Saumað fyrir sálina

eftir Albert Guðmundsson

Ég hef alltaf átt erfitt með það að biðja um hjálp. Þegar vandamál birtast mér, sama hversu stór eða smá þau eru, hef ég tilhneigingu til að líta á þau sem minn prívat bagga að bera og reyni eftir fremsta megni að íþyngja ekki öðrum með þeim. Jafnvel þegar ég þreyti próf og á í erfiðleikum, þá dettur mér ekki í hug að leita leiðsagnar hjá kennurum mínum, jafnvel þótt það sé þeirra launaða starf. Ég vil bara leysa mín dæmi sjálfur. Þó að það sé í sjálfu sér af hinu góða þá viðurkenni ég fúslega að þessi þrjóska í mér er stundum hálf fáránleg. Mér finnst þó líklegt að ég deili þessari áráttu með öðrum.

Þegar það kemur hins vegar að því að ég slasa mig, fæ djúpan skurð eða brýt í mér bein, þá nær þrjóskan blessunarlega ekki svo langt að ég reyni að lækna mig sjálfur. Ég veit að ég verð sækja mér aðstoð og leita þá til heilsugæslunnar eða í versta falli upp á slysó. Við erum öll meðvituð um það að við líkamlegum kvillum þurfum við aðstoð heilbrigðisstarfsmanna og við vitum hvert við eigum að leita. Ekki eru þó öll sár sýnileg. Heilsa er auðvitað ekki aðeins líkamleg, heldur einnig andleg. Sálræn veikindi eru ein stærsta lýðheilsuógn sem steðjar að íslensku samfélagi, þá sérstaklega ungu fólki. Stór hópur ungs fólks glímir við geðræn vandamál í einhverri þeirra mörgu birtingarmynda sem þau koma fram í og eins og staðan er í dag þá eru sjálfsvíg algengasta dánarörsök karla á mínum aldri. Það er sérstaklega sorglegt ef hugsað er til þess að oft getur jafn einföld lausn og að ræða við óháðan einstakling um vanlíðanina komið í veg fyrir þá hörmung að einhver taki sitt eigið líf.

Umræðan um geðheilbrigðismál hefur lengi verið feimnismál, sérstaklega hjá ungum körlum. Þeir eiga oft erfiðara með að tala um tilfinningar sínar og sjá vanlíðan oft sem sitt einkamál sem ekki þarf að íþyngja öðrum með. Mikil hugarfarsbreyting hefur þó orðið á því á síðustu árum og má þakka átaksverkefnum líkt og Útmeð’a en þó er enn langt í land í geðheilbrigðismálum á Íslandi. Því þó umræðan hafi eflst þá þarf að fylgja orðum eftir með aðgerðum. Staðreyndin er sú að lítið aðgengi er að sálfræðiaðstoð fyrir ungt fólk og þeir sem vilja sækja sér aðstoð vita jafnvel ekki hvert þeir eiga að leita. Mikill kostnaður getur svo fylgt sálfræðitímum og ungmenni eiga erfitt með að óska milliliðalaust eftir slíkri þjónustu.

Á sameiginlegum fundi með borgarstjórn Reykjavíkur og Reykjavíkurráði ungmenna á dögunum var lögð fram skýr krafa af ungmennum um bætt aðgengi að sálfræðiaðstoð innan skólanna og á heilsugæslum borgarinnar. Tillagan sem flutt var af Kára Arnarssyni fékk góðar undirtektir og vona ég að borgarstjórn fylgi henni fast eftir.

Að grípa gæsina þegar hún gefst

Heilbrigðisráðherra, Kristján Þór Júlíusson, boðaði undir lok síðustu viku endurbætur á heilsugæslustöðvum höfuðborgarsvæðisins. Markmiðið með breytingunum er að skapa jákvæða hvata fyrir heilsugæsluna, auka samkeppni milli einstakra stöðva og færa þjónustuna nær hverjum og einum sem þangað leita. Jafnframt verður valfrelsi einstaklinga aukið í þessu samhengi.

Sjúkratryggingum Íslands hefur nú þegar verið falið að auglýsa eftir rekstraraðilum að þremur nýjum heilsugæslustöðvum. Því má velta fyrir sér hvort ekki væri ráð fyrir hina nýju rekstraraðila að fella sálfræðiaðstoð inn í þjónustu sína með tryggum hætti. Umræðan um sálræn veikindi hefur leitt í ljós að eftirspurn er eftir slíkri þjónustu. Gangi fyrirætlan heilbrigðisráðherra síðan eftir, er líklegt að aukið hagræði skapi svigrúm og hvata fyrir fleiri heilsugæslustöðvar til að taka upp sálfræðiaðstoð. Því er um að gera að nýta tækifærið þegar gömlu og lúnu heilsugæslukerfi er bylt, grípa gæsina þegar hún gefst og færa sálfræðiþjónustu nær þeim sem hana þurfa.

Við erum öll sammála um það að hér á landi viljum við hafa sterkt heilbrigðiskerfi og tryggja lýðheilsu þjóðarinnar. En við megum ekki gleyma okkur í deilum um krónur og aura því að heilbrigði er auðvitað ekki einungis tryggt inni á spítölum. Í baráttunni fyrir andlegri og líkamlegri heilsu ungs fólks er þörf á samheldnu átaki ríkis og sveitafélaga. Við þurfum að halda á lofti opinni umræðu, beita forvörnum í skólum og grípa tækifærin þegar þau bjóðast, svo taka megi á vandanum áður en hann verður að hörmung. Fyrst og fremst verðum við að sýna viðleitni til að tryggja að hægt sé að bjóða upp á þá þjónustu sem óskað er eftir, að kallinu sé svarað þegar það kemur. Því það er ekki alltaf auðvelt að biðja um hjálp.

Ljósmynd eftir Håkon Broder Lund.

Albert Guðmundsson

Pistlahöfundur

Albert Guðmundsson er laganemi við Háskóla Íslands og fyrrverandi formaður Heimdallar, félags ungra sjálfstæðismanna í Reykjavík. Albert starfar sem flugfreyja hjá Icelandair og er fyrsti varaþingmaður Sjálfstæðisflokksins í Reykjavíkurkjördæmi norður. Hann hefur einnig setið í stjórn Vöku fls. og Stúdentaráði. Helstu áhugamál hans eru stjórnmál og lögfræði.