Rós í hnappagat reiðufjármálaráðherra

eftir Ritstjórn

Fjármálaráðherra kynnti í vikunni tvær skýrslur tveggja sérfræðingahópa um skattsvik. Ein þeirra tillagna sem hóparnir lögðu fram og sú sem hæst fór í umræðunni var að taka úr umferð fimm- og tíu þúsund króna seðla. Það kom sérstaklega á óvart hve mikil og sterk viðbrögð urðu vegna kynningar skýrslnanna. Margir tjáðu andstöðu sína í skrifum á samfélagsmiðlum og talsvert var fjallað um málið í fjölmiðlum. En hvers vegna? Nánar um það neðar.

Ráðherrann myndi ganga of langt

Að mati annars starfshópsins nemur umfang skattsvika hérlendis um 80 til 120 milljörðum króna árlega. Það samsvarar tæplega 10% tekjum ríkisins eða heilu hátæknisjúkrahúsi, líku því sem hefur verið í umræðu síðustu ára.

Í grunninn gengur hugmyndin út á að gera fólki erfiðara að eiga viðskipti, t.d. fá greidd laun án þess að opinber gjöld séu greidd. Það skal tekið fram að aðgerðin, að taka úr umferð þessar tvær gerðir seðla, er ekki eðlisólík því að útrýma reiðufé með öllu. Í prinsippinu er því um sama hlutinn að ræða. Þar sem aðeins er um stigsmun að ræða og verður því rætt um málið á „svart-hvítum” nótum.

Við fyrstu sýn má hæglega fallast á að með því að útrýma reiðufé megi ganga mjög fast að þeim sem svíkja skatta og brjóta þar með lög, jafnvel þótt erfitt sé að koma í veg fyrir skattsvik með öllu. Í praktískum skilningi gengur dæmið þannig upp. Einnig er hugmyndin um reiðufjárleysi óneitanlega sveipuð heillandi nútímalegum blæ og getur verið til hagræðis.

Þegar betur er að gáð er þó augljóst að hugmyndum, um að svipta fólk vali um það í hvaða formi það hefur viðskipti, fylgja alvarlegir kvillar. Með afskiptum sem þessum gengur ríkisvaldið t.a.m. freklega gegn sjónarmiðum um friðhelgi einkalífs. Þrátt fyrir að viðskipti fari nú að mestu fram með rafrænum hætti, er sjálfsagt að fólk hafi val um þann greiðslumáta sem það nýti sér. Jafnvel mætti færa þau rök að mikilvægara sé nú en áður, að fólk hafi þann möguleika að geta keypt hluti án þess að viðskiptin séu rekjanleg, í ljósi þeirrar þróunar sem orðið hefur í net(ó)öryggi og netárásum. Það er því ekki furða að almenningur hafi brugðist við niðurstöðu nefndarinnar með þessum hætti.

Skattlagning er skerðing á eignarrétti fólks. Víðtæk sátt er á Íslandi um að skattar skuli heimtir til að standa straum af kostnaði við tilteknar stoðir samfélagsins. Jafnvel þótt innheimta skatta heppnist ekki fullkomlega, gefur það aldrei tilefni til að gengið sé á valfrelsi fólks og rétt til friðhelgi, aðeins svo heimturnar af einni frelsisskerðingu verði náð.

Besta leiðin til að sporna við skattsvikum er lækkun skatta. Þótt hér gefist ekki rými til að kafa frekar ofan í hyldýpi ríkisbáknsins, þá skal því haldið til haga að hér á landi er nægt rými til skattalækkunar. Það ber að nýta í þágu almennings.

Viðreisn, Viðreisn, Viðreisn…

Það er óverjandi að formaður Viðreisnar, sem hingað til hefur kallað sig frjálslyndan, daðri við hugmyndir sem þessar. Það eru því jákvæðar fréttir að í gær hafi hann dregið í land. Málalokin eru þó klunnaleg að því leyti að Benedikt fellst ekki á rök á borð við þau sem fram komu hér að ofan heldur kennir samfélaginu um að vera „ekki tilbúið fyrir svo róttæka hugmynd.” Það er rétt, að einstaklingar séu ekki tilbúnir að láta vaða yfir sig á skítugum skónum. Ástæða þess er þó ekki íhaldssemi borgaranna, líkt og Benedikt ýjar að, heldur viðbrögð við ofríkistilburðum ríkisvaldsins, þ.e.a.s. heilbrigðismerki um aðhald gagnvart ríkinu.

Reiðufjármálið er enn ein „rós í hnappagat” Benedikts og Viðreisnar á sínu fyrsta kjörtímabili. Einnig má nefna frumvarp flokksins um jafnlaunavottun og hve fáum kosningamálum sínum flokknum tókst að koma inn í stjórnarsáttmálann. Það verður því spennandi að sjá hvernig flokknum reiðir af í næstu kosningum, en það ræðst vísast til á næsta landsfundi flokksins, þar sem einhverjir gætu séð sér leik á borði og strítt forystusauðnum.