Rekstrarhagfræðingur kaupir barnaföt

eftir Gylfi Þór Sigurðsson

Vinsældir flóamarkaða á borð við Barnaloppuna hafa farið fram hjá fáum. Í Barnaloppunni má finna gott úrval af notuðum barnafötum og öðrum varningi. Í kjölfar góðs árangurs Barnaloppunnar hafa síðan sprottið upp fleiri „loppur“. Hugmyndin er góð, fólki býðst að leiga bás, og hengja þar upp notuð föt sem starfsfólk sér um að afgreiða ef kaupandi finnst. Almennt þykir mér margt skemmtilegra en að versla barnaföt, en þessi breyting á smekk fólks á notuðum barnafötum fannst mér áhugaverð. Fróðlegt gæti verið að greina þessa breytingu með tólum rekstrarhagfræðinnar.

Staðkvæmdarvörur

Til að nálgast viðfangsefnið þá skulum við gera ráð fyrir því að annarsvegar „Ný barnaföt“ og hinsvegar „Notuð barnaföt“ séu og hafi alltaf verið staðkvæmdarvörur (e. substitute goods). Það að tvær vörur séu staðkvæmdarvörur þýðir í sinni einföldustu mynd að neytendur geta að einhverju leyti valið á milli hvorra tveggja þegar þeir vilja kaupa þessar vörur. Gott dæmi sem allir hafa heyrt á veitingastað er „Við eigum ekki Coke en má bjóða þér Pepsi?“ Ástæðan fyrir því að þjónn á veitingastaðnum leggur þetta svona upp er af því að Pepsi er staðkvæmdarvara fyrir Coke. Sumar vörur hafa samt mis mikla staðkvæmd og hversu mikil þessi staðkvæmd er getur líka verið mismunandi milli einstaklinga.

Nú skulum við líta á tilfelli Barnaloppnar með augum rekstarhagfræðings. „Í upphafi“ versluðu neytendur aðallega ný föt, búðir eins og barnaloppan voru ekki til enda fáir sem gátu hugsað sér að versla í þeim. Ef við teiknum upp þessa tvo markaði með framboðs- og eftirspurnarkúrfum þá litu þeir kannski svona út:

Nú gerist eitthvað sem veldur því að skyndilega eykst eftirspurn eftir notuðum barnafötum hratt. Líklega spilar aukin umhverfismeðvitund þar inní enda hafa barnaföt lengi haft það orð á sér að vera lítið notuð enda vex barnið en brókin ekki. Einhver gæti sagt að notuð barnaföt hefðu verið „óæðri vara“ en það er vara sem þú reynir hlutfallslega að draga úr neyslu á ef kaupmáttur þinn eykst. Það gæti þó varla verið tilfellið þar sem vinsældir Barnaloppunar hafa til komið á góðæristímum. En hvaða áhrif hefur þessi aukna eftirspurn á markaðina?

Nú sjáum við að þegar eftirspurn eykst eftir notuðum fötum þá hækkar „jafnvægismagnið“, þ.e. heildarmagn af notuðum fötum sem fjölskyldur á Íslandi kaupa er að aukast. Við það hækkar verð sem lýsir sér þannig að föt sem áður voru gefin til næstu fjölskyldu eða bara hent, þau enda núna í búðarhillu í næstu „loppu“.

Á sama tíma hljótum við að geta gert ráð fyrir því að eftirspurn eftir nýjum fötum lækki. Það þýðir minna magn keypt og samkvæmt líkaninu er verð á nýjum fötum líka að lækka. Það hlýtur að vera langsótt að þessar auknu vinsældir Barnaloppunnar nái að þrýsta niður verð á nýjum barnafötum eins og líkanið hér að ofan sýnir. Föt sem nánast öll eru innflutt frá stórfyrirtækjum. Og það er langsótt. Framboðskúrfan á markaðinum fyrir ný barnaföt er líklega miklu teygnari en þessi mynd gefur til kynna og dæmið er því líklegra til að vera einhvernvegin svona:

Eftir þessa lagfæringu þá sjáum allt aðra stöðu á markaðinum fyrir ný barnaföt. Verðið lækkar frekar lítið miðað við fyrra líkan en magnbreytingin eykst. Það skal þó tekið fram að hér eru áhrif Barnaloppunar á eftirspurn eftir nýjum vörum líklega ýkt en ómögulegt er að segja til um hvernig þessi þróun endar. Veltum því aðeins fyrir okkur stöðunni sem við horfum hér á. Hvað þýðir það fyrir verslanir eins og Barnaloppuna ef að fólk fer að draga töluvert úr kaupum sínum á nýjum barnafötum? Við gætum vel ímyndað okkur að minnkandi eftirspurn eftir nýjum barnavörum hafi á endanum áhrif á framboð fyrir notuðum fötum. Fötin í Barnaloppunni voru jú upprunulega keypt ný, og það hljóta vafalaust að vera einhver takmörk fyrir því hversu oft Lindex samfellan getur fengið endurnýjun lífdaga í Barnaloppunni. Við gætum því séð „Barnaloppu markaðinn“ þróast á þennan veg:

Eftir að nýbakaðir foreldrar verða uppiskroppa með föt til að selja í „loppunum“ þá byrja verðin að hækka á sama tíma og magnið dregst saman. Hvaða áhrif mun það svo hafa? Gæti þessi verðhækkun haft áhrif á eftirspurn eftir nýjum barnafötum? Gætu vinsældir Barnaloppunar til langs tíma orðið henni að falli? Svo svara megi þessum spurningum þyrfti að ráðast í frekari rannsóknir. En það sem dró áhuga minn að þessu viðfangsefni er sú staðreynd að hér gætum við verið með tvo markaði þar sem eftirspurn tengist í gegnum staðkvæmdar áhrif. Þar að auki gæti verið að til langs tíma litið sé framboðskúrfan á öðrum markaðnum háð eftirspurninni í hinum sem er áhugavert twist í málið. Gæti því mögulega verið fróðlegt að halda áfram að fylgjast með eftirspurnarkúrfum í „Barnaloppumarkaðinum“!?

Gylfi Þór Sigurðsson

Pistlahöfundur

Gylfi Þór er hagfræðingur frá Háskóla Íslands. Hann er fyrrverandi framkvæmdastjóri Stúdentaráðs Háskóla Íslands en starfar núna hjá tryggingarfélagi. Áhugamál hans eru félagsstörf, ferðalög og líkamsrækt.