Sjóræningjar samtímans

eftir Alexander Freyr Einarsson

Sjálfsagt tengjum við okkur fæst við Svartskegg eða Johnny Depp í Pirates of The Caribbean kvikmyndunum en mörg eigum við þó sameiginlegt að stunda það athæfi sem kennt er við sjórán (e. piracy) á enskri tungu. Á íslensku er frekar talað um ólöglegt niðurhal eða ólöglega dreifingu, sem felst í því að við sækjum okkur kvikmyndir, sjónvarpsþætti, tónlist, íþróttaviðburði, hugbúnað o.fl. á veraldarvefinn án þess að borga fyrir það. Þrátt fyrir að ólögleg sala og dreifing á hinu ýmsa afþreyingarefni hafi verið til í áratugi hefur hin stafræna öld og veraldarvefurinn margfaldað umfang þessarar starfsemi, enda mun auðveldara í framkvæmd á tölvuöld. Segja má að tónlistarforritið Napster hafi lagt grunninn að þessari byltingu um aldamótin síðustu og torrent-tæknin sem kom í kjölfarið hefur einnig spilað stórt hlutverk.

Í könnun sem ég framkvæmdi fyrir ritgerð við Háskóla Íslands vildi ég átta mig á umfangi ólöglegs niðurhals hérlendis og niðurstaðan kom ekki á óvart. Af þeim 218 manns á aldrinum 19-35 ára sem tóku þátt (57% karlar og 43% konur) höfðu 91,7% stundað ólöglegt niðurhal undanfarna 12 mánuði og þar af meira en helmingur vikulega eða oftar. Þar sem ég vil helst ekki vera að játa á mig glæpi í pistlum mínum læt ég mér nægja  að segja að það gæti verið hugsanlegt að ég samsvari mig þessu fólki. Kannski ekki, hver veit. Ókei, jú, ég er sekur (ef ég fer fyrir rétt mun ég taka skýrt fram að ég skilgreindi aldrei nákvæmlega um hvað ég er sekur).

Þjófnaður eða ekki?

Eitt af því sem mér þótti hvað athyglisverðast í könnun minni var sú staðreynd að einungis 6,5% þeirra sem stunda ólöglegt niðurhal líta á það sem sambærilegt þjófnaði úr verslun. Örlítið fleiri, eða 10%, sögðust fá samviskubit þegar þau stunda ólöglegt niðurhal og var þar talsverður munur á milli kynja. Einungis 6% karla sögðust fá samviskubit en 15,7% kvenna. Hvers vegna lítum við ekki á „sjórán“ sem þjófnað þegar við erum ólöglega að ná í eitthvað ókeypis sem við ættum með réttu að greiða fyrir? Ýmsar rannsóknir hafa reynt að svara þessari spurningu og hefur m.a. verið nefnd sú staðreynd að í tilfelli stafrænna gagna er ekki um að ræða áþreifanlega hluti og því erfiðara fyrir fólk að samsvara athæfið raunverulegum þjófnaði. Fólk er einfaldlega að sækja skjal í tölvuna sína og engin mannleg samskipti eiga sér stað. Þetta gerist allt fyrir framan tölvuskjá og þar með eru mannleg tengsl rofin.

Aðrir hafa nefnt þá staðreynd að fólk upplifi ekki jafn sterka siðferðiskennd gagnvart risastórum framleiðslufyrirtækjum á borð við kvikmyndaver, sjónvarpsstöðvar eða plötuútgefendur. Telur fólk gjörðir sínar ekki hafa mikil áhrif á heildarafkomu þessara fyrirtækja í ljósi þess að þau velta milljörðum árlega. Þetta gæti útskýrt hvers vegna einungis 33% þeirra sem sögðust í könnun minni hafa náð ólöglega í efni á netinu höfðu sótt sér íslenskt efni. Tjónið er meira hjá íslenskum fyrirtækjum sem hafa talsvert lægri tekjur.

Einnig spilar líklega inn í sú staðreynd að við teljum afskaplega litlar líkur á því að upp um okkur komist, fólk er líklegra til að fremja glæp ef það er sannfært um að það komist upp með hann. Þannig held ég því miður að við mannfólkið séum úr garði gerð og ég er þar sjálfsagt engin undantekning.

Hvert er tjónið?

Gríðarlega erfitt er að meta tjónið sem framleiðendur verða fyrir vegna ólöglegs niðurhals. Hagsmunasamtök framleiðendanna beita vafasömum útreikningum og tala um tjón upp á milljarða dollara og ganga svo langt að segja að skemmtanaiðnaðurinn muni með þessu áframhaldi leggjast af. Þeim tókst að koma hinu umdeilda SOPA (e. Stop Online Piracy Act) frumvarpi inn á þing í Bandaríkjunum og hefði samþykkt þess haft gríðarlega alvarlegar afleiðingar fyrir friðhelgi einkalífsins. Sem betur fer varð frumvarp þetta aldrei að lögum en skiljanlega eru framleiðendur ekkert allt of hrifnir af því að fólk sé að ná ólöglega í efnið sitt, enda eyða þeir gríðarlegum fjárhæðum í framleiðslu þess. Þeir eiga ákveðna samúð skilið því mjög erfitt er að mæla tjónið, þeirra hagsmunir eru því auðvitað að nota (eða skálda) allra verstu tölurnar.

