Síðasti danski lögfræðingurinn

eftir Bergþór Bergsson

„Með lögum skal land vort byggja, en [eigi] með ólögum eyða,“mælti Njáll á Bergþórshvoli langt aftur í forneskju. Í dag tengja flestir þau orð við íslenska lögreglumerkið, þar sem fyrri hluti þeirra stendur hástöfum. MEÐ LÖGUM SKAL LAND BYGGJA. Tilvísun í menningarsögu þjóðarinnar og mikilvægi lögskipunar. Vegna staðsetningarinnar fylgir þeim þó blær valdbeitingar. Við öskrum í hástöfum. Við framfylgjum lögum í hástöfum.

En það eru ekki lögin ein sem skipta máli. Eftir setningu þeirra þarf að túlka þau og framfylgja. Ef lögin byggja landið, þá var landið, í den tíð, byggt af Dönum. Þar til að Lagaskólinn var stofnaður hér  árið 1909, þegar lögin og túlkun þeirra fóru að taka betur mið af íslenskum aðstæðum. Um árabil höfðu ungir menn þurft að halda til Kaupmannahafnar ef þeir vildu læra lögfræði. Þvi enginn lagaskóli var á landinu. Þar lærðu þeir ekki íslensk lög, og gildandi rétt hér á landi, heldur dönsk lög. Gerði þetta það að verkum að oft var mjög óljóst hvaða lög giltu í reynd. Í þessu greinarkorni verður mjög lauslega farið yfir aðdraganda og stofnun Lagaskólans árið 1909, sem síðar varð lagadeild Háskóla Íslands.

Lögmenn frá Kaupmannahöfn

Hafnarskóli var stofnaður 1497, en talið er að fyrsti Íslendingurinn til að ljúka þaðan prófi hafi verið Jón lögmaður Sigurðsson, en hann gekk í skólann árið 1592 eða 1593. Lagadeild Hafnarháskóla hins vegar var ekki stofnuð fyrr en 1736. Gerðist það að nokkru leyti í kjölfar Kaupmannahafnarbrunans 1728, en bruninn eyðilagði flestar byggingar háskólans og u.þ.b. 28% borgarinnar á þeim tíma. Ráðist var í gagngera endurskoðun á högum skólans í kjölfarið, en ný stofnskrá var sett á og sagði þar að lagadeild skyldi stofnuð við skólann. Í kjölfarið gat enginn lögmaður starfað í Danmörku nema vera með próf frá lagadeildinni, og átti það að mestu leiti við á Íslandi einnig.               

Íslendingar fóru því að sækja Hafnarskóla til að læra á lögfræði, en frá skólanum var hægt að útskrifast með tvenns konar próf, annars vegar með danskt lagapróf, sem veitti  starfstitilinn examanati juris og hins vegar hið fullkomna lagapróf er veitti titilinn candidati juris. Ástæða þess að tvö próf voru fyrir hendi var að öllu erfiðara var að þreyta hið fullkomna lagapróf og ýmis embætti voru fyrir hendi sem kröfðust þekkingar í lögum, en voru tekjulág og því óttuðust menn að erfitt yrði að ráða í þær stöður, ef krafa yrði gerðum hið fullkomna lagapróf. Íslendingar er luku umræddu lagaprófi voru 138 talsins, en sá síðasti var Jón Emil Ólafsson og var það 1924. Jón Emil útskrifaðist eftir að Lagadeild Háskóla Íslands var stofnuð, en það þurfti að setja lög til þess að hann gæti fengið full lögmannsréttindi, en lögum samkvæmt gátu það aðeins þeir sem útskrifaðst höfðu frá Háskóla Íslands.

Þó að heimildum beri saman um að lagakennsla við Hafnarskóla hafi mestmegnis verið góð, voru þar aðeins kennd dönsk lög. Olli þetta miklum vandkvæðum þegar að lögspekingarnir komu heim til Íslands og þekktu ekki löggjöf landsins, enda enga kennslu fengið í þeim efnum. Það var aðeins fyrir framtakssemi þessara manna sjálfra að þeir gátu menntað sig í íslenskum lögum. Annað sem orkaði tvímælis var að endurskoðun hafði ekki farið fram á íslenskum lögum, líkt og í Noregi og í Danmörku, með norsku og dönsku lögum. Til stóð að setja Íslendingum nýja lögbók, en á meðan beðið var eftir henni, skyldi málsmeðferð fara eftir norsku lögum, sbr. erindisbréf frá 1718. Umrædd lögbók varð hins vegar aldrei að veruleika. Þingmál á Íslandi átti að vera íslenska, en danska hafði tekið að læðast þar inn og ljóst er að erfitt var að ráða fram úr því hvað teldist til gildandi réttar, Raddir voru uppi um að stofna deild er kenndi íslensk lög innan Hafnarskóla, en aldrei varð neitt af slíku.  

