Skólamálin eru mikilvægust en engin ræðir þau

eftir Ritstjórn

Borgarstjórnarkosningarnar í vor eru nú farnar að taka æ meira pláss á fréttasíðum allra miðla og er það vel. Má rekja það til þess að nú stendur m.a. yfir leiðtogaprófkjör Sjálfstæðisflokksins í Reykjavík og hafa aðrir flokkar einnig nýtt sér þann slag til þess að koma skoðunum sínum á framfæri inn í umræðuna um borgarmál.

Stórt mál í kosningabaráttunni verður eflaus borgarlínan svokallaða. Um hana hefur mikið verið skrifað, meðal annars á þessari síðu. Verður því að þessu sinni ekki fjallað meira um hana heldur vakin athygli á öðrum málefnum sem oft vilja sitja á hakanum í kosningabaráttu.

Talsverð umræða fór af stað í vikunni um leikskólapláss og kostnaðinn við þau. Það er góð umræða enda hefur í borginni allt of lítið gerst í skólamálum í heild sinni síðustu ár eins og má sjá á niðurstöðum lestrarskimunar, fjárveitingum og ómönnuðum leikskólastörfum.

Í vikunni birtist frétt um að leikskólagjöld væru talsvert lægri í Reykjavík heldur en í Garðabæ þar sem þau eru hæst. Eitt og sér er það staðreynd. En eins og kjörnir fulltrúar gera sér vonandi grein fyrir snúast leikskólamál um fleira en þessa einu tölu. Þannig kom einnig fram í vikunni að í Garðabæ eru börn tekin fyrr inn í leikskóla, strax við 12 mánaða aldur, auk þess sem niðurgreiðslur á dagforeldrum eru meiri sem gerir það að verkum að þegar kostnaður við barn er skoðaður frá 0-6 ára aldurs, þá verður niðurstaðan allt önnur. Margir tjáðu sig um málið á Twitter og kom þar fram að einhverjir foreldrar í Reykjavík hafi þurft að bíða í 27 mánuði eftir að koma barninu að á leikskóla, á meðan borgin hefur það að markmiði að öll börn komist inn við 18 mánaða aldur. Samfylkingin hefur nú verið við völd í borginni í 8 ár samfleytt og með formennsku í skóla- og frístundaráði þennan sama tíma en enginn árangur náðst þrátt fyrir að á hverju ári berist fregnir af „viðsúningi í rekstri borgarinnar.”

Hvenær fáum við að sjá nauðsynlegar breytingar í grunnskólamálum?

Annað atriði eru svo málefni grunnskólanna. Niðurstöður síðustu lestrarkannana í skólum í borginni sýna að læsi stráka fer hrakandi. Fyrir áramót var lagt fram minnisblað á fundi skóla- og frístundaráðs Reykjavíkurborgar þar sem fram kom að hlutfall drengja sem nær lesskimunarviðmiðum lækkar um 6% á milli ára. Niðurstöður lesskimunar eru ekki ræddar mikið opinberlega né er upplýsingagjöf til almennings og foreldra mikil þrátt fyrir að í meirihluta borgarinnar sitji Píratar sem hafa að markmiði sínu að opna stjórnsýslu og stórbæta upplýsingagjöf til almennings.

Niðurstöðurnar í lesskimuninni eru vonbrigði. Vandinn er margþættur og engin ein einföld lausn er við vandanum. Popúlískar lausnir og upphrópanir verður að forðast. En vandamálið er samt sem áður staðreynd og það sem verra er, lausnirnar verðast ekki hafa virkað hingað til.

