Samsæriskenning allra samsæriskenninga

eftir Björn Már Ólafsson

Hver í ósköpunum er Elena Ferrante, höfundur hinna æði vinsælu vinkvennabókanna? Bækurnar um vinkonurnar Lenù og Lilu og uppvaxtarár þeirra í Napoli hafa farið sigurför um heiminn en höfundurinn skrifar undir dulnefni. Hvergi hefur það verið tilkynnt opinberlega um það hver höfundur bókanna er í raun og veru.

Bækurnar voru ekki fyrr orðnar vinsælar áður en bæði lesendur og fjölmiðlar fóru að leita ljósandi logum að höfundinum. Hann skyldi nafngreindur sama hvað. Blaðamenn á Ítalíu hófu leitina fyrst í Napoli enda eru lýsingar höfundar á borginni óaðfinnanlegar. Hvernig gæti einhver annar en innfæddur Napolíbúi lýst ítökum og áhrifum mafíunnar á fátæklegt samfélag eftirstríðsáranna? Blaðamenn rýndu í ársreikninga og skattframtöl einstaklinga og fljótlega fundu þeir einstaklinga sem komu til greina sem höfundur bókanna. En engin staðfesting fékkst.

Einhverjir hafa einnig velt upp þeim möguleika að viðkomandi sé alls ekki frá Napoli. Það má vel vera. Þótt bókin sé sagnfræðilega rétt og innri og ytri tími sögunnar gangi fullkomlega upp þá er það ekki óhugsandi að höfundurinn hafi einfaldlega lagst í mikla undirbúningsvinnu. Stórir hlutar Napoliborgar hafa ekki tekið miklum breytingum áratugum saman. Þá hefur borgin yfir sér svo goðsagnakenndan blæ að lýsingar á henni ná alla leið til Íslands. Napoli er oft getið bæði í gömlum íslenskum dægurlögum og í bókum. Íslenskir sjómenn sigldu til borgarinnar hér áður fyrr og Eimskipafélagið keypti á eftirstríðsárunum togara frá flutningaskipaveldi Achille Lauros, sem var borgarstjóri í Napoli og oft sakaður um vafasöm tengsl við mafíuna í Napoli. Höfundur bókarinnar gæti vel verið annars staðar frá en Napoli, og kannski er hann alls ekki ítalskur.

Dulúðin í landi hálfsannleikans

Það er vel við hæfi að saga sem gerist í Napoli sé sveipuð allri þessari dulúð og samsæriskenningum um uppruna höfundar. Ítalía er að mörgu leyti land hálfsannleikans og saga mafíunnar og spillingar teygir anga sína langt aftur í tímann. Vilja margir meina að uppruna mafíunnar megi rekja til fátæktar og spillingar á tíma Konungsríkis hinna tveggja Sikileyja. Höfuðstöðvar þess konungsríkis voru einmitt í Napoli. Hefur spillingin og mafíustarfsemin á svæðinu orðið til þess að hugtakið „dietrologia” hefur verið notað til að lýsa eðli íbúa svæðisins. Bein þýðing á orðinu er „samsæri” en orðið á sér mun dýpri rætur í samfélaginu í dag.

Enn önnur kenningin er að höfundurinn sé alls ekki kona. Í viðtali hefur höfundurinn haldið því fram að hún sé vissulega kona en það þarf auðvitað ekki að vera satt. Það að höfundurinn sé karlmaður þykir langsóttasta kenningin enda lýsir höfundurinn einstakri vináttu Lenù og Lilu með afskaplega ástríðufullum og nákvæmum hætti. Erfitt er að ímynda sér að hann hafi ekki einhvern tímann verið lítil saklaus stúlka í þessari hörðu borg sem Napoli er. Gefum okkur í smá stund að höfundurinn sé karlmaður. Hvers konar innsæi þarf hann að hafa til að lýsa ógeðfelldum en nákvæmum kynlífsreynslum ungra stelpna? Fólk trúir því einfaldlega ekki að höfundurinn sé karlmaður.

Í vikunni hélt Bókasafn Seltjarnarness bókmenntakvöld þar sem áhugasamir lesendur gátu hlustað á Brynju Cortes Andrésdóttur lesa valda kafla úr bókinni og að lokum tóku við fjörugar samræður um bókina. Umræðan um höfundin var eðlilega fyrirferðamest.

Dulúðin yfir höfundinum vekur nefnilega upp grundvallarspurningu í bókmenntafræði. Skiptir máli hver höfundurinn er? Er hægt að gera kröfu um að höfundur slíkra bóka sé gerður að opinberri persónu? Elena Ferrante hefur sjálf(ur?) sagt í viðtölum: „Fullskapað verk þarfnast ekki höfundar.” Svo mörg voru þau orð og ekki er hægt að sjá annað en að dulúð höfundarins hjálpi til við að auka vinsældir bókanna til muna. Ég vil helst ekki vita hver höfundurinn er í raun og veru, svo að í mínum huga verður höfundurinn áfram asískur karlmaður á sjötugsaldri sem hefur aldrei stigið fæti á Ítalíu.

Björn Már Ólafsson

Ritstjórn

Björn Már er lögfræðingur sem býr og starfar í Danmörku. Hann hefur áður starfað sem blaðamaður á Morgunblaðinu/mbl.is og sem framkvæmdastjóri Stúdentaráðs Háskóla Íslands. Meðal áhugamála hans eru úthaldsíþróttir og ítölsk knattspyrna.