þá er skiljanlegt að hún hætti að treysta þeim sem segja henni hvað sé hvað og hvað sé ekki.

Hið algilda svar í flóknum veruleika

Uppgangur lýðhyggjuhreyfinga og andlýðræðislegra stjórnmálamanna á rætur sínar að rekja til þessa. Stjórnmálamenn af slíku tagi virðast sem frelsarinn sjálfur í augum þeirra sem ekki hafa samsvarað sig hinum hefðbundnu stjórnmálum. Náðarvald slíkra stjórnmálamanna verður fyrir vikið algjört. Það er á sinn hátt alveg skiljanlegt. Við viljum geta treyst öðrum, við viljum að veruleikinn sé fyrirsjáanlegur og öryggi okkar tryggt innan hans, við viljum finna hina auðveldu leið í flóknu umhverfi. Þess vegna á fólk það til að „kaupa bullið“ þegar allt annað hefur brugðist þeim. Því þetta bull fellur oftar en ekki vel að sálfræðilega eðlilegum starfsháttum mannsheilans. Það fellur vel að ályktunarþörf okkar.

Eitt skýrasta dæmið hér væri fjöldi þeirra samsæriskenninga sem fólk gjarnan aðhyllist til koma lífi sínu í stöðugt horf. Þegar spurningar vekja eingöngu upp aðrar spurningar, er skiljanlegt að fólk freistist til að trúa hinu algilda svari sem samsæriskenningar, eða jafnvel ýmsar hugmyndastefnur trúarbragða og stjórnmála boða. Staðreyndin er þó sú að oftar en ekki er um sölu snákaolíu að ræða; það er verið að selja okkur hreint og klárt bull. Það er ekkert slæmt við það að bullið geti fyrir ýmsar sakir hjálpað okkur eða vísað okkur veginn til raunverulegra lausna, en bullið verður hættulegt þegar við kaupum það og fyrir vikið missum sjónar á því vandamáli sem krefst almennilegra lausna.

Skyndilausnir og sýndarsamband

Hefðbundnar lækningar eru hefðbundnar því aðferðir þeirra hafa staðið tímans tönn og öðlast staðfestingu fyrir tilstuðlan vísindalegra aðferða. Hefðbundnar lausnir eru hefðbundnar því að baki þeirra er rökstuðningur og reynsla sem hefur sannað gildi þeirra. Þó er ekki þar með sagt að óhefðbundnar lausnir séu ávallt af hinu slæma. Stundum hvetja þær til umræðu og vitundarvakningar á ákveðnu vandamáli, eða vekja athygli á ófullnægjandi lausnum þeirra aðferða sem almennt eru samþykktar. Hvað geðheilbrigðismál varðar er þrennt sem kemur hér upp í hugann. Í fyrstu sagði kona nýlega að femínismi bæri ábyrgð á sjálfsvígstíðni karlmanna í samfélaginu, síðar var umræða um hlutverk næringar með tilliti til geðvandamála, og nú síðast var til umræðu hvort hugarfarsbreyting fyrir tilstuðlan einfaldra skilaboða gæti verið lausn vandamála. Þetta eru allt þættir sem hafa ber í huga.

Í fyrsta lagi er það rétt að samfélags- og menningarbundin viðhorf eru meðal orsakaþátta hér. Að vísu er það einmitt hið ríkjandi kynjakerfi, það sem femínísk gagnrýni beinir spjótum sínum að, sem hindrar það að sjúklingar leiti sér viðeigandi aðstoðar. Þetta kerfi segir til um hvernig atferli og hugsun manneskju eigi að vera, svo það samræmist fyrirfram ákveðnum gildum og viðmiðum þessa kynjakerfis. Afleiðing þessa eru þær staðalímyndir sem við lifum við hversdagslega, eins og sú skaðlega staðalímynd að karlmenn geti ekki leitað sér aðstoðar vegna sálrænna veikinda, því slík veikindi stangist á við hefðbundin karllæg gildi; í stað þess að viðurkenna tilvist þessa veikinda eigi að bæla niður þessar tilfinningar og afneita þessum veikindum. Sú staðalímynd er auðvitað fráleit, líkt og aðrar staðalímyndir sem byggja á gildum og taumhaldi þessa kynjakerfis. Með því að rýna betur í málið mætti því segja að upphafleg staðhæfing konunnar eigi sér ekki stoð í raunveruleikanum.  

Að öðru leyti gegna þættir á borð við næringu og hugarfar mikilvægu hlutverki þegar kemur að lyndi okkar og líðan. Hvort tveggja getur þó aldrei verið lausn taugafræðilegra raskana sem leiða til geðraskana, jafnvel lífshættulegra raskana. Jákvætt hugarfar og viðeigandi næring getur létt manni lífið og verið fyrirbyggjandi að því leytinu til, en það er vitanlega engin lausn fyrir þann sem er greindur með alvarlega þunglyndisröskun, eða hamlandi kvíðaröskun, eða stríðir við geðhvarfasýki eða geðklofa, eða lausn við taugaþroskaröskun. Við þurfum að horfast í augu við það að hér er um raunverulega sjúkdóma að ræða sem takast þarf á við með viðeigandi aðferðum á borð við heilbrigðisþjónustu, sérfræðiþjónustu sálfræðinga, og jafnvel lyfjagjöf. Allar aðrar lausnir mæta þar afgangi. Það er auðvitað gott ef þær gera gagn, en þær ættu aldrei að leysa viðeigandi lausnir af hólmi.

Sölumenn skyndilausna

Snákaolía hlýtur nafn sitt af þeirri hefð, sem var ríkjandi meðal nokkurra sölumanna Bandaríkjanna undir lok 19. aldar, að selja hjálparþurfi einstaklingum snákaolíu, sem hefði í raun enga læknisfræðilega virkni þó slíkt væri auglýst. Hún hefur síðan þá verið áberandi í hvers kyns sölumennsku manna, hvort sem salan fer fram á markaðstorginu sjálfu eða hinu svonefnda markaðstorgi hugmyndanna. Stundum vilja sölumenn hennar vel, eða vita sjálfir ekki betur, og telja jafnvel að þeir séu að bæta líf og líðan skjólstæðinga sinna. Erfitt er að meta hvort salan fari fram af gróðahyggjunni fyrst og fremst, eða af velvildinni fyrst og fremst og gróðanum síðar.

Í ólgusjó allra þeirra upplýsinga sem umkringja okkur getur líka verið erfitt að meta hvað sé rétt og hvað ekki, hvað sé raunveruleg snákaolía og hvað ekki. Mikilvægast er að bera saman alla þá kosti sem okkur standa til boða, komast að því hvað sé satt og rétt, hvað virkar í ljósi röksemda og reynslu, og álykta út frá því hver besti kostur okkar sé. Við þurfum að varast sölumenn skyndilausna og snákaolíu. Það er að vísu hægara sagt en gert – en hver sagði að framfarir væru auðveldar eða sjálfgefnar?

Bjarni Halldór Janusson

Stjórn & pistlahöfundur

Bjarni Halldór er stjórnmálafræðingur að mennt og hefur nýlokið meistaranámi í stjórnmálaheimspeki við University of York í Bretlandi. Skrif hans hverju sinni munu beinast að helstu málefnum félags- og hugvísinda. Þá verða málefni líðandi stundar og hugmyndafræðilegar vangaveltur fyrst og fremst til umfjöllunar. Hann hefur lengi látið sig félagsmál varða, en þar ber helst að nefna varaþingmennsku á Alþingi og setu í Stúdentaráði HÍ.