Skattasamkeppni er af hinu góða

eftir Kristinn Ingi Jónsson

Stjórnvöld um allan heim reyna yfirleitt hvað sem þau geta til þess að halda meintum drottnunarvöldum stórfyrirtækja í skefjum. Víðast hvar hafa verið lögfestar allstrangar samkeppnisreglur og þá hefur sérstökum samkeppnisstofnunum jafnframt verið falið víðtækt vald til þess að grípa inn í rekstur slíkra fyrirtækja, ef ástæða þykir til. Þó svo að deila megi um ágæti slíkra íþyngjandi aðgerða, þá er markmiðið vitaskuld að efla virka samkeppni í viðskiptum og vinna þannig gegn skaðlegri fákeppni og leynilegu samráði fyrirtækja. Það virðist nefnilega vera ágætur samhljómur um að heilbrigð samkeppni sé af hinu góða.

En þó kannski ekki alltaf. Stjórnmálamenn vilja til dæmis ekki að ríki heims keppi sín á milli á skattalegum forsendum.

Af einhverjum ástæðum er skattasamkeppni á milli ríkja oft litin hornauga. Stjórnmálamenn vilja yfirleitt ekki einu sinni heyra á hana minnst og hafa raunar gengið svo langt að segja henni stríð á hendur. Og ekki má segja að álit manna á henni hafi batnað seinustu daga, eftir að Panama-skjölin svonefndu voru gerð opinber. En hún er samt alveg jafn sjálfsögð og samkeppni fyrirtækja á markaði. Þar gilda nákvæmlega sömu hagfræðilegu lögmál. Ríki keppa sín á milli um fólk og fjármagn og ættu því að kappkosta við að gera skattkerfi sín sem hagstæðust og hafa skatta sem allra lægsta.

Á vettvangi Evrópusambandsins og OECD hafa heyrst háværar raddir um að koma eigi í veg fyrir slíka samkeppni með því að samræma skattheimtu á milli ríkja á sem flestum sviðum. Þessar raddir hafa verið hvað háværastar í ríkjum eins og Frakklandi og Grikklandi þar sem skattar eru háir og stjórnvöld standa frammi fyrir þeim vanda að fólk og fyrirtæki flykkjast til annarra ríkja þar sem skattar eru lægri. Skattasamráð, eins og önnur samráð, felst í því að ríki koma sér saman um að samræma skattheimtu sín á milli. Hugsunin er sú að vilji stjórnvöld í einu ríki hækka skatta vita þau að þau eiga í hættu á að fólk og fyrirtæki taki á flótta til annarra ríkja, þar sem skattkerfið er vinsamlegra í þeirra garð. Leggist hins vegar mörg ríki á ráðin um að hækka skatta eiga skattgreiðendur sér engrar undankomu auðið.

Vandamálið er að slíkt skattasamráð getur vart haldið til langs tíma. Ekki þarf nema eitt ríki til að svíkjast undir merkjum til þess að önnur ríki sjái ekki hag sínum borgið innan bandalagsins.

Það er nefnilega alltaf hægt að finna flóttaleið. Í gegnum rás tímans hefur fólk ávallt leitað leiða til að flýja yfirgang ríkisvaldsins með einum eða öðrum hætti. Við Íslendingar flúðum til dæmis skattpíningu Haraldar hárfagra Noregskonungs á sínum tíma. Við kusum með fótunum og fundum einfaldlega leið burt.

Skattaglaðir stjórnmálamenn

Skattasamkeppni veitir því stjórnvöldum í hverju landi ákveðið aðhald og heldur í skefjum viðleitni stjórnmálamanna til að hækka skatta. Það er sannarlega mikilsvert, enda er síður en svo sjálfgefið að stjórnmálamenn vilji lækka skatta, eins og við þekkjum svo vel.

Lægri skattar þýða nefnilega að þeir hafa úr færri krónum að spila og geta því síður keypt sér fylgi fyrir kosningar á kostnað skattgreiðenda. Hagsmunir skattgreiðenda eru jafnframt dreifðir og léttvægir fyrir hvern og einn og sjá þeir því ekki mikinn hag í því að bindast samtökum um að berjast gegn skattheimtu, á meðan hagsmunir hinna fáu sem eiga sérhagsmuna að gæta og njóta góðs af skattheimtunni eru miklir og þess virði að berjast fyrir. Stjórnmálamenn vilja auðvitað ekki fá slíka sérhagsmunahópa upp á móti sér. Það þarf að minnsta kosti áræðinn og sterkan stjórnmálamann með bein í nefinu til þess að andæfa slíkum þrýstingi og taka þess í stað málstað skattgreiðenda. Auðvelda og átakalitla leiðin er að auka útgjöldin og hækka bara skattana.

