Sandkorn á valdavog heimsins

eftir Birkir Grétarsson

Ríki heimsins eiga í stöðugum og fjölbreyttum samskiptum hvert við annað, samtali sem teygir anga sína yfir víðan völl. Hvort sem þessi samtöl séu af pólitískum, félagslegum, efnahagslegum eða hernaðarlegum toga munu þau koma til með að móta ásýnd ríkjanna út á við og hafa áhrif á hegðun þeirra í garð hvers annars. 

Ísland er tiltölulega ungt land með stutta sögu af alþjóðasamskiptum. Íslendingar fengu formlega forræði yfir utanríkismálum árið 1918 en framkvæmd þeirra var þó áfram í höndum Dana, allt til ársins 1940, þegar Íslendingar tóku utanríkismál alfarið í eigin hendur. Síðan þá hefur mikið vatn runnið til sjávar. Auk þess að hafa gengið í Sameinuðu þjóðirnar og tekið þátt í stofnun NATO, er Ísland aðili að hinum ýmsu alþjóðastofnunum. Þar nýtir Ísland rödd sína og fulltrúar þjóðarinnar koma stefnumálum og áherslum Íslands á framfæri.

Samkvæmt stefnuyfirlýsingu ríkisstjórnarinnar eru grunnstoðir utanríkisstefnu Íslands; samstarf vestrænna ríkja, evrópskt og norrænt samstarf, aðild að Sameinuðu þjóðunum, varnarsamningur auk friðar og öryggissamstarfs Atlandshafsbandalagsins. Þá er lögð sérstök áhersla á sjálfbæra nýtingu auðlinda, samstarf á norðurslóðum, aukið viðskiptafrelsi og alþjóðlega samvinnu á sviði öryggis- og þróunarmála.

Álit umheimsins á Íslandi er þó ekki einungis sniðið af stjórnvöldum heldur geta ríki einnig átt óformleg samskipti án þess að kjörnir fulltrúar og embættismenn eigi í hlut. Ásýnd Íslands getur litast af fjölmiðlaumfjöllun á erlendri grundu, af upplifun og sögum erlendra ferðalanga sem heimsækja landið í milljónatali árlega, eða annara óhefðbundna leiða á borð við íþróttaviðburði líkt og pistill Björns Más úr síðustu viku getur um. Þrátt fyrir ópólitískt eðli slíkra viðburða geta þeir þó smitað út frá sér og haft áhrif á ímynd landsins á alþjóðlegum vettvangi.

Ef utanríkisstefna ríkja á að skila settum árangri skiptir öllu máli að um hana ríki almenn sátt meðal þjóðarinnar. Utanríkisstefnan þarf að vera vel undirbúin og skipulögð til að hún geti aðlagast stjórnmálaumhverfinu og skilað árangri. Á það bæði við gerð hennar og framkvæmd. Til lengri tíma litið þá skila vel skilgreind markmið og skýr stefna betri árangri. Slíkt á sérstaklega við þegar um smáríki á borð við Ísland er að ræða. Þrátt fyrir að vega sem sandkorn á valdavog heimsins hefur Ísland margsinnis tekist að setja mark sitt á umheiminn. Þessi árangur er ekki þökk sé heppni, og hann vannst heldur ekki þegjandi og hljóðalaust. Hann kemur til vegna þess að Ísland hefur ávalt haft vel skilgreinda stefnu sem endurspeglar gildi þjóðarinnar út á við til umheimsins.

Sá eiginleiki hefur sjaldan skipt meira máli en núna þegar að stórveldin bæra á sér og valdajafnvægi heimsins tekur að rugga. Bylgja falsfrétta, lýðhyggju og þjóðernisgremju skekur vesturlöndin, Kína færir sig upp á skaftið sem heimsveldi, einræðisherrar skjóta upp kollinum og úr því verða áhugaverð bandalög, svo sem milli Tyrkja og Rússa. Á alþjóðavettvangi virðist ákveðið bakslag vera að eiga sér stað. Frjálslynd sjónarmið hverfa fyrir ritskoðun og stjórnlyndi. Áróðursmiðlar dæla út eitri í umræðuna og pólitískir fangar 21. aldarinnar eru ekki lengur andfélagslegir uppreisnarseggir og anarkistar heldur blaðamenn og kennarar. 

Það ber að hafa í huga að þrátt fyrir ólgu í stjórnmálunum hér heima fyrir og erlendis er mikilvægt að Ísland viðhaldi traustum alþjóðatengslum og að Ísland verði áfram ákjósanlegur samstarfsaðili gagnvart umheiminum. Sjaldan hefur það verið mikilvægara að Ísland boði auðkenni sín; frjálslyndi, jafnrétti, samstöðu, virðingu gagnvart ólíkum skoðunum og frelsi annarra auk virðingu gagnvart náttúrunni. Þannig getum við haldið áfram að vera fyrirmyndarþjóð meðal þjóða og vonandi haldið áfram að hafa áhrif í umheiminn, sem fer sífellt minnkandi með aukinni tækniþróun, tengingu og tilfallandi flækjustigi.

Birkir Grétarsson

Pistlahöfundur

Birkir er Stjórnmálafræðinemi við Háskóla Íslands. Hann er aðkomumaður í Reykjavík af Suðurlandinu. Birkir hefur gaman af fólki, ferðalöngum og diplómasíu. Samneyti fólks, sátt og samlyndi eru Birki ofarlega í huga en skrif hans fyrir Róm munu að mestu snúast um samfélagslegar vangaveltur líðandi stundar.