Skemmtilegri Íslendingar

eftir Ritstjórn

Íslendingar eru og hafa alltaf verið merkilegur þjóðflokkur. Það er magnað að sjá, mitt í svartnættinu á veturna hvernig skær glampi kemur í augun á þeim og þeir hressast allir við tilhugsunina um hátíðarhöldin. Hátíðlegt tímabil þar sem þeir taka sjálfa sig og aðra ekki of hátíðlega.

Það var nákvæmlega það sem átti sér stað í þætti Gísla Marteins nú á föstudagskvöldið síðastliðið. Þar sátu hæstvirtur fjármálaráðherra, virðulegur ritstjóri og rannsóknarblaðamaður sem alla jafna er mjög íbúðarmikið fólk sem talar af alvöru. Undir venjulegum kringumstæðum hefði maður ætlað að þar hefði verið skipst á gagnstæðum sjónarmiðum, hin alvarlega staða í stjórnarmyndun rædd í þaula og svo framvegis. Vissulega komu þau ýmis mál upp, en undirtóninn var miklu léttari en svo oft áður. Gísli Marteinn er vissulega góður þáttastjórnandi sem hefur lag á því að ná fólki á léttu nóturnar. Það var samt eitthvað meira að verki.

Svipað má sjá eiga sér stað á sumrin, fólk sem er drullufúlt yfir veturinn verða hrókar alls fagnaðar í júní, júlí og ágúst. Meira að segja stjórnmálamenn verða hressari.

Það yrði sennilega of mikils til ætlast að Íslendingar yrðu alltaf svona hressir og skemmtilegir. Hér er jú oft leiðindaveður, fámenni og mikið myrkur. Meira myrkur en þarf að vera vegna þess að klukkan er vitlaust stillt. En það er annað mál.

Við ættum þó oftar að reyna að taka okkur sjálf til fyrirmyndar, þá okkar klisjukennda ‚besta sjálf‘ sem skýtur upp kollinum yfir sumartímann og um jólin. Íslendingar eru nefnilega þegar öllu er á botninn hvolft bara nokkuð skemmtilegir þegar þeir taka sig ekki of alvarlega.

Ritstjórn

Ritstjórn

Ritstjórn Róms skipa Björn Már Ólafsson, Ísak Rúnarsson, Tryggvi Másson, Erla María Tölgyes, Jónína Sigurðardóttir og Oddur Þórðarson.