Smákóngar eða samstaða

eftir Ísak Einar Rúnarsson

Á undanförnum áratugum hefur komið betur og betur í ljós að samsetning og skipulag vinnumarkaðarins getur haft töluvert að segja um efnahagslega frammistöðu ríkja. Í hagfræðilegu tilliti myndi það sennilega vera orðað á þá leið að stofnanaumhverfi vinnumarkaðarins hefði áhrif á það hvort hagkvæmt og eðlilegt launastig næðist hverju sinni.

Í ljósi þess að Tryggvi Másson hefur kortlagt og birt yfirlitsmyndir af skipulagi launþegahreyfingar almenna markaðarins annars vegar og launþegahreyfingar opinbera vinnumarkaðarins hins vegar er áhugavert að skoða hvort umrætt skipulag stuðli að bættum efnahagslegum árangri eða ekki.

Af mynd Tryggva hér að ofan má sjá að launþegahreyfingin skiptir sér upp í afar mörg félög sem tilheyra þó flest nokkrum samböndum. Á almenna markaðinum tilheyra langflest félögin ASÍ og á opinbera markaðinum tilheyra langflest félögin BHM, BSRB eða Kennarasambandinu. Það sem gerir málið þó flóknara er að stundum semja félögin en þá semja t.a.m. öll félög innan ASÍ um sameiginlegar launahækkanir og stundum semja þau hvert fyrir sig. Innan raða vinnuveitenda má segja að nær alltaf sé samið sameiginlega og er viðsemjandinn þá ýmist SA, ríkið eða Samband sveitarfélaga.

En hvað er besta skipulagið?

Í þekktri grein frá árinu 1988 settu hagfræðingarnir Lars Calmfors og John Drifill fram þá tilgátu að efnahagsleg frammistaða og miðstýring vinnumarkaðarins ættu sér þau tengsl að þau fylgdu bogadreginni línu. Með nokkurri einföldun má útskýra það þannig að ómiðstýrður vinnumarkaður og algerlega miðstýrður vinnumarkaður, þar sem það er aðeins einn viðsemjandi, leiðir af sér hagkvæmt launastig. Allt miðjumoð leiði hins vegar til þess að launastig verði of hátt sem aftur leiðir til verðbólgu, verri samkeppnishæfni útflutnings- og framleiðslugreina, vaxtahækkana, atvinnuleysis og/eða gengisóstöðugleika. Frekari rannsóknir og gögn hafa rennt stoðum undir Calmfors-Drifill tilgátuna.

Ef hver geiri hagkerfisins semur hver fyrir sig er niðurstaðan einna óhagkvæmust, samkvæmt Calmfors og Drifill. Það er vegna þess að ef verkalýðsfélög skiptast t.a.m. eftir starfsgreinum hafa þau nægilega góða samningsstöðu til þess að semja um há laun en eru hins vegar of afmörkuð til þess að taka til greina heildarkostnað samfélagsins af ósjálfbæru launastigi ef svo má að orði komast. Þannig verði til markaðsbrestur sem hefur í för með sér neikvæð áhrif en eftir því sem verkalýðsfélög eru færri og almennari taka þau í ríkari mæli til greina þann samfélagskostnað sem hlýst af verri samkeppnisstöðu, verðbólgu, atvinnuleysi o.s.frv., vegna þess að meginþorri almennings eru félagsmenn. Aftur á móti ræðst launastig á algerlega óstýrðum og frjálsum markaði af framboði og eftirspurn sem skilar af sér hagkvæmu launastigi.

Almennt má segja að þar sem verkalýðsfélögum er fyrir að fara á annað borð og víðtæk aðild að þeim, sé mjög erfitt (og að margra mati ekki eftirsóknarvert) að vinda ofan af slíkri stofnanaumgjörð. Þannig hefur samhæfingarvandamálið og innbyrðing samfélagslegs kostnaðar verið leyst með þeim hætti að auka samstarf verkalýðsfélaga þannig þau ýmist semji saman eða að tiltekin geiri sem er fjölmennur, stöðugur og hefur hag af því að launastig sé ekki of hátt leiðir setur fordæmi í kjaralotu sem aðrir fylgja. Í þessu samhengi hefur stundum verið nefnt að útflutningsgreinar setji viðmiðið.

Hvað gera menn í næstu kjaralotu?

Saga vinnumarkaðsmála á Íslandi er þyrnum stráð. Fyrir árið 1990 má segja að nær samfellt hafi gengið á víxlhækkanir þar sem verkalýðsfélög sömdu jafnan hvert fyrir sig. Þær leiddu til hárrar verðbólgu og í kjölfarið gengisfellinga eða með öðrum orðum að vinnumarkaðsmál hafi verið drifkraftur efnahagslegs óstöðugleika hérlendis fyrir 1990. Árið 1990 urðu hins vegar vatnaskil með Þjóðarsáttinni svokölluðu en þá náðust samningar þvert á vinnumarkaðinn um hóflegar launahækkanir til lengri tíma en hafði áður þekkst og með því tókst að koma betri böndum á verðbólguna.

Á undanförnum árum hefur hins vegar verið látið sverfa til stáls aftur í verkalýðshreyfingunni og orðræða sumra verkalýðsforingja nokkuð ófrýnileg ef markmiðið á að vera stöðug og sjálfbær kaupmáttaraukning almennings sem hefur ekki neikvæð áhrif á þjóðarbúskapinn til lengri tíma litið. Á næstu tólf mánuðum losna rúmlega 230 kjarasamningar á viðkvæmum tíma í hagsveiflunni. Flestir búast við mjúkri lendingu en óskynsamlegar ákvarðanir á vinnumarkaði gæti orðið til brotlendingar.

Spurningin er, mun verkalýðsforystan hafa kjark til þess að koma sameinuð að borðinu og færa sig nær hægri endanum á myndinni sem sýnd var hér að ofan eða munu menn velja auðveldu leiðina, varpa frá sér ábyrgðinni með skammsýni og standa eftir í miðju myndarinnar með óhagkvæmustu útkomuna, sem er jafnframt sú versta fyrir félagsmenn verkalýðshreyfingarinnar og Íslendinga alla til lengri tíma litið.

Eða eins og eðlilegast væri jafnvel að segja í þessu samhengi. Sameinaðir stöndum vér, sundraðir föllum vér.

Höfundar greinarinnar eru þeir Ísak Einar Rúnarsson og Tryggvi Másson.

Ísak Einar Rúnarsson

Pistlahöfundur

Ísak starfar sem sérfræðingur á hagfræðisviði Viðskiptaráðs Íslands. Hann hefur áður starfað fyrir Háskóla Íslands, var formaður Stúdentaráðs og blaðamaður á Morgunblaðinu og Viðskiptablaðinu.