Snilldin við skattasamkeppnina er hins vegar sú að hún hefur neytt ríki til þess að gera hið þveröfuga, lækka skatta, þvert gegn vilja þeirra. Um það er ekki deilt. Þegar Ronald Reagan og Margaret Thatcher lækkuðu tekjuskatt í Bandaríkjunum og Bretlandi fyrir meira en þrjátíu árum urðu önnur ríki að fylgja í kjölfarið. Aukin skattasamkeppni hefur til dæmis valdið því að tekjuskattur á fyrirtæki í OECD-ríkjunum lækkaði að meðaltali úr 51% árið 1981 í 25% í fyrra. Á sama tíma lækkaði jaðarskattur á einstaklinga í sömu ríkjum að meðaltali úr um 70% í 45%. Samkeppnin hefur þannig tvímælalaust veikt skattlagningarvald stjórnmálamanna og gert það að verkum að fólk hefur fengið að halda meiru eftir af því sem réttilega er þeirra.

Allir græða

Þeir sem berjast gegn skattasamkeppni halda því stundum fram að hún sé það sem kallað er „núllsummuleikur“ til skemmri tíma – að eins gróði sé annars tap – og að allir tapi á henni þegar til lengri tíma er litið. Þeir segja að með því að lækka skatta laði ríki A að sér fjármagn, en aðeins á kostnað ríkis B. Summan sé núll. Til langs tíma neyðist stjórnvöld í ríkjum A og B til að undirbjóða hvort annað í skattalegu tilliti og þannig grafi þau undan möguleikum sínum til að fjármagna gagnlega almannaþjónustu.

En þetta er ekki rétt. Í fyrsta lagi hafa skattar ekki í för með sér verri samkeppnisstöðu svo lengi sem borgarar fá góða þjónustu fyrir þá skattpeninga sem þeir greiða til ríkisins. Ef ríki A hefur einungis efni á að hafa skatta lægri en ríki B með því að hætta að fjármagna ýmsar grunnstoðir samfélagsins, svo sem dómstólakerfið og löggæslu, þá mun ríki A hvorki laða til sín fjárfesta né hæft vinnuafl frá ríki B. En ef skattar í ríki B eru hærri vegna þess að stjórnvöld þar fjármagna ýmis konar verkefni sem borgararnir hafa ekki nægilega miklar mætur á, eða vegna þess að þau stofna til útgjalda sem aðeins einn hópur hagnast af á kostnað annars, eða ef þau krefjast þess að veita þjónustu sem borgarar ríkis A geta sótt sér ódýrara í einkageiranum, þá verður myndin önnur. Skattasamkeppni er ekki ógnun við þá almannaþjónustu sem fólk vill að ríkisvaldið veitir, heldur spornar hún gegn þeirri viðleitni ríkja að taka yfir æ fleiri verkefni sem einkaaðilar geta með góðu móti sinnt.

Í öðru lagi er skattasamkeppni ekki núllsummuleikur. Ef hún leiðir til þess að skattar lækki á sparnað, vinnu og framtakssemi, þá munu fleiri spara, vinnusemi eykst og verðmætasköpun sömuleiðis. Í stað þess að ríki A hagnist á kostnað ríkis B er nærtækara að hugsa sem svo að borgarar beggja ríka hagnist, enda verða stjórnmálamenn í báðum ríkjum að halda að sér höndum. Skattasamkeppni er því áhrifarík og í raun nauðsynleg leið til þess að verja skattgreiðendur gegn óseðjandi skattafíkn stjórnmálamanna.

Að hafa ekki öll eggin í sömu körfu

Samkeppni ríkja þegar kemur að skattlagningu er ekki aðeins nauðsynleg til þess að stuðla að lægri sköttum, eins og áður hefur verið nefnt, heldur eru rökin ekki síður þau að fólk og fyrirtæki eiga einfaldlega rétt á því að velja sér það skattaumhverfi sem hentar því best.

Að undanförnu hefur mikið verið fjallað um Panama-skjölin svonefndu sem voru nýlega gerð opinber í einum stærsta gagnaleka sögunnar. Í þeim má finna trúnaðarupplýsingar um fólk og fyrirtæki sem eiga eignir og fjármagn í svokölluðum aflandsfélögum, þ.e. félögum sem eru skráð í ríkjum þar sem skattar eru lágir og sums staðar jafnvel engir, þá aðallega á suðrænum eyjum í Karíbahafinu. Eru að minnsta kosti 600 Íslendingar sagðir tengjast slíkum aflandsfélögum.

Það er kannski skiljanlegt að fólk spyrji sig hvers vegna svona margir Íslendingar hafa kosið að geyma stórfé í slíkum ríkjum. Á árum áður – þegar flest þessara félaga voru stofnuð – var skattalegt hagræði fólgið í því. Þá gátu eigendur aflandsfélaga frestað skattgreiðslum af söluhagnaði félaganna þangað til greitt var út úr þeim. Sambærilegt ákvæði mátti finna í skattalögum langflestra vestrænna þjóða. Eftir að CFC-löggjöfin tók gildi hér á landi í ársbyrjun 2010 er ekki hægt að fresta slíkri skattlagningu og er skattalega hagræðið því ekki lengur til staðar. Eru nú tekjur aflandsfélaga skattlagðar á hverju ári. Enn eru hins vegar fjölmargar viturlegar ástæður fyrir því að eiga eignir í aflandsfélögum, svo sem til þess að forðast gjaldeyrishöft, óstöðugan gjaldmiðil, verðbólgu, pólitíska áhættu, flókið skattkerfi, íþyngjandi regluverk og svo mætti áfram telja. Það er líka alveg vitað mál að það er síður en svo einfalt að eiga íslenskt félag í alþjóðlegum viðskiptum. Einnig eru það bæði gömul sannindi og ný að ekki er sniðugt að hafa öll eggin í sömu körfunni. Það væri hreinlega stórhættulegt, sér í lagi í litlu samfélagi eins og því íslenska, að geyma allan sparnað landsmanna hér. Skynsamleg eignadreifing kemur öllum til góðs.

