Sjónum beint að skjólum í sjónum

eftir Ritstjórn

Umræða síðustu vikna hefur fyrst og fremst snúist um félög sem liggja af landi og fólk sem vill sitja í forsvari fyrir land. Ekki er fyrirséð að lát verði á þessari umræðu nema síður sé. Forsetaframbjóðendum mun fjölga og áfram verður fjallað um skattaskjól. Í kvöld verður Kastljósinu beint að stjórnmálamönnum sem tengjast aflandsfélögum í skattaskjólum með einum eða öðrum hætti. Þátturinn er unninn í samstarfi við fjölmiðlafyrirtækið Reykjavík Media, ICIJ Alþjóðasamtök rannsóknarblaðamanna og þýska blaðið Süddeutsche Zeitung.

Sé mið tekið af upplýsingum sem nú liggja fyrir virðist sem mikill eðlismunur sé á málum  Sigmundar Davíðs Gunnlaugssonar, forsætisráðherra annars vegar og Bjarna Benediktssonar, fjármála- og efnahagsráðherra og Ólafar Nordal, innanríkisráðherra hins vegar. Öll hafa þau einhver tengsl við skattaskjól, en fyrirséð er að listinn telji mun fleiri en þau þrjú. Aðeins einn aðili sat þó beggja megin samningsborðsins í viðræðum við kröfuhafana.

Að greina kjarnann frá hisminu

Í tilfelli Bjarna virðist vera um að ræða gamalt fjárfestingarverkefni sem rann út í sandinn, ef marka má tilkynningu hans á Facebook. Félag það sem hann hefur verið tengdur við hefur ekki haft starfsemi árum saman. Árið 2009 seldi Bjarni hlut sinn í fyrirtækjum þeim er hann átti hlut í og hefur ekki stundað fjárfestingarstarfssemi innanlands eða utan síðan. Á kjörtímabilinu hefur hann að auki beitt sér fyrir aðild Íslands að upplýsingaskiptasamningum við erlend ríki og sóttist á síðasta ári eftir gögnum um félög í skattaskjólum. Þannig hefur Bjarni ekki haft neinna sérhagsmuna að gæta varðandi uppgjör við kröfuhafa eða nokkuð annað sem viðvíkur störfum hans sem fjármála- og efnahagsráðherra. Þess vegna er fráleitt að líkja máli forsætisráðherra saman við mál Bjarna.

Hvað varðar tengsl Ólafar við aflandsfélög gegnum eiginmann hennar, liggur ljóst fyrir eignarhald reiknings, sem vísað hefur verið er til í umræðunni. Einnig liggur fyrir að Landsbankinn er skráður eigandi reikningsins. Í tilkynningu sinni á Facebook kvað Ólöf félagið eiga rætur að rekja til félags sem stofnað var fyrir tíu árum um kaupréttarsamninga eiginmanns hennar, sem starfað hefur hjá alþjóðlegu fyrirtæki í 12 ár. Hann hafi ráðfært sig við Landsbankann varðandi fjármál sín og verið ráðlagt að stofna félag erlendis. Landsbankinn í Lúxemborg hafi í kjölfarið stofnað umrætt félag og væri jafnframt skráður eigandi þess. Það hefði aldrei verið nýtt í fjárfestingar enda aldrei neinir fjármunir í því. Þetta átti sér stað áður en Ólöf tók sæti á Alþingi. Þannig er ótækt að ætla að fjárhagur og fjármál þeirra hjóna hafi haft nokkur áhrif á störf Ólafar á Alþingi, fyrst sem þingmanns og síðar ráðherra.

Mergurinn málsins

Forsætisráðherra stofnaði félagið Wintris ásamt eiginkonu sinni árið 2007 á Bresku Jómfrúreyjunum. Eignarhald þess var fært yfir á eiginkonu Sigmundar 2009, sama ár og hann tók sæti á Alþingi. Að sögn Sigmundar var fjármagnið að mestum hluta eign eiginkonu hans og skráð á hana. Helsti munurinn á félagi Sigmundar og þeirra Bjarna og Ólafar er að félagið er einn kröfuhafa á slitabú föllnu bankanna, en það er meginatriði í þeirri ólgu sem ríkt hefur síðustu vikur, réttilega.

Þó Sigmundur hafi aldrei opinberað um félagið hefur hann sagt opinberlega að hann hafi velt  því fyrir sér í gegnum tíðina, meðal annars þegar hann var orðinn forsætisráðherra og beinn og jafnvel ötull aðkomuaðili að samningum við kröfuhafa slitabúa gömlu bankanna. Það hafi hvarflað að honum hvort hann ætti að upplýsa um þessi tengsl og hann virðist jafnvel hafa verið í vafa um það hvort rétt væri að upplýsa, þó ekki nema sitt nánasta samstarfsfólk. Það gerði hann ekki, meðal annars eftir að hafa rætt og ráðfært sig við eiginkonu sína, sem er kröfuhafi í slitabú bankanna, líkt og áður sagði. Sú umgjörð er kunnug landsmönnum, sem smíðuð var á yfirstandandi kjörtímabili fyrir kröfuhafa slitabúa gömlu bankanna, en með henni fékkst botn í það hvernig skyldi forgangsraðað og hvernig valmöguleika kröfuhafar hefðu á að fá fé greitt út úr búunum. Með nýjustu aðgerðum ríkisstjórnarinnar er breyting á skattalögum frá því í nóvember sl., þar sem felldir voru niður skattar af vaxtatekjum af skuldabréfum kröfuhafa slitabúanna, en tillagan var lögð fram af Frosta Sigurjónssyni formanni efnahags– og viðskiptanefndar, samflokksmanni forsætisráðherra.

