Ríkisvæðingin vofir yfir

eftir Kristinn Ingi Jónsson

Fylgismenn frjálsra viðskipta og eignarréttar hafa ríka ástæðu til þess að hafa áhyggjur. Allir stjórnmálaflokkar landsins, utan ríkisstjórnarflokkanna, hafa nefnilega heitið því – í mismiklum mæli þó – að ríkisvæða aflaheimildir útgerðarinnar komist þeir til valda að loknum þingkosningum. Fyrir dyrum stendur ein umfangsmesta eignaupptaka hér á landi í manna minnum.

Sú „markaðsleið“ sem flokkarnir hafa boðað í sjávarútvegi felst í því að ríkið hrifsi til sín aflaheimildir af útgerðarmönnum sem hafa keypt þær dýrum dómi, bjóði út og selji til þess að fjármagna rándýr kosningaloforð flokkanna.

Það hefur verið eitt helsta keppikefli stjórnlyndra stjórnmálamanna í áraraðir að ríkisvæða aflaheimildir og uppræta þar með það „óréttlæti“ sem þeir fullyrða að kvótakerfið sé. Þeir hafa þó sjaldnast kallað þjóðnýtinguna sínu rétta nafni, heldur talað ýmist um „fyrningarleið“, „samningaleið“ eða „uppboðsleið“. Markaðsleið, einhver hin mestu öfugmæli sem hugsast getur, er nýjasta nafnbótin.

Fær almenningur engan arð?

Flokkarnir höfða gjarnan til lægstu hvata fólks, ágirndar og öfundar, til þess að sannfæra það um að kvótakerfið sé óréttlátt. Þannig er því oft haldið fram, fullum fetum, að aðeins örfáir sægreifar, sem eigi það allir sammerkt að hafa fengið gefins kvóta þegar honum var úthlutað í upphafi, hagnist á kerfinu á kostnað okkar hinna. Þeir maki krókinn.

Í ofanálag er stundum sagt að þessir sægreifar skili engu til samfélagsins. Þeir hafi sölsað undir sig þá auðlind sem fiskimiðin eru með þeim afleiðingum að almenningur fái ekki sanngjarnan arð af henni. „Við viljum sækja arðinn“, kallaði formaður Samfylkingarinnar hástöfum á Alþingi nýverið.

Þeir sem bera slík sjónarmið á torg líta, vitandi eða óafvitandi, fram hjá þeirri gríðarmiklu verðmætasköpun sem hefur átt sér stað í sjávarútvegi og tengdum atvinnugreinum, sjávarklasanum, á undanförnum áratugum og allir landsmenn hafa notið góðs af. Og auðvitað minnast þeir ekki á að hvergi í heiminum þarf sjávarútvegur að þola eins háar opinberar álögur og hér á landi. Íslenskar fiskvinnslur og útgerðir greiða tugi milljarða króna í skatta og opinber gjöld á hverju ári. Slíkar staðreyndir henta ekki málstað þeirra.

Hvaða áhættu tók ríkið?

Úthlutun kvótans þegar núverandi kerfi var komið á fót árið 1984 er ekki hafin yfir gagnrýni. Alls ekki. Ýmsar leiðir stóðu stjórnvöldum til boða til þess að binda endi á þá ofveiði og offjárfestingu, með tilheyrandi gengisfellingum og ríkisstyrkjum, sem var að sliga útgerðina og allan almenning stærstan hluta síðustu aldar. Málefnaleg sjónarmið réðu því að ákveðið var að úthluta þeim sem höfðu stundað fiskveiðar og starfað í greininni einkarétt til þess að nýta fiskiauðlindina áfram. Einnig ber að hafa í huga að algjör óvissa ríkti um framtíðarvirði aflaheimildanna á þessum tíma og lá áhættan sem fólst í henni alfarið á útgerðinni.

Upphaflega úthlutunin er samt, hvað sem öðru líður, aukaatriði í umræðunni nú til dags. Hún kemur málinu einfaldlega ekki við. Ástæðan er sú að ætla má að allar þær aflaheimildir sem upphaflega var úthlutað hafi gengið kaupum og sölum á frjálsum markaði eftir að framsal var leyft árið 1991. Hafi úthlutunin verið óréttlát má því segja að það óréttlæti hafi verið leiðrétt að fullu. Núverandi handhafar aflaheimilda hafa langflestir, ef ekki allir, greitt fyrir sínar heimildir og það jafnvel dýru verði. Þeir fengu ekkert gefins sísona eins og stundum mætti halda af umræðunni.

Þeir tóku þess í stað verulega áhættu, skuldsettu sig og veðsettu og fjárfestu í góðri trú í aflaheimildum, skipum, veiðarfærum, fiskvinnsluhúsum, tækjum og svo mætti áfram halda.

Hvaða áhættu tók ríkið? Hvað lagði það af mörkum? Hvernig getur það allt í einu hrifsað til sín aflaheimildirnar? Hvaða réttlæti er fólgið í því?

Þjóðnýting er þjóðnýting

Það er sama hvaða nafni það er kallað. Það að ríkið taki verðmæti – og það bótalaust – af fólki sem hefur keypt það á löglegan hátt í góðri trú er þjóðnýting. Í því sambandi skiptir engu máli hversu mikil verðmæti eru þjóðnýtt og hvort það gerist yfir langan eða stuttan tíma. Þjóðnýting er þjóðnýting. Það er ómerkilegt áróðursbragð að kalla hana „markaðsleið“. Með slíku tali er einfaldlega öllu snúið á haus. Tillögur þjóðnýtingarsinna felast í því að eyðileggja þann markað sem er þegar fyrir hendi, þar sem aflaheimildir ganga kaupum og sölum, og tryggja þess í stað yfirráð ríkisins yfir sjávarútveginum.

