Ríkisbankar eru tímaskekkja

eftir Kristinn Ingi Jónsson

Fyrir tuttugu árum hafði ríkið tögl og hagldir á íslenskum bankamarkaði. Það átti þá allt hlutafé í þremur stærstu bönkum landsins, Búnaðarbanka Íslands, Fjárfestingarbanka atvinnulífsins og Landsbanka Íslands, og var sú hugmynd víða viðtekin að þannig væri eignarhaldið eins og best yrði á kosið.

Viðhorfið breyttist hins vegar eftir því sem leið að aldamótum. Hugmyndabaráttan sem var háð á tíunda áratug síðustu aldar snerist að miklu leyti um að draga úr umsvifum hins opinbera í atvinnulífinu og setja þess í stað trúna á einstaklinginn og einkaframtakið í öndvegi. Ekki þótti lengur forsvaranlegt að stjórnmálamenn væru að vasast í rekstri banka og úthluta almannafé til vildarvina á ábyrgð skattgreiðenda. Bankarnir voru auk þess illa reknir og skiluðu lítilli arðsemi, enda höfðu stjórnendur þeirra lítinn sem engan hvata til þess að draga úr kostnaði og auka hagnað, án alls aðhalds frá markaðinum. Var það loks árið 2003 að lokið var við að selja síðustu hluti ríkisins í Landsbankanum og Búnaðarbankanum.

Afturhvarf til fortíðar

En hver er staðan í dag?

Í raun má segja að við séum komin tuttugu ár aftur í tímann. Ríkið er enn á ný orðið ráðandi afl á íslenskum bankamarkaði, með 98% eignarhlut í Landsbankanum, 13% hlut í Arion banka og þá er Íslandsbanki allur kominn í ríkiseigu. Þetta jafngildir því að ríkið ráði vel yfir 70% af markaðinum. Slík ríkisumsvif eru með öllu óþekkt í bankakerfum vestrænna ríkja, eins og glögglega má sjá í skýrslu Alþjóðabankans frá árinu 2013. Hlutfallið hér er svipað og það var í ríkjum eins og Indlandi, Sýrlandi og Hvíta-Rússlandi árið 2010. Samkvæmt skýrslunni var heimsmeðaltalið 21% árið 2010 og miðgildið 15%. Ekki er hægt að verjast því að ugg setji að manni þegar litið er til þess að eignarhlutur hins opinbera í bankakerfinu er umtalsvert meiri hér en í sósíalískum ríkjum á borð við Rússland, Úrúgvæ og Venesúela. Það er súrt hlutskipti.

2016_02_21 Kristinn Ingi Eignarhald rikisins

Sama hvaða mælikvarða notast er við er dagsljóst að eignarhlutur ríkisins í viðskiptabönkunum er allt of stór. Þannig hefur Bankasýsla ríkisins margoft bent á í skýrslum sínum að þessi hlutur sé langstærstur á meðal Evrópuþjóða ef litið er til hans sem hlutfalls af vergri landsframleiðslu og opinberum skuldum. Í lok árs 2014 samsvaraði hlutur ríkisins í eigin fé Arion banka, Íslandsbanka og Landsbankans 16,8% af opinberum skuldum, en til samanburðar var þetta hlutfall næst hæst á Írlandi, eða 6,3%. Þá samsvaraði hlutur ríkisins í eigin fé þessara þriggja banka 13,8% af vergri landsframleiðslu ársins 2014, en hlutfallið var næst hæst í Grikklandi, 9,7%.

Það lýsir mikilli skammsýni að halda því fram að þessi staða feli ekki í sér neina áhættu fyrir ríkissjóð. Það ætti ekki að vera neinum vafa undirorpið að fjárhagsleg áhætta ríkisins vegna eignarhalds síns í bönkunum er veruleg, svo vægt sé til orða tekið. Hún er jafnframt fordæmalaus. Á árinu 1997, þegar ríkið átti að fullu þrjá stærstu banka landsins, nam bókfært virði eignarhluta ríkisins í bönkunum, sem hlutfall af eignum ríkissjóðs, 11,7%. Hlutfallið var 14,0% í árslok 2014, samkvæmt nýlegri skýrslu Bankasýslunnar, og hefur óumdeilanlega hækkað töluvert eftir að Íslandsbanki féll í faðm ríkisins fyrr á þessu ári. Enn fremur nam hlutur ríkisins í bókfærðu eigin fé bankanna, sem hlutfall af vergri landsframleiðslu, 3,7% í lok árs 1997. Þetta hlutfall var komið í 13,8% í árslok 2014, eins og áður sagði.

