Samgönguhjólreiðar 1.0

eftir Jórunn Pála Jónasdóttir

Mér hefur alltaf fundist gaman að hjóla. Til að byrja með var ég ekki mikið fyrir brekkur og ég man enn sterkt eftir hvatningarorðum pabba í brekkunum í Elliðarárdalnum sem virtust endalausar: “Setja svolítinn kraft í þetta!”, sem virkuðu reyndar bara á hinn veginn hjá okkur systkinunum þar sem við lömuðumst af hlátri og fórum ekkert hraðar. Áhuginn hefur bara aukist með síðustu árum og ætli brekkurnar hafi ekki endanlega verið teknar í sátt þegar ég hjólaði Nesjavallaleiðina nú í sumar en þar leynast brekkur sem slá í 15-16% halla.

Undirrituð ákvað svo nýlega að slást í hóp þeirra fjölmörgu Reykvíkinga (um 9000 manns skv. tölum Reykjavíkurborgar frá árinu 2014) sem hjóla daglega til og frá vinnu. Enn sem komið er hefur gengið vel og  það er ekkert nema hressandi að setjast í hnakkinn í rúman hálftíma áður en verkefni dagsins taka við. Það hljómar kannski mikið að hjóla fram og til baka úr úthverfi og í miðbæ Reykjavíkur en í reynd eru ferðirnar fram og til baka hins vegar um það bil jafnlöng vegalengd í kílómetrum talið og hjóluð er í einum 45 mínútna spinningtíma í líkamsræktarstöð. Í lok dags hefur maður því klárað líkamsrækt dagsins en annar augljós kostur er sparnaðurinn af bílleysinu sem er að minnsta kosti 90 þúsund á mánuði fyrir einn bíl, skv. útreikningum FÍB.

Hjólað með vetri konungi

Hingað til hefur fákurinn fengið að hvílast í skúrnum yfir vetrartímann á Íslandi en í ár er stefnan að breyta út af vananum og hjóla eins marga daga og mögulegt er. Ljóst er að vetur konungur mun þó bjóða upp á meira krefjandi aðstæður en sumarblíðan. Til að undirbúa komandi hjólaáskorun hef ég því eytt ófáum stundum í áhorf á myndbönd á Youtube um rétta búnaðinn fyrir vetrarhjólreiðar, heimsótt hjólaverslanir, fjárfest í negldum dekkjum o.fl. Næsta er að standa við sett markmið og til að búa mér til smá pressu heiti ég því að skrifa annan pistil á Róm í lok maí um það hvernig veturinn gekk.

Betri hjólageymslur við verslanir

En aftur að helstu áskorunum við daglegar samgönguhjólreiðar til og frá vinnu allt árið um kring. Svo virðist vera að með tæknina og gore-tex að vopni megi mæta veðráttunni og hæðóttu umhverfi Reykjavíkurborgar. Eitt helsta vandamálið sem ég hef hins vegar ekki náð að finna lausn á er stoppið á leiðinni heim. Þá á ég við klassíska stoppið í matvöruverslun, í vínbúðinni eða á pósthúsinu. Vandamálið er að mér er gífurlega illa við að skilja við hjólið mitt vegna ótta við að því verði stolið. Helst myndi ég vilja fara með hjólið með mér inn en eðlilega myndi það seint ganga upp. Ég auglýsi eftir að verslun í Reykjavík sem getur mætt hjólafólki með þetta og boðið upp á innandyra hjólageymslu með eftirlitsmyndavélum eða öruggum læsingum. Ég er viss um að sú verslun myndi vekja mikla lukku á meðal hjólreiðafólks.

Öryggistilfinningin

Annað atriði sem mér finnst skipta máli er að haga reiðhjólastígum þannig að hjólreiðamaður eigi kost á að fara eftir hjólreiðastígum sem eru í sjónfæri frá umferðargötum. Sem betur fer hefur ekki verið mikið um slys á fólk að kvöldlagi en það myndi vissulega vera góð tilfinning, sérstaklega þegar dagarnir verða styttri, að vita að einhver myndi taka eftir sér ef eitthvað kæmi upp. Tæknin hefur reyndar mætt þessu vandamáli að einhverju leyti, til dæmis er hægt að senda uppfærslur af staðsetningu í gegnum hjólaforritið Strava, með því að nota „Strava Beacon“. Þá sendir forritið jafnóðum uppfærslur af staðsetningu hjólreiðamannsins til einstaklinga sem hjólreiðamaðurinn hefur sjálfur útnefnt. Annar möguleiki er að vera með myndavél framaná hjólinu sem tekur upp hverja ferð með svipuðum hætti og myndavélar í framrúðum bifreiða, sjá til dæmis hér. Framangreint tengist öryggistilfinningu á meðan ferð stendur en á árinu 2017 stendur einmitt til að gera könnun á öryggistilfinningu og viðhorfi fólks til hjólreiða. Áhugavert verður að sjá niðurstöðurnar og þegar þær verða ljósar mun ég vonandi teljast samgönguhjólari á stigi 1.0.

Jórunn Pála Jónasdóttir

Pistlahöfundur

Jórunn Pála er lögfræðingur og búsett í Reykjavík. Hún sat áður sem formaður LÍS, hagsmuna- og lánasjóðsfulltrúi Stúdentaráðs formaður Vöku fls., og gjaldkeri Framtíðarinnar í Menntaskólanum í Reykjavík. Hennar helstu áhugamál eru hjólreiðar, fjallgöngur og ferðalög.