Skítuga kaffivélin á vinnustaðnum

eftir Hjalti Óskarsson

Hagfræðingar hugsa oft öðruvísi um hlutina en aðrir. Þannig setja þeir stundum hversdagslega hluti í búning líkana og kenninga, og reyna að leysa vandamál þeim tengdum. Til dæmis hefur kaffivélin á gamla vinnustaðnum mínum verið mér mikið hugðarefni síðustu vikur. Hún var nefnilega ekki mikið notuð sökum þess að hún var alltaf skítug. Korgur safnaðist upp í henni sem byrjaði jafnvel að mygla og enginn nennti að henda honum og þrífa vélina almennilega. Fólkið á skrifstofunni fór frekar á hæðina fyrir neðan til að sækja sér kaffi. Þetta er augljóslega vandamál sem kjörið er að setja upp í flott líkan og leysa.

Ástæðan fyrir þeirri stöðu sem upp kom á skrifstofunni er það sem kallað er á ensku collective action problem, eða samvinnuvandamálið. Vandamálinu er þannig lýst að einstaklingar taka allir upplýsta og skynsama ákvörðun sem hámarkar eigin hag eða hamingju en leiðir til neikvæðrar niðurstöðu fyrir heildina. Það gerist vegna þess að hegðun eins hefur áhrif á aðra. Vandamálið með kaffivélina í þessu samhengi er því augljóst. Allir hafa því sem næst ótakmarkaðan aðgang að henni og notkun eins hefur augljóslega áhrif á notkun annarra. Það þarf að þrífa vélina og passa að ekki safnist upp korgur sem getur bæði stíflað vélina og valdið leiðindum.

Vandinn er sá að kaffivélin er nýtt þar til ábatinn af því að nota hana, fá kaffið, verður lægri en kostnaðurinn. Kostnaðurinn í þessu tilfelli er að fólki er ekki lengur sama um hversu skítug vélin er. Tilhugsunin um að drekka kaffi úr vélinni verður smám saman verri eftir því sem vélin verður skítugri. Að lokum byrjaði fólkið á minni hæð að fara á næstu hæð fyrir neðan til að sækja sér kaffi. Það var orðið þess virði að hafa fyrir því að ferðast á hæðina fyrir neðan til að sækja sér kaffi úr sambærilegri en betur viðhaldinni kaffivél. Ábatinn af því að fara á næstu hæð fyrir neðan að sækja sér kaffi úr hreinni vél að teknu tilliti til þeirrar fyrirhafnar sem í því felst er því orðin hærri en að drekka kaffið úr skítugri vélinni á okkar hæð.

Tvær lausnir eru á þessu vandamáli. Fyrri lausnin væri að koma upp eignaréttarfyrirkomulagi á kaffivélinni. Einhver einstaklingur á skrifstofunni fær að eiga kaffivélina og þar af leiðandi rukka okkur hin um kaffið. Sá sem hefur eignaréttinn hefur þá hvata til að viðhalda kaffivélinni og jafnvel bjóða einhverja aukaþjónustu til að fá okkur hin til að drekka kaffið hans. Hann þarf þó að taka samkeppni með í reikninginn. Það er enn hægt að fara á næstu hæð fyrir neðan til að sækja sér kaffi. Þessi lausn er mjög dæmigerð og virkar í mörgum tilfellum mjög vel. Sum fyrirtæki hafa meira að segja boðið kaffifyrirtækjum að sjá bara alveg um kaffimálin fyrir allt fyrirtækið.

Hin hugmyndin er öllu flóknari en er í tilfelli lítillar skrifstofu líklega einfaldasta lausnin. Hún felur í sér að einstaklingarnir á skrifstofunni komi sér saman um ákveðið fyrirkomulag. Fyrirkomulagið verður að byggjast á sameiginlegum hag allra. Ein hugmynd af slíku fyrirkomulagi væri að skipta þrifum á vélinni milli starfsmanna skrifstofunnar. Það yrði þá að vera þannig að kostnaðurinn, það er leiðindin við að þrífa stöku sinnum, væri lægri er ábatinn af því að drekka kaffi úr hreinni vél alla daga. Sem er líklega rauninn.

Hjalti Óskarsson

Pistlahöfundur

Hjalti er búsettur í Stokkhólmi og stundar meistaranám í hagfræði við Stokkhólmsháskóla. Áður útskrifaðist hann úr grunnnámi í hagfræði úr Háskóla Íslands og sat í ritstjórn Hjálma, tímarits hagfræðinema við HÍ. Helstu áhugamál hans eru hagfræði, stjórnmál, þungarokk, knattspyrna, vel bruggaður bjór og viskí.