2016_02_21 Kristinn Ingi Bokfaert eigid fe

Áhætta ríkisins af eignarhaldi sínu í bönkunum er því ekki aðeins meiri en í öðrum vestrænum ríkjum, heldur jafnframt meiri en hún hefur nokkurn tímann verið í sögulegu samhengi.

Tap ríkisbanka er tap skattgreiðenda

Sem betur fer horfir til breytinga en stjórnvöld hafa lýst því yfir að stefnt sé að því að selja allt að 28% hlut í Landsbankanum á þessu ári. Það er fagnaðarefni, en hafa verður hugfast að það er einungis fyrsta skrefið í þá átt að losa tangarhald ríkisins á bankakerfinu. Af nógu er að taka. Ekki liggur fyrir nein skýr stefnumörkun er varðar framtíðareignarhald ríkisins í Landsbankanum og Íslandsbanka og svo virðist sem ekki sé samstaða um það á meðal þingmanna stjórnarmeirihlutans hvert hlutverk ríkisins á bankamarkaði eigi yfir höfuð að vera til framtíðar. Þannig hafa fjölmargir framsóknarmenn talað heldur fjálglega um að skynsamlegt sé að skattgreiðendur reki banka, jafnvel eins konar „samfélagsbanka“, sem skili aðeins lágmarksarðsemi. Þeir benda á að séu bankarnir í ríkiseigu renni hagnaður þeirra, sem hefur óneitanlega verið ríflegur undanfarin ár, óskiptur til ríkisins. Vissulega hefur ríkið notið góðs af hagnaði bankanna – um það er ekki deilt – en það má ekki gleymast að hagnaðurinn er að langmestu leyti kominn til vegna óreglulegra þátta eins og virðisaukningar útlána og endurmats á eignasöfnum. Það er augljóst að bankarnir þurfa að bæta arðsemi sína af grunnrekstrinum – það er raunar þeirra helsta áskorun – og það gera þeir ekki ef þeir verða áfram í ríkiseigu.

Við þekkjum af biturri reynslu hvernig fór fyrir gömlu ríkisbönkunum. Tap á rekstri þeirra var tap almennings. Það sama má segja um „samfélagsbankann“ Íbúðalánasjóð. Kostnaður skattgreiðenda af rekstri hans hefur hlaupið á tugum milljarða króna á síðustu árum og sér ekki enn fyrir endann á þeirri sorgarsögu, því miður.

Það er enn fremur kaldhæðnislegt, svo ekki sé meira sagt, að margir þeirra sem beittu sér gegn því að almenningur hér á landi þyrfti að greiða skuldir einkabanka vegna Icesave-reikninganna skuli nú vera helstu talsmenn þess að ríkið standi í áhættusömum bankarekstri á ábyrgð almennings. Það er margt skrítið í kýrhausnum.

Ríkisábyrgð er meinið

En það er ekki nóg að ríkið reki ekki banka. Skattgreiðendur eiga heldur ekki að gangast í ábyrgð fyrir taprekstur þeirra. Það voru mikil og dýrkeypt mistök að endurreisa íslenska bankakerfið í nánast óbreyttri mynd eftir algjört hrun þess fyrir rúmum sjö árum. Í stað þess að nýta einstakt tækifæri til þess að endurskipuleggja bankakerfið frá grunni stöndum við uppi með allt of dýrt og óhagkvæmt kerfi sem er áfram rekið í skjóli ríkisábyrgðar.

Ef draga má einhvern lærdóm af fjármálakreppunni er það sá að ríkisábyrgð er slæm hugmynd sem leiðir ekkert af sér nema ranglæti. Samt virðist ekkert hafa lærst. Enn búast menn við því að ríkið bjargi bönkum, enn eru innstæðutryggingakerfi víðast hvar rekin af hinu opinbera, ekki sjálfu bankakerfinu, eins og eðlilegt væri, og enn skilgreina seðlabankar sig sem lánveitandi til þrautavara, meira að segja hér á landi, þrátt fyrir að ljóst sé að í opnu hagkerfi getur seðlabanki sem byggir á örmynt engan veginn valdið því hlutverki sínu.

Einkabankar sem eru reknir á ábyrgð skattgreiðenda eru litlu skárri en ríkisbankar á ábyrgð skattgreiðenda. Í báðum tilfellum fá stjórnendur þeirra að leika lausum hala í skjóli þess að almenningur komi til bjargar þegar í harðbakkann slær. Réttara væri að ábyrgðin lægi hjá bönkunum sjálfum. Þeir njóta hagnaðar þegar vel árar og er því ekki nema sanngjarnt að þeir beri tapið ef illa fer.

 

Ljósmynd eftir Håkon Broder Lund