Refskák Pírata

eftir Elís Orri Guðbjartsson

Í Alþingiskosningunum 2013 fengu Píratar 5.1% atkvæða og þrjá menn inn á þing. Strax frá Alþingiskosningunum var fylgi Pírata stöðugt, en þó sóttu þeir fljótlega í sig veðrið og höfðu tvöfaldað fylgið ári síðar. Það var svo í byrjun árs 2015 sem tala má um að Píratar hafi fengið storm í bakið, því svo kröftugur var meðbyrinn, og eins og sönnum sjóræningjum sæmir voru seglin hífð upp mastrið og hefur flokkurinn síðan siglt eins og skonnorta undir fullum seglum um Íslandsmið. Mest hefur flokkur mælst með tæp 40% í könnun MMR og er því óhætt að segja að þingmennirnir þrír standi sína plikt, og gott betur.

Stærsta áskorun Pírata er sú að skoðanakannanir vinna ekki kosningar, og þarf flokkurinn að hafa alla sína hæfustu einstaklinga uppi á dekki til að tryggja að fleygið komist vel og örugglega í gegnum brotsjóinn sem næstu Alþingiskosningar verða.

Nú hefur Helgi Hrafn Gunnarsson, einn af þremur þingmönnum Pírata, gefið það opinberlega út að hann muni ekki bjóða sig fram í komandi Alþingiskosningum. Helgi er þó síður en svo stokkinn frá borði, heldur mun hann, með sína skærgrænu fingur, beina kröftum sínum frekar að grasrót flokksins.

Helgi Hrafn, sem er án efa einn vinsælasti stjórnmálamaður landsins, er mikill hvalreki fyrir Pírata og lítur þorri landsmanna, leyfi ég mér að fullyrða, á hann sem andlit flokksins, fremur en Birgittu, sem skortir persónutöfra hins fyrrnefnda. Að missa skipstjórann úr brúnni verður Pírötum án nokkurs vafa erfiður ljár í þúfu.

Það sem hefur heillað mig, og eflaust fleiri, í framkomu Pírata er hversu mannleg og auðmjúk þau jafnast eru. Þegar fylgi Pírata óx hraðar en baunagrasið hans Jóa brostu þingmennirnir þrír vandræðlega út í annað og höfðu engar skýringar á stöðu mála, ekki frekar en sprenglærðir prófessorar innan veggja háskóla landsins.

Það kom mér því verulega á óvart þegar Ásta Guðrún Helgadóttir, þingmaður Pírata, sagðist í kvöldréttum Stöðvar 2 halda að brotthvarf Helga Hrafns myndi ekki hafa teljandi áhrif á fylgi flokksins. Sömu sögu er svo að segja af Jónasi Kristjánssyni, bloggara, sem tekur í sama streng og segir „hvarf Helga Hrafns af þingi ekki veikja pírata.“ Fyrr má nú aldeilis rota en dauðrota.

Blindur maður gæti séð að brotthvarf Helga Hrafns úr þingsalnum mun án nokkurs vafa hafa áhrif á fylgi Pírata. Helgi hefur verið burðarásinn í stjórnmálaflokknum um allnokkurt skeið og nú, þegar mest á reynir, lætur hann sig hverfa af stóra sviðinu og ábyrgðin færist fyrir vikið yfir á herðar annarra. Sjálfur væri ég í öngum mínum, þó sumir kollegar hans telja missi eins vinsælasta stjórnmálamanns Íslands engu máli skipta, og aðrir telja brotthvarfið mjög klókt.

Mér þætti gaman að vita hvað sparkspekingarnir Víðir Sig, Gummi Ben, Edda Garðars og Dr. Football, Hjörvar Hafliðason, myndu segja ef hryggjarsúlan í íslenska karlalandsliðinu hefði ákveðið að gefa ekki kost á sér á EM. Ég sé fjórmenningana ekki fyrir mér áhyggjulausa í sjónvarpi landsmanna að tilkynna þjóðinni að Hannes Þór, Raggi Sig, Aron Einar og Gylfi Sig hefðu ákveðið að skorast undan ábyrgðinni sem fylgir góðu gengi, og einbeita sér frekar að yngri landsliðum Íslands, þar sem það væri kannski betra fyrir íslenska knattspyrnu til lengri tíma.

Þegar mikilvægasti þriðjungur þingflokks Pírata, Helgi Hrafn, er búinn að ákveða að yfirgefa taflborðið, má velta fyrir sér hvaða refskák Píratar eru að tefla og hvort hún muni ekki reynast þeim afdrifarík.

 

Elís Orri Guðbjartsson

Pistlahöfundur

Elís Orri er meistaranemi í alþjóðastjórnmálum við London School of Economics (LSE). Hann tók virkan þátt í stúdentapólitíkinni í Háskóla Íslands og gegndi þar ýmsum trúnaðarstörfum, bæði f.h. Röskvu og Stúdentaráðs, ásamt því að sitja í stjórn ungliðahreyfingar stjórnmálaflokks. Hann er nautnaseggur af bestu gerð og nýtur sín best í góðra vina hópi, sérstaklega með rauðvínsglas í hönd.