Gott skjól í framandi löndum

Bresku Jómfrúreyjarnar eru og hafa áratugum saman verið þekkt sem skattaskjól. Þrátt fyrir að þar gildi að miklu leyti bresk lög þá gildir annað þegar kemur að fjármála-og bankakerfinu. Ekki hefur tekist nema tímabundið að koma einhverjum böndum yfir það og ávallt verið barist gegn tilraunum til þess, hvort sem þá er um að ræða reglugerðir á vegum ESB eða alþjóðlegra stofnana. Kerfið virðist ógegnsætt að ásettu ráði og regluverk innan þess óreiðukennt. Þær viðmiðanir sem stuðst er við skilja gjarnan eftir umtalsvert svigrúm til túlkunar og hafa þeir sem stofna félag á eyjunum afar takmarkaða skattskyldu, sama hvers kyns skatt er um að ræða. Auk þess virðist auðvelt að færa til og umbreyta fjármagni af reikningum þaðan t.d. með því að gefa út afleiður. Þekkt dæmi er tilfærsla fjármuna á reikninga annars staðar í heiminum án þess hægt sé að rekja slóð þeirra. Þar að auki eru ýmsar leiðir til að ráðstafa eða umbreyta fjármagni svo hægt sé að komast undan skatti. Ein helsta tekjulind Bresku Jómfrúreyjanna eru leyfisgjöld (e. licence fee) þeirra sem þar eiga félag og greidd eru reglulega. Hins vegar er enginn fjármagnstekjuskattur (e.capital gains tax), enginn skattur af gjöfum (e.gift tax), enginn söluskattur (e.sales tax) eða virðisaukaskattur (e. value added tax), enginn skattur af hagnaði (e.profit tax), enginn erfðafjárskattur (e.inheritance tax/estate duty) og enginn tekjuskattur á fyrirtæki (e.corporation tax).

Öllu lýkur þegar feita konan syngur

Bresku Jómfrúreyjarnar eru skattaskjól og þar hafa forsætisráðherra og eiginkona hans átt félag. Eignir sínar hafa þau kosið að geyma erlendis í slíku skjóli, fyrst sameiginlega en síðar undir hennar nafni. Eiginkona forsætisráðherra er einn kröfuhafa slitabúa bankanna og í spilunum eru talsverðir fjármunir.

Forsætisráðherra hefur verið mikill talsmaður íslensku krónunnar og því mætti spyrja sig hvers vegna þau hjónin geyma slíkar fjárhæðir í erlendri mynt á aflandseyju. Sigmundur Davíð hefur gefið þær skýringar að honum hafi ekki þótt það eðlilegt að kona sín væri að fjárfesta á Íslandi vegna mögulegra hagsmunaárekstra. Fjármunir þessir voru þó komnir í skjól áður en hann hóf formlega þátttöku í stjórnmálum. Það ættu því varla við sömu aðstæður árið 2007 þegar félagið var stofnað og eftir að Sigmundur Davíð fór á þing og varð síðar forsætisráðherra.

Aðkoma Sigmundar að samningum við kröfuhafa, þar sem hann var í aðstöðu til að hafa umtalsverð og jafnvel afgerandi áhrif á hvernig útkoman yrði, er í hæsta máta óeðlileg. Það að hafa haldið hagsmunatengslum sínum leyndum hlýtur að rýra traust hans allverulega. Þeir valkostir sem settir voru fram fyrir kröfuhafa hvað varðar stöðugleikaframlag eða skattlagningu virðast hafa verið nokkuð auðmetnir þegar kosið var um það meðal kröfuhafa. Áðurnefnd breyting á skattalögum sem fellir niður skatta af vaxtatekjum af skuldabréfum kröfuhafa slitabúanna, hefur bein áhrif til tekjuaukningar eiginkonu forsætisráðherrans. Þær takmörkuðu upplýsingar sem forsætisráðherra hefur gefið fjölmiðlum, þingmönnum og þjóðinni allri um málið, þeir vinklar sem hann sér á málinu, greinileg meðvitund á öllum stigum málsins og vangaveltur um hvort rétt væri að greina einhverjum frá þessari stöðu sinni, sýna fram á nokkuð sem kalla mætti innri siðferðisbaráttu.

Forsætisráðherra virðist telja að í þessari stöðu sé nóg að vísa til erfiðrar stöðu þeirra hjóna og að þau hafi sætt óeðlilegri gagnrýni og séu jafnvel fórnarlömb öfgafullrar umræðu. Þjóðin á að treysta því að Sigmundur hafi alltaf tekið ákvarðanir samkvæmt bestu samvisku hvað varðar hagsmuni þjóðar sinnar og það hefði oftar en ekki bitnað á hagsmunum eiginkonu hans. Er hægt að sýna fram á þetta með einhverju sem hefur annars konar upplýsingargildi en orð og útskýringar eða einhverju sem mætti jafnvel kalla sönnunargögn?

Staðreyndin er sú, að þrátt fyrir að ekki sé ólöglegt að eiga félög á aflandssvæðum, sbr. IV. kafli laga um tekjuskatt, er lágmarkskrafa að forsætisráðherra sjái sóma sinn í því að hnýta lausa enda „Jómfrúarmálsins“ á meðan hann gegnir enn embætti.  
Ljósmynd eftir Håkon Broder Lund.