Sjálfstæðisbaráttan og baráttan fyrir íslenskri lagakennslu

Alþingi Íslendinga, sem stofnað var 930, var lagt af fyrir tilstilli Danakonungs árið 1800. Það var með tilskipun frá 8. mars 1843 endurreist sem ráðgjafarþing, en fyrsta ráðgjafarþingið fór fram 1845. Á þessu fyrsta ráðgjafarþingi bar Jón Sigurðsson upp tillögu þess efnis að konungi yrði send bænaskrá, þar sem beðist var að að stofnaður yrði þjóðskóli hér á landi, sem kenndi m.a. lögfræði. Tillagan hafði borist honum frá nemendum í Kaupmannahöfn. Slíkt varð þó ekki samþykkt á því ráðgjafarþingi. Hins vegar var sambærileg bænaskrá samþykkt á ráðgjafarþingingu 1855 og í kjölfarið á öllum ráðgjafarþingum allt til ársins 1873, en í heildina voru tíu bænaskrár, er vörðuðu stofnsetningu lagaskóla á Íslandi samþykktar á ráðgjafarþingum.

Þóttu þessar beiðnir ekki merkilegar, en konungur og konungsmenn töldu að Íslendingum væri ekki treystandi fyrir því að reka eigin lagaskóla, hvorki væru fyrir hendi nægilega færir kennarar sem og þetta myndi leiða til mikillar afturfarar í lagaþekkingu Íslendinga. Íslendingar hins vegar héldu ótrauðir áfram og var fyrsta frumvarpið um stofnun háskóla hér á landi borið upp árið 1875. Árið eftir að Alþingi varð löggjafarþing á nýjan leik. Frumvarp um stofnun lagaskóla var þó ekki samþykkt fyrr en 1903 þegar Jón Magnússon, síðar forsætisráðherra, bar upp frumvarp um stofnun Lagaskóla sem var samþykkt og undirritað af konungi í kjölfarið.

Lagaskólinn tók til starfa 1. október 1908, en tveir kennarar voru ráðnir við skólann, Einar Arnórsson og Lárus H. Bjarnason og voru átta nemendur innritaðir fyrsta starfsárið, en skólinn var til húsa í Þingholtsstræti 28. Lagaskólinn útskrifaði þó aldrei nemanda, því hann sameinaðist stuttu síðar Háskóla Íslands sem stofnsettur var þann 17. Júní 1911. Varð Lagaskólinn því að Lagadeild Háskóla Íslands, en Háskóli Íslands var sín fyrstu starfsár í Alþingishúsinu við Austurvöll.

Lagakennsla í dag

Mikið vatn hefur runnið til sjávar frá því að Lagaskólinn tók til starfa 1908. Nemendur á fyrsta starfsári lagaskólans voru líkt og áður sagði átta talsins, en þeir voru 17 á fyrsta starfsári lagadeildarinnar, sem hluta Háskóla Íslands. Fyrsti útskriftarárgangurinn taldi fjóra einstaklinga, sem úrskrifuðust með embættispróf í lögum 1912.  Í dag er lögfræði kennd í fjórum skólum á Íslandi. Í Háskóla Íslands, líkt og áður, en jafnframt í Háskólanum í Reykjavík, Háskólanum á Akureyri og Háskólanum á Bifröst. Á árunum 2007 til 2013 útskrifuðust tæplega þúsund einstaklingar með meistaragráðu í lögfræði úr þessum fjórum skólnum, en flestir voru þeir 179 árið 2010. Ljóst er því að lögfræði hefur vaxið og dafnað mjög sem fræðigrein hér á landi og nýtur talsverðar aðsóknar nemenda, en aðsóknin er slík að Lagadeild Háskóla Íslands hefur t.a.m. brugðist við með því að láta nemendur þreyta inntökupróf.

Samhliða fjölgun nemenda hefur atvinnuleysi í greininni aukist talsvert, en atvinnuleysi meðal lögfræðinga virðist vera að aukast. Landslagið hefur tekið miklum breytingum frá því sem það eitt sinn var.

Íslendingar urðu fyrst lögmenn í Hafnarháskóla. Framtíðin var þeirra sem fóru í það nám. Í dag halda margir að staðan sé söm. Þakíbúð í Skuggahverfinu, sérsniðin jakkaföt og gluggalaus skrifstofa bíði lögmannsins. Það er ekki svo.  Ef fram fer sem horfir, þá mun ég einn dag, dæla á bílinn þinn við N1 við Hringbraut, og kannski útskýra fyrir þér að eitt sinn var þungaskattur á bifreiðum, meðan ég er að því.

_________

Páll Líndal. „Stutt samantekt um lagastörf Íslendinga á fyrri tíð, lagafræðslu og aðdraganda að skipulegu laganámi.“ Úlfljótur, 3-4.tbl. 1983 bls. 115-131.

Davíð Þór Björgvinsson. „Laganám Íslendinga 1736-1983.“ Úlfljótur 3-4.tbl. 1983 bls. 133-149

Gísli Sveinsson: „Laganám Íslendinga í Danmörku og upphaf lögfræðikennslu á Íslandi.“ Tímarit lögfræðinga. 2.tbl. 1957 bls. 49-64

Bergþór Bergsson

Pistlahöfundur

Bergþór er laganemi við Kaupmannahafnarháskóla. Hann kemur frá Pétursey í Mýrdalshreppi og situr í stjórnskipunar- og eftirlitsnefnd Sjálfstæðisflokksins. Bergþór er áhugamaður um sögu, íslenskt samfélag í tímans rás, tísku, tónlist, kvikmyndir og matargerð.