Sambúð gangandi og hjólandi vegfarenda

eftir Jórunn Pála Jónasdóttir

Hjólreiðamenn og gangandi vegfarendur eiga það sameiginlegt að þeir eru almennt óvarðir ef árekstur verður við aðra vegfarendur á þyngri og hraðari ökutækjum. Með tilkomu hjóla sem eru hönnuð til þess að fara hratt má þó tala um þriðja hópinn, hraðari hjólreiðamenn. Þessi skilningur á íslenskri hjólreiðamenningu gæti ráðið för við lagasetningu Alþingis á næstu mánuðum því í drögum að frumvarpi samgöngu- og sveitarstjórnarráðherra að nýjum umferðalögum er lagt til að afnema skyldu hjólreiðamanna til þess að hjóla ávallt á hjólastígum séu þeir til staðar. Rökin eru þau að á hjólastígum sé hraðinn of mikill fyrir suma hjólreiðamenn.

Sambúð hraðari hjólreiðamanna og gangandi vegfarenda fer ekki alltaf vel saman, sérstaklega þar sem margir fara um. Reglulega koma upp heitar umræður um atvik þar sem litlu hefði mátt muna að illa hefði farið, sjá t.d. nýlegar færslu á Facebook hópnum Reiðhjólabændur, frá 20. maí sl., þar sem höfundur færslu lýsir upplifun eiginkonu sinnar af því þegar hjólreiðamenn þeystust fram úr henni og hundinum þeirra, og athugasemdir við færsluna. Eðli málsins samkvæmt eykst hættan á stöðum þar sem fjölfarnar samgönguleiðir skarast við vinsæla staði.

Nauthólsvík

Á hverjum degi leggur fjöldi fólks leið sína um Nauthólsvík í Reykjavík. Svæðið hefur margs konar aðdráttarafl vegna náttúrufegurðar og ýmis konar starfsemi. Þar er Háskólinn í Reykjavík, siglingaklúbbur, tveir veitingastaðir, nálægð við Öskjuhlíð, vinsæll sjósundsstaður og ylströnd með baðaðstöðu, svo nokkur dæmi séu tekin. Stígarnir á svæðinu sinna líka því hlutverki að vera stofnbraut fyrir vegfarendur sem nýta sér umhverfisvæna ferðamáta til þess að komast á milli staða. Umferðin í gegnum svæðið er því margvísleg.

Stígur um Nauthólsvík hefur á kafla ekki verið aðskilinn fyrir umferð gangandi og hjólandi, sjá á loftmynd úr borgarvefsjá Reykjavíkurborgar hér fyrir ofan hvernig punktalína endar við bekki neðarlega til vinstri á myndinni. Nýlega var ég stödd á Bragganum Bistro (sjá gráan bragga fyrir miðju á myndinni) á sólríkum(a) júlídegi(num)[1], og glöggur samstarfsmaður minn benti á að af þessu stafi augljós hættu. Það var ekki liðinn klukkutími frá því að vinnufélagi minn gerði þessa athugasemd þar til að hjólreiðamaður á talsverðum hraða ók á barn á stígnum. Blessunarlega fór betur en á horfðist en litlu mátti muna að upp úr syði á milli foreldra barnsins og hjólreiðamannsins.

Eins og sjá má af tölum úr teljara gangandi og hjólandi vegfarenda í Nauthólsvík voru mjög margir á ferðinni 19. júlí í góða veðrinu og sjáanlegur munur samanborið við aðra daga.

Harpa

Sömu sögu er að segja á svæðinu fyrir framan Hörpu sem er allt í senn vinsæll ferðamannastaður, eitt helsta kennileyti höfuðborgarinnar og fyrir framan hana liggur fjölfarin hjólaleið. Sjá punktalínu endar, neðarlega til hægri á loftmyndinni.

Ábyrgð hjólreiðamanna

Á gangstígum ber hjólreiðamönnum ber að sjálfsögðu að gæta varúðar, enda byggir umferðarréttur þeirra um gangstíga á undanþáguheimild í umferðalögum. Ef illa hefði farið í tilvikinu sem nefnt er sem dæmi hér að ofan og ábyrgð hjólreiðamannsins hefði verið tekin til skoðunar hefði líklega verið litið til þess að hann fór hratt um á stíg sem liggur um fjölfarið útivistarsvæði. Sjá einnig eftirfarandi ákvæði núgildandi umferðalögum nr. 50/1987:

Heimilt er að hjóla á gangstétt og gangstíg, enda valdi það ekki gangandi vegfarendum hættu eða óþægindum. Hjólreiðamaður á gangstétt eða gangstíg skal víkja fyrir gangandi vegfarendum.

Ef frumvarp til nýrra umferðalaga verður að lögum verður þó nokkuð skerpt á ábyrgð hjólreiðamanna við þessar aðstæður, sbr. 2. málsl. 2. mgr. 42. gr. frumvarpsins en þar segir meðal annars að hjólreiðamaður skuli gæta ítrustu varkárni og ekki hjóla hraðar en svo að hann geti vikið úr vegi fyrir gangandi vegfarendum sem eiga leið um. Einnig að hann skuli gefa gefa hljóðmerki þegar hann nálgast gangandi vegfarendur ef ætla má að þeir verði hans ekki varir”.

Lausnin?

Það fer að sjálfsögðu eftir því hver er spurður en að mínu mati er besta lausnin að huga strax að því að koma upp sérstökum stígum fyrir hraðari umferð hjólreiðafólks. Á síðustu árum hefur náðst góður árangur í að fjölga reiðhjólaknöpum, langtum betri árangur heldur en að fjölga strætóferðum sem er umhugsunarvert. Léttari og hraðskreiðari hjól auðvelda fólki hjólamennskuna og stytta ferðatímann á milli áfangastaða og því getur ekki verið skynsamlegt að leggja á hraðatakmarkanir á reiðhjólafólk.

Þar til unnt verður að leggja sérstaka hjólastíga á fjölförnum leiðum má benda á aðra ódýra lausn til þess að minna hjólandi á að gæta varúðar, þ.e. að mála einhvers konar viðvörun á gangstéttina þar sem punktalínur enda og minna á ofangreindar reglur um forgang og öryggi gangandi vegfaranda.

Fræðsla og forvarnir gætu einnig hjálpað. Hraðskreiðari hjólreiðar eru að skapa sér sess, ekki bara í Reykjavík, og eru sennilega komnar til að vera. Samgöngustjórnvöld sveitarfélaga og aðrar samgöngustofnanir á vegum hins opinbera, t.d. Samgöngustofa, spila þar lykilhlutverk.

 

[1] Í ljósi þess að pistillinn er skrifaður rigningarsumarið 2018.

Jórunn Pála Jónasdóttir

Pistlahöfundur

Jórunn Pála er lögfræðingur og búsett í Reykjavík. Hún sat áður sem formaður LÍS, hagsmuna- og lánasjóðsfulltrúi Stúdentaráðs formaður Vöku fls., og gjaldkeri Framtíðarinnar í Menntaskólanum í Reykjavík. Hennar helstu áhugamál eru hjólreiðar, fjallgöngur og ferðalög.