Skólakerfið og foreldrar

eftir Jónína Sigurðardóttir

Í áramótaskaupinu var brandari sem lýsti stöðunni innan veggja grunnskólans vel að mati margra. Þar var sýndur stuttur leikþáttur þar sem foreldri, barn og kennari voru á foreldrafundi í skóla barnsins. Leikþátturinn snéri að því að foreldri barnsins virtist ekki hafa áhuga á að heyra hvernig gengi hjá barninu í skólanum en hafði frekari áhuga á að fylgjast með einhverju í símanum sínum. Kennari barnsins sat gáttaður og furðaði sig á áhugaleysi foreldrisins.

Skólakerfi í molum

Vandi í skólakerfi Reykjavíkurborgar hefur verið mikið í umræðunni undanfarin misseri en lítið sem ekkert hefur gert til þess að bæta stöðu kennara og nemenda. Vandinn er ekki einskorðaður við eitt skólastig heldur virðast öll skólastig borgarinnar vera í molum. Leikskólar hafa þurft að loka starfsemi sinni og erfitt hefur reynst að fá menntað fólk í stöður kennara í grunn- og leikskólum. Þegar rætt er um störf kennara, sama á hvaða skólastigi, virðist umræðan oftar en ekki snúast að því að laun eru ekki í samræmi við álag í starfi.

Í rannsókn Ingvars Sigurgeirssonar og Ingibjargar Kaldalóns, um hegðunarvanda í grunnskólum Reykjavíkur skólaárið 2005-2006, kemur fram að starfsmenn grunnskóla óski eftir aukinni faglegri ráðgjöf innan skólanna. Hegðunarvandi nemenda er sá þáttur sem vegur einna þyngst í daglegu starfi skóla og orsakavaldur álags sem kennarar kvarta oft undan.

Ábyrgð foreldra

Störf kennara hafa breyst mikið í gegnum tíðina. Á árum áður þótti það ekki tiltöku mál að kennarar öguðu börn og bentu foreldrum á það sem betur mætti fara í uppeldi. Í dag virðist fólk ekki bera þetta traust til kennara og móðgast auðveldlega þegar því er bent á vanda sem tengist börnum þeirra. Staðreyndin er sú að einhverjir kennarar eru farnir að grípa til þeirra örþrifaráða að biðja foreldra að fjárfesta í hljóðeinangrandi heyrnartólum fyrir börn til þess að þau hafi vinnufrið í skólastofum.

Samkvæmt barnalögum bera foreldrar ábyrgð á að uppfylla uppeldisskyldur sínar og hafa hag barnsins ávallt að leiðarljósi. Þó svo að ábyrgðin liggi hjá foreldrum þá verða þeir að geta tekið ábendingum frá fagfólki sem starfar með börnum þeirra

Foreldrafræðsla og uppeldisráðgjöf eru ekki gömul fræði en fjöldinn allur af rannsóknum hefur verið gerður á efninu. Mikilvægt er að nýta þá þekkingu sem til er til þess að hafa jákvæð og uppbyggileg áhrif á komandi kynslóðir. Aukin þörf er á efninu vegna mikils hraða í íslensku samfélagi sem kemur oft niður á uppeldi.

Það má færa rök fyrir því að álag innan skóla fari minnkandi með aukinni þátttöku og virkni foreldra í uppeldishlutverkinu. Uppeldishættir foreldra hafa mikil og mótandi áhrif á börn til framtíðar, mikil fræði eru á bak við ágæti uppeldishátta sem við verðum að taka mark á og fræða fólk um.

Hægt er að koma i veg fyrir og vinna með margan hegðunarvanda innan veggja heimilisins með fræðslu til foreldra um uppeldishætti og mikilvægi þess að tileinka sér æskilega uppeldishætti sem fyrst. Með því að búa til hvata fyrir fólk til þess að sækja sér námskeið í foreldrafræðslu og uppeldisráðgjöf væri hægt að koma í veg fyrir margan hegðunarvanda og bæta þar með starfsumhverfi kennara.

Jónína Sigurðardóttir

Ritstjórn

Jónína Sigurðardóttir er meistaranemi í uppeldis- og menntunarfræðum með áherslu á áhættuhegðun og forvarnir fyrir börn og ungmenni. Hún starfar sem ráðgjafi á velferðarsviði hjá Reykjavíkurborg fyrir heimilislausa með miklar og flóknar þjónustuþarfir. Jónína á 11 ára gamla dóttur og hefur mikinn áhuga á velferðarmálum.