Réttindi kvenna skert

eftir Jónína Sigurðardóttir

Árið 1973 voru sett lög í Bandaríkjunum sem gerðu öllum konum kleift að fara í fóstureyðingu upp að 24. viku meðgöngu. Löggjöfin er mjög þekkt og hefur í gegnum árin haft mikinn stuðning Bandaríkjamanna. Í kjölfar hennar fækkaði tilfellum þar sem konur veiktust alvarlega eða létust vegna ólöglegra fóstureyðinga. Konur fengu loksins vald til þess að taka ákvarðanir um eigin líkama án þess að þurfa að afsaka sig eða útskýra fyrir nokkrum manni ástæðurnar sem lágu að baki. Núna er hinsvegar verið að svifta konur þessum réttindum í gríð og erg.

Fyrr á þessu ári var samþykkt frumvarp í Alabama í Bandaríkjunum um að konur mættu ekki fara í fóstureyðingar nema hægt væri að sýna fram á að móðirin sé í lífshættu. Konur í Alabama mega ekki lengur fara í fóstureyðingu ef þær verða óléttar eftir að hafa verið nauðgað og eru því þvingaðar til þess að fæða barn. Samkvæmt lögunum geta læknar sem framkvæma ólöglegar fóstureyðingar átt hættu á því að fara í fangelsi í allt að 10 til 99 ár. 

Alabama er það fylki Bandaríkjanna sem gengur hvað lengst með að skerða réttindi kvenna yfir eigin líkama. Síðan Trump tók við sem forseti hefur fylkjum sem hindra aðgengi kvenna að fóstureyðingum fjölgað. Konur sem ekki hafa aðgang að fóstureyðingum eru líklegri til þess að nota aðrar aðferðir til þess að rjúfa þungun. Til þessara aðferða má telja notkun á jurtum, misnotkun á lyfjum, innvortis- og utanverður sjálfsskaði.

Afleiðingarnar sem það hefur á konu að þurfa að fæða og ala upp barn sem hún vill ekki eignast eru gríðarlegar. Konur sem vilja fara í fóstureyðingu eru í flestum tilfellum í erfiðri félagslegri stöðu, mjög ungar, vímuefnaneytendur eða að þeim hafi verið nauðgað svo dæmi séu tekin. Þessar afleiðingar koma þó ekki einungis þeim við. Líklegt er að það að fá ekki að binda enda á þungun hafi í framhaldinu áhrif á uppvöxt og samskipti barns og móður, tengsl á fyrsta aldursári barns hefur varanleg áhrif á tengslamyndun þess við annað fólk um ókomna tíð. 

Ég sem ung kona og móðir ungrar stelpu hræðist þessa þróun. 

Ég hræðist að réttinda kvenna geti verið hrifsuð af þeim. Ég hræðist að stærri hópar kvenna festist í fátækragildum og geti ekki séð fyrir sér og börnum sínum. Ég hræðist að fleiri réttindi verði tekin af konum. 

Ef einhver hefði sagt mér fyrir 5 árum síðan að þetta yrði staðan í Bandaríkjunum í dag þá hefði ég ekki trúað því. Ég hefði ekki trúað því að eins miklar og stórvægilegar breytingar gætu átt sér stað í vestrænu samfélagi á eins stuttum tíma. Breytingar sem hafa afdrifarík áhrif á lífsgæði kvenna og skerði þau réttindi sem þær höfðu fyrir yfir eigin líkömum.

Við verðum að vera meðvituð um hvað er í gangi í kringum okkur og í okkar eigin samfélögum til þess að geta staðið vörð um réttindi okkar, látið í okkur heyra og tekið þátt.

Kvenréttindi eru líka mannréttindi.

Jónína Sigurðardóttir

Ritstjórn

Jónína Sigurðardóttir er meistaranemi í uppeldis- og menntunarfræðum með áherslu á áhættuhegðun og forvarnir fyrir börn og ungmenni. Hún starfar sem ráðgjafi á velferðarsviði hjá Reykjavíkurborg fyrir heimilislausa með miklar og flóknar þjónustuþarfir. Jónína á 11 ára gamla dóttur og hefur mikinn áhuga á velferðarmálum.