Sérhagsmunir við stjórnarmyndun

eftir Ritstjórn

Niðurstöður Alþingiskosninga ættu að vera öllum frjálslyndum gleðiefni. Sjálfstæðisflokkurinn sem getur að einhverju leyti kallast frjálslyndur fékk betri kosningu heldur en flestir þorðu að vona. Í ofanálag fékk Viðreisn, hinn frjálslyndi mið-hægri flokkur sjö þingmenn kjörna og Björt framtíð, hinn frjálslyndi mið-vinstri flokkur fékk fjóra.

Fyrrnefndir flokkar geta því myndað ríkisstjórn með eins manns meirihluta. Það yrði ein frjálslyndasta ríkisstjórn í sögu lýðveldisins ef ekki sú allra frjálslyndasta. Jafnvel þó svo hún starfaði með nauman meirihluta þyrfti það ekki endilega að þýða að hún yrði veikari en aðrar. Þingstyrkur er nefnilega ekki eini mælikvarðinn á styrk ríkisstjórnar heldur einnig hversu vel hún nær saman og hversu líkleg hún sé að leysa mál með farsælum hætti.

Síðustu tvær ríkisstjórnir hafa haft töluverðan þingstyrk eftir kosningar en ríkisstjórn Sjálfstæðisflokks og Framsóknar hafði 38 þingmenn og ríkisstjórn Jóhönnu Sigurðardóttur kom úr þingkosningum með 34 þingmenn. Afdrif þeirra þarf ekki að tíunda en Sjálfstæðisflokkur og Framsókn hröktust frá völdum í kjölfar þúsundasta spillingarmálsins og ríkisstjórn Jóhönnu dagaði uppi sem minnihlutastjórn sem engu kom í gegn.

Til þess að mynda sterka ríkisstjórn þarf hæft fólk sem er á sömu blaðsíðu um ákveðin markmið og leiðirnar að þeim. Þessir þrír flokkar hafa alla burði til þess að mynda slíka stjórn og flokkarnir myndu sennilega draga það besta út úr hinum. Þrennt virðist þó vinna gegn myndun frjálslyndisstjórnar.

  1. Einstrengingsháttur Sjálfstæðisflokksins þegar kemur að peningastefnunni og atkvæðagreiðslu um Evrópusambandið. Ljóst er að Viðreisn og Björt Framtíð er mjög í mun um að skipta út krónunni fyrir nýjan og stöðugri gjaldmiðil. Það er fyrst og fremst ástæðan fyrir vilja flokkanna til þess að ganga í ESB. Bjarni Benediktsson hefur þó verið býsna vilhallur undir krónuna á síðustu tveimur árum og þar með púkkað upp á forhertustu íhaldsöflin innan Sjálfstæðisflokksins. Nú sækja að honum íhaldsöfl úr öllum áttum og krefjast samstarfs við Vinstri Græna til þess að koma í veg fyrir möguleikann um atkvæðagreiðslu um Evrópusambandið.
  2. Sérhagsmunir Benedikts Jóhannessonar, formanns Viðreisnar. Það er afar kaldhæðnislegt að eftir að Viðreisn keyrði kosningabaráttu sína undir slagorðinu Almannahagsmunir framar sérhagsmunum sé það helsta keppikefli formannsins að fá sjálfur embætti forsætisráðherra. Ef flokkurinn hefur ekki dýpri hugmyndafræðilegri rætur en svo að valdapólitík um embætti er allt það sem hann leggur til málanna hlýtur fólk að velta fyrir sér hvers vegna Benedikt þurfti að kljúfa sig út úr Sjálfstæðisflokknum.
  3. Gamaldags pólitík Bjartrar Framtíðar. Björt Framtíð segist vera stofnuð til höfuðs gamaldags átakapólitík. Í staðinn hefur flokkurinn lagt til samræðupólitík, en í henni ætti að felast aukin áhersla á samræður við minnihlutann til þess að ná málum í gegn. Nú virðist þó komið annað hljóð í kútinn en Óttarr Proppé er farinn að telja hausa og lýsa því yfir að hann sé ekki spenntur fyrir svo þröngum meirihluta. Ef menn vilja alvöru samræðupólitík, iðkaða í sátt við minnihlutann, er þá ekki fín byrjun að vera í naumum meirihluta og eiga þar af leiðandi erfiðara með að keyra mál í gegn þvert á vilja minnihlutans?

Því miður, sökum fyrrnefndra atriða, virðist nú allt stefna í afar einkennilega stjórnartíð flokka sem eru ósammála um markmið og aðferðafræði í nær öllum málum, stjórn Sjálfstæðisflokks og Vinstri Grænna. Það er þó glufa um að mynda hér á landi alvöru frjálslyndisstjórn. Til þess að svo megi verða þurfa Sjálstæðisflokkurinn, Viðreisn og Björt Framtíð að setja egóin til hliðar. Verði það gegn er von um að hægt verði að ná í gegn alvöru kerfisbreytingum.

Málefnalega er nefnilega mjög lítill ágreiningur. Í þeirra stærsta deilumáli, peningastefnunni, er ekki einu sinni langt svo langt á milli og auðvelt ætti að vera að miðla málum. Eftir allt þá stendur í ályktun síðasta landsfundar Sjálfstæðisflokksins: „Íslenska krónan í höftum getur ekki verið framtíðargjaldmiðill þjóðarinnar ef Íslendingar vilja eiga þess kost að taka átt í alþjóðlegri samkeppni. Kanna skal til þrautar upptöku myntar sem gjaldgeng er í alþjóðaviðskiptum í stað íslensku krónunnar og gefa landsmönnum og fyrirtækjum frelsi til að ákveða hvaða gjaldmiðill hentar þeim best.

Ritstjórn

Ritstjórn

Ritstjórn Róms skipa Björn Már Ólafsson, Ísak Rúnarsson, Tryggvi Másson, Erla María Tölgyes, Jónína Sigurðardóttir og Oddur Þórðarson.