Refsistefna félagslega kerfisins

eftir Ragnhildur Alda María Vilhjálmsdóttir

Þessi grein er önnur af fjórum sem ég skrifa um málefni öryrkja. Í þeirri fyrstu útskýrði ég hvernig öryrkjar og aðrir sem þurfa að þiggja bætur frá hinu opinbera þurfa að líða gríðarmikla og skaðlega fordóma. Þeir blikna hins vegar í samanburði við þá kerfisbundnu fordóma sem há bótaþegum. Á meðan starfsemi íslenskra fangelsa er rekin með betrunarstefnu að leiðarljósi, virðist íslenska félagslega kerfið aðhyllast refsistefnu.

Árið 2002 skipaði heilbrigðis- og tryggingamálaráðherra starfshóp um starfsendurhæfingu, þar sem tekið var saman það sem talið var mikilvægt fyrir árangursríka starfsendurhæfingu. Þar kom meðal annars fram að mikilvægt væri að grípa tímanlega inn í óvinnufærni, viðhalda tengslum einstaklinga við vinnumarkaðinn, auka samhæfingu allra samtryggingarkerfa, bjóða fjölbreytt starfsendurhæfingarúrræði sem byggja einstaklinginn upp líkamlega, andlega og félagslega til þess að  bæta stöðu hans á vinnumarkaði ásamt því að tryggja aðgang að starfsendurhæfingarúrræðum og fullnægjandi eftirfylgni þeirra.

Á hinn bóginn þóttu tálmanir árangurs meðal annars vera: Lág framfærsla og flókið framfærslukerfi sem ýtir einstaklingum óeðlilega snemma til að sækja um örorkubætur án þess að starfsendurhæfing hafi verið reynd, ekki nægilegt framboð á úrræðum og skortur á fjölbreytni, ófullnægjandi eftirfylgni og of lítið fjármagn. Einnig þótti endurhæfingarlífeyrir Tryggingastofnunar í mörgum tilvikum of skammvinnur og reglur atvinnuleysistryggingasjóðs um missi bótaréttar væru of stífar.

Í viðamikillri íslenskri rannsókn töldu um 21% örorkulífeyrisþega helstu hindranir fyrir atvinnuþátttöku sinni meðal annars vera tekjutengingar í lífeyriskerfi á meðan 15% nefndu eigið heilsufar. Einnig var nefndur ófullnægjandi stuðningur eða endurhæfing og skortur á eigin þori, trú og trausti til að taka þátt í atvinnulífinu. Í niðurstöðum annarrar íslenskrar rannsóknar kom fram að stór hluti öryrkja var annað hvort fátækur eða við fátæktarmörk. Þátttakendur lögðu áherslu á að geta lagt fé til hliðar sem er mikilvægt til að forðast fátækt. Það þótti ómögulegt vegna verðhækkana á þjónustu og nauðsynjavörum, ásamt frystingu bótagreiðslna og afnáms afsláttakjara. Efnahagsleg staða þeirra var þannig mjög viðkvæm gagnvart óvæntum útgjöldum eða frekara heilsuleysi. Flóknar tekjutengingar bótakerfisins gerðu þátttakendum einnig nánast ómögulegt að breyta fjárhagslegum aðstæðum sínum. Sá hópur sem var verst staddur voru barnafjölskyldur og þar af sérstaklega einstæðar mæður, sem leituðu frekar til hjálparstofnanna eftir matargjöfum og annarri aðstoð.

C’est la vie öryrkjar…

Ef ég myndi lenda í alvarlegu slysi þar sem ég yrði fyrir 75% örorku þá þyrfti ég að lifa á 236.616 kr. á mánuði. Ef ég væri ekki með barn á framfæri myndu mér reiknast heilar 207.000 kr. Þar sem ég á barn, fengi ég 29.000 kr. aukalega til þess að kaupa meiri mat, föt, skóladót, fara á læknavaktina. Ég gæti ekki leyft stráknum mínum að fara á íþróttanámskeið og þyrfti að gefa jólagjöf úr Tiger. Það ber að taka fram að ég er með 100% persónuafslátt á skattkortinu mínu, og færi því úr því að borga 91.675 kr. skatt (⅓ af öryrkjalífeyrnum mínum) yfir í 51.920 kr.