Getum við gert Ísland að skattaskjóli?

Þannig að ef menn vilja sporna gegn því að Íslendingar leiti með fé sitt út fyrir landsteinana ættu þeir ekki að gera skattaskjól að blóraböggli. Menn munu ávallt nota þær lögmætu leiðir sem til eru til þess að draga úr skattgreiðslum sínum. Spurningin ætti fremur að vera sú hvað við getum gert til þess að laða hingað að fólk og fjármagn. Getum við með einhverjum hætti gert Ísland að skattaskjóli? Svarið er nokkuð einfalt. Besta leiðin er að draga úr álögum og einfalda skattkerfið þannig að skattaumhverfið verði sem hagstæðast. Lausnin gæti til dæmis falist í því að lækka skatta svo verulega að ekki nokkrum manni dytti í hug að geyma verðmæti sín annars staðar. Stjórnvöld eiga í það minnsta, hvað sem öðru líður, að skapa þannig skilyrði – með opnu hagkerfi, aðlaðandi skattaumhverfi og fyrirsjáanlegum leikreglum – að fólk og fyrirtæki sjái sér hag í því að vera hér á landi, en ekki að þvinga það til þess að vera í umhverfi sem það vill flýja.

Skattaskjólin leynast víða

Það má finna skattaskjól víða, ekki aðeins á suðrænum eyjum, eins og stundum mætti halda af umræðunni. Bretar leggja til dæmis ekki skatt á tekjur útlendinga í sjö ár ef þeir koma ekki með fjármagn til landsins. Svíar skattleggja ekki fjármagnstekjur þeirra sem eru heimilisfastir í landinu ef farin er hin svonefnda „Kapitalförsäkring“-leið. Írar bjóða fyrirtækjum sem stunda rannsóknir þar í landi upp á 6,25% tekjuskatt og eins stendur fyrirtækjum og fjármagnseigendum í Sviss til boða margvísleg skattfríðindi, svo örfá dæmi séu tekin.

Skattaskjólin leynast meira að segja hér á landi. Skorrahaldshreppur og Grímsnes- og Grafningshreppur lofa til að mynda íbúum sínum að njóta lágmarksútvars, 12,44%, Fríhöfnin býður farþegum sem fara um flugstöð Leifs Eiríkssonar upp á alls konar skattfrjálsan varning og þá hafa íslensk stjórnvöld enn fremur lokkað hingað til lands erlend stórfyrirtæki með loforðum um litla eða enga skatta. Og nú fyrir aðeins fáeinum dögum lagði fjármálaráðherra fram frumvarp á þingi þess efnis að erlendir sérfræðingar, sem ráðnir verða til starfa hér á landi, muni einungis þurfa að greiða skatta af 75 prósent af tekjum sínum í þrjú ár.

Þeir íslensku stjórnmálamenn sem hafa að undanförnu fett fingur út í þá sem nýta sér skattaskjól ættu kannski að líta sér nær.

Skattsvik eru lögbrot

Það er ekkert ólöglegt eða siðlaust við að eiga eignir í aflandsfélögum, heldur er beinlínis gert ráð fyrir því í íslenskum skattalögum. Hins vegar hefur ætíð verið ólöglegt að greiða ekki skatt og vissulega hafa Panama-skjölin sýnt fram á að til er fólk, einræðisherrar, vopnasalar og kúgarar, svo dæmi séu tekin, sem misnota aflandsfélög til þess að svíkja undan skatti og stunda peningaþvætti. Það þarf hins vegar ekki aflandsfélög til þess. Flestir nota þessi félög í lögmætum tilgangi og það af góðri ástæðu. Skattsvik eru ekki það sama og skattahagræðing – langt í frá. Annað er ólöglegt – hitt ekki.

Það ber vott um tvískinnung að tala fyrir samkeppni á milli fyrirtækja en vera á sama tíma talsmaður fákeppni í skattamálum. Það verður ekki bæði sleppt og haldið. Samkeppni á milli ríkja um fólk og fjármagn er heilladrjúg leið til þess að halda skattaglöðum stjórnmálamönnum á mottunni – öllum til góðs.

Kristinn Ingi Jónsson

Pistlahöfundur

Kristinn Ingi er laganemi við Háskóla Íslands og viðskiptablaðamaður á Fréttablaðinu. Skrif hans í Rómi beinast helst að stjórnmálum, viðskiptum, lögfræði og hagfræði.