Reiknaðu þinn sparnað

eftir Kristófer Már Maronsson

Tæpur mánuður er síðan að ég viðraði þá hugmynd að leyfa fólki að nýta lífeyrissparnað sinn til að aðstoða við kaup á húsnæði. Greinin fékk gífurlega athygli, aðallega jákvæða, dreifingin var mikil og umræðan ekki síður. Í ljósi þeirrar umræðu sem skapaðist út frá greininni hef ég mótað hugmyndina enn frekar út frá gagnrýni og ábendingum sem mér hafa borist. Það mætti því eiginlega segja að hugmyndin sé komin í gegnum fyrstu umræðu þjóðarinnar, þó hún sé ekki komin í gegnum hana á Alþingi.

Nú finnst mér tímabært að hefja aðra umræðu og til þess að hjálpa fólki að sjá stóru myndina höfum við sett upp reiknivél fyrir húsnæðislán með jöfnum afborgunum. Hana má finna með því að fara inn á www.romur.is/fasteign eða smella á myndina hér að neðan. Hugmyndin hefur tekið nokkrum breytingum frá því hún kom upphaflega fram til þess að koma til móts við gagnrýni og ábendingar sem ég hef fengið, líkt og áður sagði. Betur er farið yfir breytingarnar hér að neðan.

Í reiknivélinni getur þú skoðað þrjú raunhæf dæmi um húsnæði sem henta vel í fyrstu íbúðakaup. Þá geturðu einnig slegið inn þínar eigin forsendur og reiknað þinn sparnað. Þrír mikilvægustu þættirnir í reiknivélinni eru kaupverð, laun heimilisins og hversu lengi þú ætlar að spara fyrir útborgun með lífeyrisgreiðslunum þínum – en reiknivélin segir þér þá hversu há sú upphæð verður og hversu mikið þú þarft að leggja fyrir sjálf/ur. Flestum öðrum forsendum er hægt að breyta, en til einföldunar hafa verið valin algeng upphafsgildi þar sem að forsendurnar eru nokkrar – þér er velkomið að sérsníða þetta eins vel og mögulegt er að þínum þörfum.  

Gagnrýni sem hefur litið dagsins ljós

Í fyrsta lagi þá bentu margir réttilega á að þessi aðferð leysti ekki það vandamál að geta ekki safnað fyrir útborgun, en fleiri eiga erfitt með að safna fyrir útborgun heldur en að komast í gegnum greiðslumat. Þetta er réttmæt gagnrýni sem ég ákvað að taka tillit til í nýjustu útgáfu hugmyndarinnar. Þá er hægt að leggja fyrir í eins marga mánuði og þörf er á, en þessir mánuðir dragast þá frá þeim mánuðum sem hægt er að borga inn á höfuðstólinn. Viðkomandi stillir því einfaldlega skiptinguna eftir þörfum, ef þú vilt leggja fyrir í 36 mánuði, þá geturðu einungis greitt inn á höfuðstólinn í 48 mánuði.

Eins og glöggir lesendur taka eftir, þá geri ég ráð fyrir 84 mánuðum í heildina í dæminu hér að ofan. Það þýðir að árunum hefur fjölgað úr fimm árum upp í sjö en á móti kemur 8% lífeyrissparnaðar yrði áfram greiddur til lífeyrissjóða og greiðslur inn á húsnæðislánið lækka sem því nemur. Ef allur lífeyrissparnaðurinn yrði greiddur inn á höfuðstólinn þá væri ekki verið að borga neina samtryggingu á meðan.

Samtryggingin er eins og nafnið gefur til kynna trygging, hún veitir réttindi til örorku-, maka- og barnalífeyris í hinum ýmsu tilvikum ef fólk lendir í skakkaföllum. Það þýðir, að ef einhver yrði t.d. öryrki á meðan hann borgar inn á lánið sitt fengi viðkomandi ekkert frá lífeyrissjóðnum. Það tekur nefnilega 3 ár að safna sér réttindum til örorkugreiðslna sem falla úr gildi ef ekkert er greitt í lífeyrisjóð í meira en eitt ár samfleytt. Þó áhættan blikni í samanburði við ávinninginn, þá stjórnum við ekki örlögum okkar – ég, þú eða einhver náinn okkur gæti orðið öryrki á augnabliki.

Frjálsi Lífeyrissjóðurinn og Almenni Lífeyrissjóðurinn skipta lífeyrinum þannig að af 12% fara 8% í samtryggingu en 4% fara í séreign – ef þeir geta skipt þessu á þann veg þá hljóta aðrir lífeyrissjóðir að geta gert það líka. Fyrir liggur að samkomulag hefur náðst milli aðila á vinnumarkaði þess efnis að hækka lífeyrisgreiðslur í skrefum upp í 15,5%. Því er tillagan sú að borga 8% á mánuði í lífeyrissjóð, en afganginn verði hægt að nota til að hjálpa okkur við húsnæðiskaupin þ.e. 7,5% af almennum lífeyrissjóðssparnaði auk séreignarsparnaðrins sem er 6%. Það verða því 13,5% í sjö ár sem hægt er að nýta til kaupa á fasteign.

Eftir þessar breytingar finnst mér hugmyndin því vera tilbúin til annarrar umræðu og vona að viðtökurnar verði áfram góðar. Ég hvet því sem flesta til þess að prófa reiknivélina og sjá hversu mikið hægt er að spara. Það er heill hellingur og ég tel að þessi breyting myndi gjörbreyta íslensku samfélagi til hins betra.

Ljósmynd eftir Håkon Broder Lund.

Reiknivélina forrituðu og hönnuðu Daníel Freyr Hjartarson, Guðjón Kári Jónsson, Hilmar Örn Hergeirsson og Maron Kristófersson í samstarfi við mig.

Kristófer Már Maronsson

Pistlahöfundur

Kristófer Már er tveggja barna faðir sem stundar nám við Hagfræðideild Háskóla Íslands og starfar samhliða við viðskiptaþróun hjá aha.is. Hann var formaður Stúdentaráðs Háskóla Íslands frá 2016-17 en var skólaárið 2015-16 framkvæmdastjóri Stúdentaráðs og formaður Ökonomiu, félags hagfræðinema við háskólann. Áður var hann markaðsstjóri nemendafélags Verzlunarskóla Íslands. Meðal áhugamála Kristófers Más eru knattspyrna, hagfræði og skák. Skrif hans í Rómi beinast einkum að hagfræði, fjármálum og hagsmunabaráttu ungs fólks.