Ríkisvernduð fákeppni

eftir Kristinn Ingi Jónsson

Það eru gömul sannindi og ný – þótt margir neiti að viðurkenna það – að fákeppni þrífst best undir verndarvæng ríkisins. Sérstaklega á það við um fyrirkomulag leigubílaþjónustu hér á landi. Þar hafa stjórnvöld komið á fót kvótakerfi sem tryggir hagsmuni þröngs sérhagsmunahóps, leigubílstjóra, á kostnað allra annarra. Alvöru samkeppni er bannorð, ríkisvernduð fákeppni skal það vera heillin.

Samkvæmt reglugerð frá árinu 2003 skulu stjórnvöld að hámarki úthluta 520 leyfum til leigubílaaksturs á höfuðborgarsvæðinu. Þessi fjöldi hefur staðið í stað síðan þá, þrátt fyrir mikla fjölgun landsmanna og gríðarmikla fjölgun ferðamanna. Raunar hefur kerfið leitt til þess að leigubílum hefur, ótrúlegt en satt, fækkað um meira en 200 á undanförnum fjörutíu árum.

Leigubílstjórar, líkt og aðrar starfsstéttir, vilja að sjálfsögðu takmarka fjölda þeirra sem stunda sömu atvinnu og þeir sjálfir. Þeir hafa sannfært stjórnmálamenn um kosti haftakerfisins: að verð muni hækka, nauðgunum fjölga, eiturlyfjasala aukast, glæpamennska grassera og öryggi almennings verði stefnt í voða ef leigubílaakstur verði gefinn frjáls. Hræðsluáróðurinn leynir sér ekki.

Afstaða leigubílstjóra er skiljanleg þegar litið er til þröngra sérhagsmuna þeirra. Frá sjónarhóli almennings stenst hún hins vegar enga skoðun.

Hvað er almenningi fyrir bestu?

Ef ríkiskerfið í leigubílaþjónustu er svona vel til þess fallið að vernda hagsmuni almennings, af hverju berjast talsmenn þess ekki fyrir því að sams konar kerfi verði komið á fót á öðrum sviðum atvinnulífsins? Hvað ef leyfi til rekstrar matvöruverslana á höfuðborgarsvæðinu væru aðeins tíu talsins? Eða að aðeins mætti opna fimm bifreiðaverkstæði í Reykjavík? Með sömu rökum og leigubílstjórar beita fyrir sér væru slíkar aðgangshindranir mikið heillaspor fyrir neytendur.

Við vitum hins vegar hverjar afleiðingarnar af slíkri fákeppni yrðu. Verð myndi stórhækka og þjónustan versna til muna. Af hverju eiga einhver önnur lögmál að gilda um leigubílaþjónustu? Það er ekki eins og leigubílstjórar séu takmörkuð auðlind, líkt og fiskurinn í sjónum, sem vernda þurfi með kvótakerfi.

Eftirlitsstofnun EFTA lét fyrr á árinu uppi það álit sitt að fyrirkomulag leigubílaþjónustu í Noregi, sem er ekki ósvipað íslenska haftakerfinu, bryti í bága við EES-reglur. Stofnunin gerði sérstaklega athugasemdir við að fjöldi leyfa til leigubílaaksturs væri takmarkaður og eins þá kröfu norskra stjórnvalda að leigubílar tilheyri ákveðinni leigubílastöð.

Fram hefur komið í máli samgönguráðherra að eftirlitsstofnunin hafi jafnframt hafið að eigin frumkvæði skoðun á íslensku leigubílalöggjöfinni. Líklegt verður að teljast að stofnunin komist að sömu niðurstöðu um hana og norsku lögin, enda eru um keimlíkar reglur að ræða.

Eitt í orði, annað á borði

Flestir stjórnmálamenn segjast styðja frjálsa samkeppni. Þeir hafa til að mynda lögfest strangar samkeppnisreglur og falið sérstökum eftirlitsstofnunum vald til þess að grípa inn í rekstur fyrirtækja, ef ástæða þykir til, undir því yfirskyni að tryggja þurfi heilbrigða samkeppni og koma í veg fyrir skaðlega fákeppni.

Reyndin er aftur á móti önnur. Í stað þess að ryðja aðgangshindrunum úr vegi hefur hið opinbera markvisst grafið undan öllu því sem kallast má einkaframtak og staðið vörð um ríkisverndaða fákeppni á fjölmörgum sviðum.

Það er ef til vill borin von og fjarlæg að stjórnvöld sjái að sér og taki leigubílakerfið til gagngerrar endurskoðunar. Væntanlegt álit eftirlitsstofnunar EFTA mun þó vonandi vekja stjórnmálamenn til vitundar um mikilvægi samkeppninnar. Frjáls samkeppni hefur alls staðar sannað gildi sitt þar sem kraftar hennar hafa fengið að njóta sín. Það er engin ástæða til að ætla að önnur lögmál gildi um leigubíla.

Kristinn Ingi Jónsson

Pistlahöfundur

Kristinn Ingi er laganemi við Háskóla Íslands og viðskiptablaðamaður á Fréttablaðinu. Skrif hans í Rómi beinast helst að stjórnmálum, viðskiptum, lögfræði og hagfræði.