Við Íslendingar höfum borið gæfu til þess að koma á fót hagkvæmu og réttlátu stjórnkerfi fiskveiða. Víðast hvar í heiminum eru fiskveiðar reknar með stórkostlegu tapi þar sem útgerðarmenn eru upp á náð og miskunn ráðamanna komnir. Hér á landi stendur sjávarútvegurinn hins vegar á eigin fótum, einn og óstuddur. Á sama tíma og sjávarútvegur í öðrum ríkjum skapar lítinn eða engan arð er það hápólitískt hitaefni hérlendis hversu mikið eigi að skattleggja þann mikla og myndarlega arð sem atvinnugreinin skapar.

Ekki sjálfsögð verðmætasköpun

Þjóðnýtingarsinnar halda því oft fram að fiskurinn í sjónum sé verðmætur per se. Útgerðinni sé aðeins falið að sækja þessi verðmæti. „Það er ekki útgerðin sem skapar verðmætin,“ segja þeir gjarnan. „Þau eru í hafinu og bíða þess að vera sótt.“

Slíkar fullyrðingar standa enga skoðun. Hvernig stendur þá á því að önnur ríki tapi á sjávarútvegi, en ekki við, ef sjómenn þessara ríkja þurfa bara að „sækja verðmætin“?

Það er kvótakerfið – kerfi framseljanlegra og varanlegra aflaheimilda – sem hefur gert útgerðinni það kleift að skapa verðmæti með nýjum og hagkvæmum veiðiaðferðum, vinnslu og markaðssetningu. Það er engin helber tilviljun að verðmæti aflans hefur aukist svo um munar frá því að kerfinu var komið á fót – öllum til hagsbóta.

Íslenskur sjávarútvegur skapar ekki aðeins meiri verðmæti úr aflanum nú en nokkurn tímann áður, heldur er verðmætasköpunin að sama skapi mun meiri en í öðrum ríkjum. Samtök fyrirtækja í sjávarútvegi hafa sem dæmi bent á að árið 2014 fluttum við út 118 þúsund tonn af þorskafurðum og fengum fyrir það jafnvirði 90 milljarða íslenskra króna eða um 4,8 milljarða norskra króna. Sama ár fluttu Norðmenn út rúmlega tvöfalt meira magn, 270 þúsund tonn, og fengu fyrir það 7,2 milljarða norskra króna. Verðmæti á íslenskt kvótakíló var þannig þriðjungi hærra en í Noregi. Það er öfundsvert – en síður en svo sjálfgefið.

Þrír lykilþættir kerfisins

Það eru einkum þrír lykilþættir í fiskveiðistjórnunarkerfi okkar sem hafa tryggt arðsemi sjávarútvegarins.

Kvótakerfið hefur í fyrsta lagi gert það að verkum að aflaheimildirnar hafa smám saman, í frjálsum viðskiptum, lent í höndum þeirra sem kunna best með þær að fara, því að þeir eru reiðubúnir til þess að bjóða hæsta verð fyrir þær. Hagkvæmar útgerðir hafa þannig keypt út þær óhagkvæmu. Í öðru lagi myndaðist við frjáls viðskipti með aflaheimildir eðlilegt verð á auðlindinni, en áður fyrr var hún ofnýtt – og raunar að hruni komin – vegna þess að aðgangur að henni var ókeypis. Í þriðja lagi leiðir sú staðreynd að aflaheimildirnar eru varanlegar til þess að útgerðarmenn hafa hag af því að hámarka arðinn af auðlindinni til langs tíma. Þeir hafa með öðrum orðum hagsmuni af því að fara vel með fiskimiðin og vernda auðlindina eftir bestu getu.

Ekki slátra gullgæsinni!

Kvótakerfið er ekki fullkomið frekar en önnur mannanna verk. Við eigum að líta á það gagnrýnum augum og leita leiða til þess að bæta það enn frekar. Ein mesta meinsemd þess er að það nær ekki nógu langt. Undanþágur frá því eru of margar, flóknar og víðtækar og við því þarf að bregðast. Annað verkefni sem bíður næstu ríkisstjórnar er að afnema sérstaka skatta sem lagðir eru á sjávarútveg umfram aðrar atvinnugreinar. Það þarf að koma stjórnmálamönnum, sérstaklega þeim skattaglöðu, í skilning um að íslenskur sjávarútvegur á í harðri samkeppni við alþjóðleg sjávarútvegsfyrirtæki sem njóta ríflegra ríkisstyrkja. Sjávarútvegurinn er útflutningsgrein og byggir velgengni hans einkum á því að standast alþjóðlega samkeppni. Háir skattar grafa undan samkeppnishæfni greinarinnar.

Fátt mun samt grafa meira undan sjávarútveginum en ef áform vinstriflokkanna ná fram að ganga. Þjóðnýting kvótans myndi hafa skelfilegar afleiðingar í för með sér fyrir þjóðina alla, skapa ríkinu hundruð milljarða bótaskyldu og vega að rótum hagkvæms sjávarútvegar. Það væri glapræði að slátra gullgæsinni.

Kristinn Ingi Jónsson

Pistlahöfundur

Kristinn Ingi er laganemi við Háskóla Íslands og viðskiptablaðamaður á Fréttablaðinu. Skrif hans í Rómi beinast helst að stjórnmálum, viðskiptum, lögfræði og hagfræði.