Setjum ekki ferðaþjónustunni stólinn fyrir dyrnar

eftir Mikael Rafn Línberg Steingrímsson

Þó að móti blási byr,
Bætist oftast skaðinn,
Ef að lokast einar dyr,
opnast tvær í staðinn.

Þetta ljóð eftir móðurbróðir minn heitinn, Kristján Þór Línberg Runólfsson á einstaklega vel við þessa stundina. Eins og ófáir hafa tekið eftir herjar á alþjóð veirudjöfull með tilheyrandi efnahagslegum afleiðingum. Þó svo að það nú líti út fyrir það að búið sé að snúa við blaðinu og jákvæðar horfur séu víða í hagkerfinu gætu það einungis verið hillingar í ferðamannaeyðimörkinni Íslandi. Atvinnuleysi er þegar mikið og hafa hópuppsagnir verið tíðar í tímum faraldursins, þá sérstaklega hjá fyrirtækjum sem reiða sig á ferðamenn. Uppsagnarfrestur þessa aðila rennur út eftir sumarið og virðist svo vera að íslendingar ætli að halda neyslu veislu á þessum tíma. Hagkerfið gæti farið í enn meira uppnám ef þeir aðilar sem nú vinna sinn uppsagnarfrest verða ekki endurráðnir í kjölfar aukningu ferðamanna. Veiran hefur að minnsta kosti kennt okkur eitt, sem var reyndar löngu vitað, hún hefur sýnt okkur íslendingum það svart á hvítu hve mikilvæg ferðaþjónustan er fyrir íslenska hagkerfið.

Svo virðist sem íslendingar ætla að nýta tækifærið og snúa vörn í sókn. Bókstaflega. Markaðsverkefni fyrir íslenska ferðaþjónustu: Ísland – saman í sókn er í pípunum og virðist vera að ferðamenn hafi mikinn áhuga á Íslandi eftir athyglina sem landið hefur fengið, meðal annars eftir vel heppnaða tæklingu þríeykisins á kórónaveirunni. Einnig er óljóst hvenær önnur vinsæl ferðamannalönd opna landamæri sín og gæti það farið svo að Ísland verði eitt af fáum valkostum ferðalanga í heiminum þetta árið. Oft er talað um hina svo kölluðu ferðamannabúbblu, eins og ferðamenn skyndilega ákveði að hætta að koma til Íslands. Um tvær milljónir ferðamanna heimsækja Ísland á ári hverju sem virðist mikið, en samanborið við stærstu ferðamannalönd heims eru þetta fáir ferðamenn. Ferðaþjónustan mun ná endurheimt, hvort sem það verður á þessu ári eða eftir tíu ár.

Það er því mesta furða að stjórnvöld skuli ekki leggja meiri áherslu á viðhald ferðamannasvæða og vegakerfisins til þess að undirbúa landið fyrir ferðamennina sem þau berjast svo mikið fyrir að fá hingað til lands. Samtök Iðnaðarins greindu frá árið 2017 að uppsöfnuð fjárfestingþörf innviða er um 372 milljarðar króna, og þar af er þörfin hvað mest fyrir fjárfestingu í vegakerfinu. Fari það svo að stjórnvöld haldi áfram að hvetja ferðamenn hingað til lands en gleyma að auka framboðsgetu landsins með innviðafjárfestingum og boðið verður hér upp á ferðamannastaði sem eru að grotna niður og handónýtt bundið slitlag fer ferðaþjónustan í hund og kött til lengri tíma litið. Pólitískur vilji fyrir því að náttúruperlur, ferðamannastaðir og vegir geta verið í eigu og umsjón einkaaðila er ekki fyrir hendi og verða stjórnvöld þessvegna að sjá sóma sinn í því að viðhalda þessum ferðamannastöðum og vegum sem þangað liggja ef hér á að reka sjálfbæra ferðaþjónustu sem endast á um ókomna tíð.

Því spyr ég, Hví ekki að nýta tiltækt vinnuafl, góð vaxtakjör og næðið sem við höfum frá ferðamönnum þessa stundina í það að byggja hér upp betra ferðamannaland til framtíðar?

Það kann að vera að svar margra við þessari spurningu sé það að tekjur ríkissjóðs hafa dregist saman verulega vegna faraldursins síðastliðna mánuði og útgjöld aukist á móti, og óheppilegt væri að ráðast í slíkar fjárfestingar eins og er. Staðreyndin er hinsvegar sú að fjárfestingar í innviðum hafa dregist á langinn í gegnum heilt góðæristímabil og raunar hafa árlegar vegafjárfestingar hins opinbera farið minnkandi frá hruni. Halli ríkissjóðs eitt árið er lélegur mælikvarði á stórar efnahagsaðgerðir. Fjárfestingar í vegakerfinu og ferðamannastöðum eru fjárfestingar til margra tugi ára. Þegar lokast einar dyr skulum við opna tvær í staðinn, nauðsynlegar innviðafjárfestingar eru einar og sér arðbærar og í þokkabót stuðla þær að aukinni sjálfbærni og skilvirkni í ferðaþjónustu. Réttast væri að nýta tækifærið núna, hvort sem það er hrein opinber fjárfesting í innviðum, samvinnuverkefni ríkis og einkaaðila eða aukin umræða um fjölbreyttari möguleika í fjármögnun fjárfestinga í innviðum.

Mikael Rafn Línberg Steingrímsson

Pistlahöfundur

Mikael Rafn er nemi í hagfræði við Háskóla Íslands og er stúdent úr Menntaskólanum við Sund. Hann er formaður Viljans, félags ungra sjálfstæðismanna í Mosfellsbæ og er varaformaður lýðræðis- og manréttindanefndar Mosfellsbæjar. Mikael hefur áhuga á bandarískum íþróttum og atferlishagfræði. Skrif Mikaels í Rómi beinast helst að hagfræðilegum málefnum.