Það var seint á elleftu öld, árið 1096, sem að Alþingi samþykkti fyrstu skattalögin. Tíundarlög voru þá samþykkt einróma en meðal þeirra sem komu að því voru Gissur Ísleifsson, biskup, og Sæmundur fróði í Odda sem prýðir grasblettinn fyrir framan aðalbyggingu Háskóla Íslands. Í tíundarlögum var þó ekki kveðið á um 10% tekjuskatt líkt og þekktist í öðrum löndum á sama tíma, heldur skyldi hundraðasti hluti af heildareign manna greiddur til kirkjunnar á ári hverju. Margt vatn hefur runnið til sjávar á þeim rúmu 900 árum og skattalög eru ekki jafn einföld eða fá á 21. öldinni.
Tvíburarnir tekjuskattur og virðisaukaskattur eru ekki eineggja
Það er algengari misskilningur en æskilegt er að segja frá, að fólk ruglist á tekjuskatti og virðisaukaskatti. Skattþrepin í virðisaukaskatti eru tvö, þ.e. 24% og 11%. Tekjuskattþrepum fækkaði um eitt síðastliðin áramót, við mikinn fögnuð undirritaðs, og eru þau tvö í dag en við tekjuskatt bætist útsvar þegar staðgreiðsla opinberra gjalda er reiknuð. Þennan misskilning má sérstaklega finna í samræðum um verktökuvinnu eða útleigu gistirýmis á Airbnb. Það er oft talað um að fyrstu tvær milljónirnar sem þú aflar þér í verktöku eða útleigu á Airbnb séu skattfrjálsar. Það er hvít lygi. Ekki þarf kennitölu fyrirtækis til þess að afla sér tveggja milljóna króna tekna ár hvert án þess að vera launþegi, og þar af leiðandi má ekki að rukka virðisaukaskatt af þeirri upphæð án þess að skila honum til ríkisins. Aflir þú yfir tveimur milljónum í tekjur þarft þú að skrá þig á VSK-skrá og rukka virðisaukaskatt. Hér ber þó að vara sig á því að brjóta ekki lögin. Af þessum tekjum, sem ekki ná tveimur milljónum kr. árlega, þarf þó að greiða staðgreiðslu opinberra gjalda af rekstrarhagnaði.
Airbnb er ekki skattfrjálst
Ertu að leigja út íbúðina þína á vefsíðum eins og Airbnb? Þá er ekki ólíklegt að þú sért að svíkjast undan skatti, jafnvel ómeðvitað. Sértu með íbúð eða herbergi í útleigu ber þér að gefa upp tekjur þínar mánaðarlega, en til þess þarftu að skrá þig á launagreiðendaskrá líkt og ef þú ert verktaki. Meðal þess sem þú þarft að greiða af tekjunum er tekjuskattur, útsvar, tryggingargjald og iðgjald í lífeyrissjóð. Hlutir sem að atvinnurekandi sér um að greiða fyrir þig af laununum þínum, sem ég tel að ætti að koma fram á launaseðli til þess að auka fjármálalæsi, samanber fyrri skrif mín. Ef þú ert ómeðvitað að svíkjast undan skatti, þá hvet ég þig til þess að hafa samband við RSK og fá aðstoð við að hætta því. Árlegt tekjutap ríkis og sveitarfélaga af Airbnb skattasvikum er metið sex milljarðar króna samkvæmt lauslegum útreikningi KPMG.
Aukum fjármálalæsi
Mikill kostur væri ef skattkerfið yrði aftur eins einfalt í hugum fólks og þegar tíundarlögin voru sett. Hér fór ég aðeins yfir tekjuskatt, virðisaukaskatt og útsvar, en skildi eftir skatta líkt og fjármagnstekjuskatt, gistináttaskatt, útvarpsgjald og fleiri. Það er mikið tímatap sem felst í því þegar einstaklingar skilja hvorki upp né niður í því hvers vegna þeir skulda skattinum, eða hvers vegna skatturinn skuldar þeim. Margir svíkjast ómeðvitað undan skatti. Yfirvöld bera að miklum hluta til ábyrgð á þessu, en það er auðvitað á ábyrgð einstaklinganna að leita sér upplýsinga. Næstkomandi miðvikudag er ráðstefna sem ber nafnið Ungt fólk og fjármálalæsi. Ég mæli með mætingu fyrir alla, unga sem aldna. Ef það á að halda hér úti flóknu skattkerfi, er lágmark að þegnar landsins séu upplýstir um hvernig það virkar, á mannamáli. Það er mikil þörf á því, bæði fyrir ungt fólk og þá sem eldri eru.