Skakki turninn í PISA

eftir Ritstjórn

Niðurstöður PISA 2015 kannanarinnar var gefin út nú á dögunum. Minni spámenn en Nostradamus máttu geta sér til um að niðurstaðan yrði á þessa leið. Menntamál hafa ekki verið í miklum forgangi í opinberri umræðu né þegar kemur að fjárveitingum undanfarin ár.

Í skemmstu máli eru niðurstöðurnar þær að frá árinu 2000 hefur íslenskum börnum hrakað í lesskilningi úr 507 stigum niður í 482. Þegar kemur að stærðfræðilæsi höfum við frá árinu 2003 lækkað úr 515 stigum niður í 488 stig sem er 27 stiga lækkun. Þegar kemur að vísindalæsi höfum við frá 2006 lækkað úr 491 stigi niður í 473 sem gerir 18 stiga lækkun.

Í kjölfarið virtust flestir sammála um að ágalla mætti finna á prófinu. Ýmist er það ný tækni, lélegar þýðingar eða andleysi nemenda við próftöku sem lýst var í löngum póstum á Facebook. Árinni kennir illur ræðari, eða eitthvað þannig, og enginn vill taka ábyrgð.

Miðstýring er vond – punktur

Íslenska menntakerfið hefur einstakt lag á því að fóstra smákónga sem allir eru í samkeppni um völd. Kennaraforustan hefur um árabil lagt upp með ósveigjanlega kjarasamninga þar sem umbunarkerfið hefur nær eingöngu verið tengt við starfsaldur. Menntamálaráðuneytið hefur verið þekkt fyrir lítil afköst og jafnvel hægt að fá á tilfinninguna að aðrir hagsmunir ráði för en þjónusta við stefnumótunaraðila. Undirstofnanir ráðuneytisins (lesist: menntamálastofnun) rekur sína eigin menntamálapólitík eins og Ragnar Þór Pétursson hefur bent á. Allt þetta hefur lagt mark sitt á íslenskt skólastarf og í eilífri valdabaráttu miðlægra afla er erfitt að einblína á gæði.

Það sem virðist hins vegar vera alveg ljóst í niðurstöðum kannanarinnar er sú staðreynd að aukin miðstýring hefur neikvæð áhrif á árangur. Það hefur jákvæð áhrif á árangur að valdefla stjórnendur og starfsmenn skólanna. Þar verður strax ljóst að menntamálastofnun og miðlægar stjórnsýslueiningar verða að gjöra svo vel að hætta að ota sínum tota, auka áherslu á mælingar og óháða gagnaöflun en leyfa fagaðilum innan skólanna að stýra sinni starfsemi.

Í því samhengi er áhugavert að skoða hvað skólastjórar segja því PISA sendir einnig út spurningalista til skólastjóra. Þeir eru beðnir um að svara því hvað séu helstu hindranirnar í veginum þegar kemur að menntun nemenda. Algengasti þátturinn á Íslandi að mati skólastjóra var andstaða starfsfólks við breytingar. Skólastjórar í skólum sem ná til 32% nemenda gáfu upp þessa ástæðu. Næst algengasta ástæðan var að kennarar næðu ekki að mæta einstaklingsbundnum þörfum nemenda nægilega vel en sú ástæða nær til 26% nemenda í íslenskum skólum.

Ef lagðar eru saman þessar staðreyndir, að valdefling starfsmanna skólans skili árangri og að andstaða starfsmanna við breytingar sé hindrun á menntaveginum koma ákveðnar vísbendingar í ljós. Kennarar virðast almennt ekki hafa frumkvæði að breytingum eða eiga neitt undir því að ná fram breytingum. Það virðist vera kerfisbundið vandamál.

Gleðjumst yfir því að allir séu jafn lélegir

Í pistli sínum í greinargerð Menntamálastofnunar um niðurstöður PISA könnunarinnar segir Arnór Guðmundsson, forstjóri stofnunarinnar, að niðurstöðurnar séu áhyggjuefni. Honum finnst þó vert að Íslendingar viðurkenni það sem vel mælist í könnunni og segir: „Jöfnuður er hér mikill sem kemur fram í því að munur á árangri milli skóla er minnstur af öllum OECD ríkjum. Hér á landi skiptir það litlu máli í hvaða skóla nemendur ganga ef skýra á árangur þeirra.“

Á sama tíma er ljóst að niðurstöðurnar eru slæmar og margir skólar glíma við grundvallarvandamál líkt og lýst var hér að ofan. Það er því ekki hægt að skilja orð forstjórans með öðrum hætti en að við eigum að vera þakklát fyrir það að skólarnir séu flestir svipað lélegir.

Förum heilsugæsluleiðina

Nýlega var farin sú leið í rekstri heilsugæslustöðva á Íslandi að opna fyrir þann möguleika að læknar og heilbrigðisstarfsfólk ætti og ræki eigin heilsugæslustöðvar. Þær væru þá einkareknar en ríkið greiddi fyrir þjónustuna þannig að fé fylgdi sjúklingum. Með því móti var heimilislæknum gert kleift að búa við samskonar starfsumhverfi og þekktist á norðurlöndunum. Á móti þessari einkareksturslausn var girt fyrir arðgreiðslur og heildarfjármagn til heilsugæslu var aukið umtalsvert.

Þó svo að málefnið sé flókið og langur vegur sé til þess að skora að nýju hátt í PISA könnunum er heilsugæslulausnin, kerfislausn sem gæti valdeflt kennara í menntakerfinu, blásið nýju lífi í hagkvæmni og árangursmiðaða kennslu, losað skóla undan okinu sem fylgir miðlægum kjarasamningum og sömu launum fyrir alla kennara óháð getu þeirra. Við þurfum nefnilega að hætta að sætta okkur við að allir skólarnir séu jafn lélegir. Við eigum að fagna fjölbreytninni sem fæst þegar við leyfum skólum að vaxa og dafna á eigin forsendum en ekki forsendum stjórnsýslunnar.

Við ættum því að láta reyna á hana og um leið að biðja smákóngana að halda sig til hlés.

Ritstjórn

Ritstjórn

Ritstjórn Róms skipa Björn Már Ólafsson, Ísak Rúnarsson, Tryggvi Másson, Erla María Tölgyes, Jónína Sigurðardóttir og Oddur Þórðarson.