Réttarríkið Ísland

eftir Jóhann Óli Eiðsson

Þótt hálfur annar mánuður sé liðinn frá því að makrílmálin voru í brennidepli langar mig örstutt að rifja þau upp. Yfirferðin byrjar á ummælum fjármála- og efnahagsráðherra á Alþingi í umræðum um áhrif Covid-19 faraldursins þann 14. apríl síðastliðinn

„Möguleg innbyrðis togstreita um aflaheimildir á milli útgerða verður ekki leyst á kostnað skattgreiðenda. Það verður ekki þannig. Nú höfum við tekið til varna í hinu svokallaða makrílmáli. Við munum taka til fullra varna. Ég hef reyndar góðar væntingar um að við munum hafa sigur í því máli. Ef svo ólíklega vill til að það mál fari ríkinu í óhag er einfalt mál í mínum huga að reikningurinn vegna þess verður ekki sendur á skattgreiðendur. Greiðslan vegna þess verður þá að koma frá greininni. Það er svo einfalt,“ sagði ráðherrann meðal annars.

Tilefni ummælanna voru dómsmál sem sjö útgerðir höfðu höfðað gegn íslenska ríkinu til greiðslu skaðabóta vegna ólögmætrar úthlutunar á aflamarki í makríl. Samanlögð dómkrafa nam ríflega tíu milljörðum króna, auk skaðabótavaxta frá setningardegi hverrar reglugerðar fyrir sig og dráttarvaxta frá þeim tíma er mánuður var liðinn frá þingfestingu málanna í héraði.

Sé hlaupið á hundavaði yfir feril málanna, svokölluð tl;dr útgáfa, þá hóf makríll að hefja komu sína í íslenska lögsögu um miðjan síðasta áratug. Útgerðirnar stukku til, hófu ólympískar veiðar og skutluðu aflanum í bræðslu enda vissu þær að lögum samkvæmt myndi veiðireynsla mynda grunn hlutdeildarsetningar þegar til hennar kæmi. 

Í byrjun þessa áratugar, það er árið 2011, setti þáverandi sjávarútvegs- og landbúnaðarráðherra reglugerð um stjórn makrílveiða fyrir það sumar. „Líkt og fyrr er áhersla lögð á að ekki megi reikna með að veiðarnar í ár skapi grunn að veiðirétti í framtíðinni eða að framtíðarfyrirkomulagi veiða að öðru leyti. Á það er jafnframt bent að ekki liggur fyrir samfelld veiðireynsla í skilningi laga,“ sagði í fréttatilkynningu af því tilefni. 

Færa má rök fyrir því að þarna hafi ráðherrann talað gegn betri vitund. Áður en reglugerðin var sett vöruðu sérfræðingar ráðuneytisins hann við því að með þessu væri líklegt að ráðherra myndi með þessu sprengja lagaheimild sem hann hafði. „Verði látið á það reyna hjá umboðsmanni Alþingis eða fyrir dómstólum er mjög líklegt að niðurstaðan verði sú að ráðherra hafi gengið lengra við setningu reglugerðar en lög heimila,“ sagði í minnisblaði sérfræðinga af þessu tilefni. Sú varð enda rauninn. Bæði umboðsmaður og dómstólar töldu að leiðin sem valin var hafi ekki verið fær og í desember 2018 staðfesti Hæstiréttur bótaskyldu ríkisins vegna þessa. 

Á Íslandi hefur sú grundvallarregla lengi gilt að lögin bindi ekki aðeins borgana heldur einnig ríkið sjálft. Er það einn af hornsteinum réttarríkisins að aðgerðir og ákvarðanir ríkisvaldsins eigi sér stoð í lögum. Telji borgari að ríkið hafi gert obbossí gagnvart sér þá er það hans réttur að geta farið fram á að ríkið bæti það tjón sem af hlaust.

Umræddar útgerðir mátu tjón sitt um tíu milljarða króna en hluti þeirra hefur fallið frá málsókn. Raunar gerðist það skömmu eftir að ummæli fjármálaráðherra féllu. Einhverjir hafa gert því í skóna að mögulega hafi ráðherra fengið veður af því að málin yrðu felld niður og því látið tilvitnuð ummæli flakka. Látum slíkt liggja milli hluta en veltum aðeins fyrir okkur orðum ráðherrans.

„Reikningurinn vegna þess verður ekki sendur á skattgreiðendur. Greiðslan vegna þess verður þá að koma frá greininni.“ Orðin virðast bera það með sér að falli dómur ríkinu í óhag muni opinber gjöld á útgerðina hækka til að standa straum af bótagreiðslunni. 

Hvernig samræmist það hugmyndinni um réttarríkið Ísland? Leggjum fiskveiðistjórnunarkerfið örstutt til hliðar og ímyndum okkur að í stað útgerða værum við að tala um landbúnaðartolladómanna. Hefði verið gott og gilt að álögur á innflytjendur matvæla hefðu verið hækkaðar og þeir látnir standa straum af sínum eigin bótagreiðslum? En ef um bændur, bakara eða byggingaverktaka að ræða? Eða í raun hvaða aðra stétt aðra sem okkur dettur í hug? 

Ég leyfi mér að efast um að slík háttsemi kæmist vandræðalaust undan smásjá dómstóla. Í stað þess að handhafar ríkisvalds reyni að tala menn ofan af málssókn ætti það að vera kappsmál fyrir ríkið að rétta hlut borgarans, sérstaklega þegar fyrir liggur að það hafi farið á svig við eigin lög. 

Jóhann Óli Eiðsson

Pistlahöfundur

Jóhann Óli starfar sem blaðamaður á Viðskiptablaðinu samhliða laganámi og föðurhlutverki. Hann er fyrrverandi framkvæmdastjóri Úlfljóts og gjaldkeri stjórnar ELSA Íslands. Áhugamál Jóla eru hvers kyns íþróttir, tónlist, kvikmyndir og bækur.