Haustið 2015 voru lagðar fram niðurstöður lesskimunar á nemendum í 2. bekk grunnskóla í Reykjavík og voru niðurstöðurnar þá einnig vonbrigði. Í bókun fulltrúa meirihluta Samfylkingar, Bjartrar framtíðar, Pírata og Vinstri grænna segir:

„Niðurstöður lesskimunar barna í 2. bekk grunnskólum Reykjavíkur undirstrika hve brýnt er að fylgja markvisst eftir stefnumótun skóla- og frístundaráðs um að efla læsi skólabarna í borginni. Það er forgangsverkefni núverandi meirihluta sem hefur þegar hafið innleiðingu á tillögum fagráðs um eflingu málþroska, lestrarfærni og lesskilnings. Þar er m.a. lögð áhersla á skimun strax í 1. bekk og aukinn stuðning við þau börn sem á þurfa að halda.  Þessi stefna kemur til framkvæmda strax á þessu hausti.”

Með öðrum orðum: Haustið 2015 kom til framkvæmda ný stefna um skimun strax í 1. bekk og aukinn stuðningur við þau börn sem þurfa á að halda en niðurstaðan er lakari árangur drengja tveimur árum seinna. Hvenær mega foreldrar í Reykjavík búast við því að borgaryfirvöld finni réttu lausnina og nægilegt fjármagn til þess að hægt sé að koma í veg fyrir að fjölmargir nemendur, að mestu leyti drengir, geti lesið sér til gagns þegar grunnskólagöngunni er lokið?

Og hver ætli lausnin sé?

Rykfallin skýrsla frá 2014?

Málið hefur verið til umræðu í mörg ár. Árið 2014 gáfu sveitarfélögin á höfuðborgarsvæðinu út skýrslu sem ber heitið Gæði skólastarfs í alþjóðlegum samanburði. Verkefnastjóri skýrslunnar var Skúli Helgason, núverandi formaður skóla- og frístundaráðs Reykjavíkurborgar.

Athyglisverða klausu er að finna í þessari skýrslu sem kafar djúpt ofan í niðurstöður í prófum og skimunum í skólum á höfuðborgarsvæðinu.

„Hvað snertir lesskilning, læsi á stærðfræði og náttúrufræði er staða 15 ára nemenda ekki mjög ólík milli sveitarfélaga á höfuðborgarsvæðinu þessi ár ef Garðabær er undanskilinn. Staðan í Garðabæ miðað við önnur sveitarfélög er áberandi betri í síðustu mælingum, 2009 og 2012, en ekki í eldri mælingum, frá 2000 til 2006. Þessi sterka staða í Garðabæ er álíka og staða Finnlands hefur verið í samanburði við hin Norðurlöndin undanfarinn áratug. Þessir yfirburðir í Garðabæ eru miklir og virðast nýtilkomnir, sem rennir stoðum undir þá túlkun að hann megi rekja til breytinga sem hafa átt sér stað í starfsháttum skólanna á undanförnum áratug fremur en samfélagslegra þátta utan skólans.”

Með öðrum orðum: Svo virðist sem í Garðabæ hafi verið gerðar breytingar á starfsháttum skólanna á tilteknu tímabili sem hafa orðið til þess að staða Garðabæjar (árið 2014) var áberandi betri en í hinum sveitarfélögunum. Skýrslan virðist líka hafna þeirri kenningu sem lengi hefur verið uppi um að árangur nemenda þar megi rekja til félagslegrar samsetningar bæjarins.

Formaður skóla- og frístundaráðs Reykjavíkurborgar hefur því sjálfur unnið að skýrslu sem gefur tilefni til þess að kanna hvað það var sem Garðabær gerði til að auka gæðin í skólastarfi sínu. Eitt af því sem breyttist í skólastarfinu í Garðabæ á þessum tíma var til dæmis frjálst skólaval. Valfrelsi í skólamálum fyrir nemendur og foreldra þeirra eykur nefnilega líkurnar á að nemendur lendi í skóla sem uppfyllir þær tvær kröfur sem við gerum til skólanna. Í fyrsta lagi að börn læri og þroskist. Og í öðru lagi, að þeim líði vel á meðan.

Ritstjórn

Ritstjórn

Ritstjórn Róms skipa Björn Már Ólafsson, Ísak Rúnarsson, Tryggvi Másson, Erla María Tölgyes, Jónína Sigurðardóttir og Oddur Þórðarson.