Réttindi og skyldur NPA starfsfólks

eftir Jóhann Óli Eiðsson

Þann 6. júní síðastliðinn féll dómur í Héraðsdómi Reykjavíkur í máli Freyju Haraldsdóttur gegn Barnaverndarstofu. Í málinu gerði Freyja kröfu um að úrskurður úrskurðarnefndar velferðarmála, sem kveðinn hafði verið upp sléttum tveimur árum áður, yrði felldur úr gildi. Sá úrskurður staðfesti synjun Barnarverndarstofu á umsókn Freyju um að fá að taka barn í fóstur.

Dómurinn, líkt og aðdragandi málsins, varð fljótt bitbein í samfélaginu. Mörg ummæli, hluti þeirra rætinn, voru látin falla og skiptist fólk í tvær fylkingar. Annars vegar fólk sem studdi Freyju og hins vegar þá sem töldu það fráleitt að hún hafi ætlað sér þetta. Í öllum hamaganginum virtist hins vegar gleymast að ræða um hlutverk, réttindi og skyldur aðstoðarmanna fatlaðs fólks.

Undir lok apríl voru samþykkt lög um þjónustu við fatlað fólk með langvarandi stuðningsþarfir, í daglegu talið kölluð NPA-lögin (notendastýrð persónuaðstoð). Forsaga málsins er alllöng en stutta útgáfan af henni er að árið 2007 undirritaði Ísland samning Sameinuðu þjóðanna um réttindi fatlaðs fólk. Í kjölfarið hófst vinna við fullgildingu hans. Þjónusta við fatlaða var færð frá ríki til sveitarfélaga og NPA-verkefninu var ýtt úr vör af fullum krafti árið 2011 en smærri verkefni höfðu verið prófuð frá árinu 1994. Frumvarp um efnið var í þrígang lagt fram á þingi en náði loks í gegn 2018 eftir að hafa dagað uppi í nefnd fyrri skiptin tvö.

Markmið laganna kemur fram strax í fyrstu grein þess. Samkvæmt greininni skal fatlað fólk eiga kost á bestu þjónustu sem unnt er að veita á hverjum tíma til að koma til móts við sértækar stuðningsþarfir þess. Þjónustan skal miða að því að notandi hennar fái þann stuðning sem til þarf til að það geti notið fullra mannréttinda til jafns við aðra og við framkvæmd hennar skal virðing borin fyrir mannlegri reisn þess, sjálfræði og sjálfstæði.

Síðar í lögunum er NPA-aðstoð skilgreind á þann veg að notandi hennar skipuleggi hana, ákveði hvar og hvenær hún er veitt, velur aðstoðarfólk og hver annars umsýslu á grundvelli starfsleyfis þar að lútandi. Í 11. gr. segir að einstaklingur eigi rétt á NPA-aðstoð hafi hann mikla og viðvarandi þörf fyrir aðstoð og þjónustu, svo sem við athafnir daglegs lífs, heimilishald og þátttöku í félagslífi, námi og atvinnulífi.

Þessu næst er rétt að víkja örstutt að 27. gr. sem kveður á um skyldur starfsmanna en þar segir meðal annars að þeir skuli í öllum samskiptum við það gæta þess að sýna því fulla virðingu og hafa mannlega reisn fatlaðs fólks að leiðarljósi í öllum störfum sínum. Starfsfólk sem starfar í þjónustu við fatlað fólk skal standa vörð um hagsmuni þess og gæta þess að réttindi þess séu virt.“

Við meðferð frumvarpsins á þingi var fjöldi athugasemda gerður við það og tekið tillit til stórs hluta þeirra við afgreiðslu þess. Hluti þeirra sneri að því að enginn kjarasamningur væri í gildi fyrir NPA-starfsfólk. Þá var einnig vikið að því að frumvarpið væri þögult um starfsskilyrði og aðbúnað starfsfólks. Úr því var bætt með breytingartillögu sem segir að umsýsluaðili samnings skuli sjá til þess að uppfyllt séu skilyrði þeirra laga og reglugerða sem málið varða, þar á meðal hluti ákvæða laga um aðbúnað, hollustuhætti og öryggi á vinnustöðum.

Spurningum enn ósvarað

Undanfarið hafa fjölmörg mál sem varða NPA verið til umsagnar í samráðsgátt ríkisstjórnarinnar og þrátt fyrir að tilraunaverkefnið sé nú orðið að lögum er enn nokkrum laga- og siðferðilegum spurningum ósvarað. Reglulega berast stéttarfélögum NPA-starfsfólks erindi frá þeim og eru þau jafn misjöfn og þjónustuþegarnir. Sumt snýst að launakjörum og réttindum þeirra en annað að því hvaða störfum þeim ber að inna af hendi og hver ekki.

Spurningunni hvar skil skyldna starfsmannsins og kröfu þjónustuþegans liggja er ekki auðsvarað. Því verður það ekki gert hér heldur aðeins látið nægja að vekja athygli á umræðuefninu. Sem fyrr segir miðar NPA að því að hinn fatlaði einstaklingur ákveði hvaða verk eru unnin, hver vinnur þau og hvenær það skal gert. Hvað fellur hins vegar innan þess? Er um opinn tékka að ræða?

Flestir, ef ekki allir, eru sammála um að þar fyrir innan falli aðstoð við dagleg verk. Matreiðsla, þrif, innkaup, persónuleg umhirða, aðstoð við menntun, akstur milli staða og ýmis önnur verk sem falla til í dagsins amstri heyra einnig þar undir að mati flestra. Eftir því sem maður veltir upp fleiri hlutum fara svörin hins vegar að vera mismunandi. Hér á eftir fylgja nokkur dæmi. Hluti þeirra er uppspuni, önnur ekki.

Ímyndum okkur til að mynda hreyfihamlaðan einstakling sem vill æfa CrossFit. Ber starfsmanni hans að gera æfingar fyrir hans hönd? Hvað ef sami einstaklingur myndi vilja hjálpa ættingja eða vini að flytja eða myndi ráða sig í starf sem starfsmaður í byggingarvinnu? Ímyndum okkur einnig fatlaður einstaklingur ljúki skipstjórnarnámi en eigi bágt með að sinna starfi sínu nema með aðstoð starfsmanns. Síðar er hann ráðinn á skip. Bæri starfsmanninum að fara með honum út á sjó og hvaða áhrif hefði það á kjör hans? Sumir myndu svara því að þetta allt væri sjálfsagt, aðrir myndu segja það fráleitt. Þá standa enn eftir spurningar sem varða kynlíf þjónustuþega og hver þáttur starfsfólks skal vera þar.

Í viðtali í apríl síðastliðnum sagði aðstoðarmaður félags- og jafnréttismálaráðherra að þegar verkefninu var ýtt úr vör árið 2010 hefði alltaf staðið til að hagsmunaaðilar og hlutaðeigandi kæmu saman og teiknuðu upp hvernig aðbúnaði og réttindum starfsfólks yrði háttað. Um skeið stóð til að skipa starfshóp um verkið. Enn bólar ekki á honum.

Jóhann Óli Eiðsson

Pistlahöfundur

Jóhann Óli starfar sem blaðamaður á Viðskiptablaðinu samhliða laganámi og föðurhlutverki. Hann er fyrrverandi framkvæmdastjóri Úlfljóts og gjaldkeri stjórnar ELSA Íslands. Áhugamál Jóla eru hvers kyns íþróttir, tónlist, kvikmyndir og bækur.