Þó er fráleitt að reikna tekjutap þannig að ef t.d. milljón manns nái ólöglega í kvikmynd sem kostar 1.000 krónur að kaupa, þá nemi tapið milljarði króna. Staðreyndin er auðvitað sú að engin leið er til að átta sig nákvæmlega á því hverjir hefðu keypt efnið löglega og hverjir hefðu einfaldlega sleppt því að horfa, hlusta o.s.frv. Ég get fullyrt að ég hefði ekki eytt mörgum krónum í það afþreyingarefni sem ég hef (innskot lögfræðings: alls ekki) sótt ólöglega. Þannig má í raun færa rök fyrir því að ólöglegt niðurhal auki heildarábata samfélagsins, því þeir sem aldrei hefðu borgað fyrir efnið til að byrja með fá samt að njóta þess.

Sjónvarpsþátturinn Game of Thrones er sá vinsælasti í heimi og jafnframt sá sem oftast hefur verið sóttur ólöglega undanfarin ár. Árið 2013 fannst Michael Lombardo, einum af yfirmönnum HBO sjónvarpsstöðvarinnar sem framleiðir þættina, samt tilefni til að taka fram að hann liti á ólöglegt niðurhal á þættinum sem jákvæðan stuðning við framleiðsluna. Hann sagði að niðurhalið hefði svo sannarlega ekki neikvæð áhrif á DVD-sölu. Ólöglegt niðurhal gefur nefnilega neytendum í vafa tækifæri til að prófa vöruna áður en þeir ákveða hvort þeir vilja kaupa hana eða ekki. Án möguleikans hefðu einhverjir þeirra sjálfsagt látið kaupin eiga sig og er því mikilvægt að velta fyrir sér þeim vinkli að ólöglegt niðurhal getur skapað nýja viðskiptavini.

Komið til að vera eða millibilsástand?

Í títtnefndri könnun minni kom fram að einungis 45% þeirra sem stunda ólöglegt niðurhal sögðust gera það vegna peningasparnaðar á meðan 75% gerðu það vegna tímasparnaðar og 30,5% til að komast yfir afþreyingarefni áður en það kemur út á markaði (ekki efast um reiknikunnáttu mína, það var hægt að haka við fleiri en einn hlut). Þá sögðust tæp 73% hafa stundað löglegt niðurhal í gegnum þjónustu á borð við Netflix eða Spotify. Þetta segir mér að í dag er löglegt niðurhal stuðningur við ólöglegt niðurhal en kemur ekki í stað þess, en líklega er það vegna þess að löglegi möguleikinn er enn ekki orðinn nógu góður.

Það hlýtur að teljast jákvætt að frá árinu 2011 hefur áskrifendum sjónvarpsveitunnar Netflix fjölgað úr 22 milljónum í 81 milljón samkvæmt tölfræðisíðunni Statista. Þar kemur einnig fram að notendum tónlistarveitunnar Spotify hefur fjölgað úr hálfri milljón í 30 milljónir frá 2010. Þetta er í takt við niðurstöðu könnunarinnar um að tímasparnaður gegni mikilvægu hlutverki og þegar möguleikinn er fyrir hendi eru margir tilbúnir að greiða fyrir efnið. Líklega verður ansi erfitt að stöðva ólöglegt niðurhal með lagalegum aðgerðum en það getur vel verið að markaðurinn geri það ef þróun þessi heldur áfram. Að minnsta kosti hjá þeim sem eru tilbúnir að borga á annað borð, ég tel óþarfa að hafa of miklar áhyggjur af hinum.

Til að þetta gerist þarf þó að gera enn betur en gert hefur verið í dag. Hægt þarf að vera að nálgast efnið nákvæmlega jafn hratt á löglegan máta og hægt er að gera það á ólöglegan máta. Þjónustan þarf að vera þægileg, skilvirk og á sanngjörnu verði. Ég hef ágæta trú á því að slíkt verði tilfellið innan örfárra ára þegar framleiðendur átta sig á því að stríðið gegn ólöglegu niðurhali er tapað og þeir gætu alveg eins reynt að fá eins mikið út úr þessu og þeir geta. Þá mun hið stafræna sjórán kannski leggjast út af að mestu leyti líkt og hefur gerst í tilfelli alvöru sjórána.

 

Alexander Freyr Einarsson

Pistlahöfundur

Alexander Freyr er MFin frá Massachusetts Institute of Technology og hagfræðingur frá Háskóla Íslands. Hann býr í New York þar sem hann starfar í fjárfestingarbanka. Áður starfaði hann hjá Viðskiptablaðinu, auk þess sem hann skrifaði skýrsluna “Framtak við Endurreisn” ásamt Dr. Ásgeiri Jónssyni. Alexander er áhugamaður um fjármál, hagfræði, stjórnmál, knattspyrnu, ferðalög og góð rauðvín.