Sjóræningjar staðsettir í sveitinni

eftir Ritstjórn

Tímamótasamkomulag í stjórnarskrármálinu hefði vakið athygli ef það hefði raunverulega markað einhver tímamót. Í alla staði var skipan nefndarinnar fréttnæmari heldur en niðurstöðurnar. Menn geta haft ýmsar skoðanir á þjóðaratkvæðagreiðslum, þjóðareign og framsali ríkisvaldsins en hins vegar er það fullljóst að nefndin ákvað að skauta framhjá því sem mestu máli skiptir.

Í stjórnarskrá lýðveldisins segir að allir skulu jafnir fyrir lögum. Svo er reyndin ekki, heldur eru þeir sem kjósa að búa utan höfuðborgarsvæðisins öllu valdameiri en hinir í gegnum vægi atkvæða sinna í þingkosningum. Líklegt þykir að í gegnum tíðina hafi kosningafyrirkomulagið valdið stórkostlegum skaða í gegnum það sem kallast byggðastefna (en er lítið annað en grímulaus beiting fjárúthlutana til fólks sem ákveður að staðsetja hús sitt í krummaskuði).

Raunar er það óskiljanlegt að Píratar, sem áður höfðu mikil prinsipp um að ganga sem lengst í stjórnarskrárbreytingum, vilji nú vera þeir sem lengst vilja láta ganga yfir sig. Píratar vita eins og við hin að það sem mestu máli skipti að breyta hefur ekki verið snert á, og það er atkvæðavægið. Mögulega er það byggðastefna Píratanna að beita sér ekki fyrir þeirri breytingu og halda atkvæðavægi ójöfnu svo að peningasóunin fái þrifist.

Einnig geta eldfim innanflokksátök í flokknum hafa gert menn örlítið ringlaða. Pillur á milli Helga Hrafns og Birgittu hafa flogið fram og til baka í fjölmiðlum á milli þess sem innantómar afsökunarbeiðnir eru sendar út. Auðvelt er að skilja reiði Helga Hrafns en Birgitta hefur nú gert sig ansi heimakomna í þingsætinu og ætlar að verða leiðtogi valdamesta þingflokks á næsta kjörtímabili þrátt fyrir að hafa sagst ætla að sitja einungis í tvö kjörtímabil.

Píratar leystu þó nokkuð vel úr þessum deilumálum sínum eða allavega fjarlægðu deilurnar úr augsýn þegar þau fengu vinnustaðasálfræðing til þess að aðstoða sig. Ekki skal gera lítið úr því að kunna að leita sér hjálpar þegar á þarf að halda. Hins vegar verður ekki hjá því komist að spyrja sig hversu stjórntækur flokkurinn er, fyrst það logar allt í deilum án þess að flokkurinn sé við stjórnvölin. Rétt er hægt að ímynda sér illindin þegar Píratar verða komnir í ríkisstjórn í alvörunni en ekki bara í skoðanakönnunum.

Spurningin er því ekki hvort Píratar springi, líkt og Borgarahreyfingin sem á undan kom, heldur hvenær þeir geri það.

Ritstjórn

Ritstjórn

Ritstjórn Róms skipa Björn Már Ólafsson, Ísak Rúnarsson, Tryggvi Másson, Erla María Tölgyes, Jónína Sigurðardóttir og Oddur Þórðarson.