Einnig þarf að hafa í huga að öryrkjar þurfa að greiða fyrir húsnæði. Ég prófaði að skoða leigumarkaðinn og fann þar forláta 3 herbergja íbúð. Heilir 63 fermetrar á aðeins 170.000 kr. Þar sem ég á barn er jafnframt nær óraunhæft að vera án bíls. Ef ég er heppin borga ég aðeins 10.000 kr. á mánuði í tryggingar og eyði u.þ.b. 15.000 kr. í bensín með einkar miklum nirfilshætti á Yaris. Síðan má gera ráð fyrir með raunhæfum hætti að ég eyði um 50.000 kr. í mat á mánuði (ég borða aðallega egg, AB mjólk og pasta þar sem ég tími ekki að kaupa kjöt nema þá auðvitað beikon, og svo splæsi ég reyndar í French Roast frá Te&Kaffi… mea culpa). Þar sem ég væri öryrki þyrfti ég líka að eyða pening í sjúkraþjálfun, lækniskostnað, lyf, o.s.frv.

Dæmið gengur augljóslega ekki upp

Í raunveruleikanum vinn ég verslun í Kringlunni. Þar er ég með u.þ.b. 250.000 kr. í byrjunarlaun á mánuði. Ég, óþjálfaður starfsmaður í verslun, hef því hærra byrjunarkaup en einstaklingur með örorku neyðist til að lifa á.

Tekjutenging bóta þýðir að ef einstaklingur fær einhverjar aukatekjur verða bæturnar fyrir skerðingu. Sem dæmi má nefna konu sem ég kynntist nýlega, sem er með mjög mikla örorku. Hún þarf þar af leiðandi að vera mikið heima fyrir og þar sem hún er á örorkubótum hefur hún lítið á milli handanna til að gefa fjölskyldunni gjafir yfir hátíðarnar. Hún ákvað því að byrja að prjóna og varð ansi góð. Eitt sinn var henni boðið að búa til uppskrift og selja í þekkt prjónatímarit. Hún hamaðist við þetta og þurfti jafnvel að læra að búa til prjónauppskrift í tölvu, en eftir mikið streð fékk konan ánægð 50.000 kr. fyrir. Þar sem hún var þá verktaki fór helmingurinn í skatt. Hins vegar skerti þetta bæturnar hennar um 27.000 kr. þannig að hún endaði í tapi. Miður sín yfir þessari útkomu þorði hún ekki að taka að sér fleiri verkefni.

Á þennan hátt skerðir tekjutengingin tengsl fólks við atvinnulífið. Það er hagkvæmara fyrir fyrirtæki að ráða hlutastarfsfólk í fullt starf en að ráða nýtt óþjálfað starfsfólk. Því er sennilegt að þiggjendur fjárhagsaðstoðar og bóta sjái sér frekar fært að taka að sér hærra starfshlutfall ef þeir fá að taka að sér hlutastarf eftir eigin getu án tekjutengingar. Íslenskar rannsóknir sýna að þeir öryrkjar sem stunduðu launaða vinnu síðasta hálfa ár mátu heilsu sína frekar  góða en slæma, með marktækt meiri hætti en þeir sem ekki höfðu verið í vinnu. Erlendar rannsóknir sýna ennfremur að markvert dregur úr einkennum geðraskana við endurkomu á vinnumarkað, eftir stutt eða langvarandi atvinnuleysi. Heilsubætandi áhrif vinnu er einnig að finna hjá þeim sem glíma við mjög alvarleg geðræn veikindi, og þar sem flestir örorkulífeyrisþegar eru á bótum vegna geðsjúkdóma má segja að það sé til mikils að vinna.

Í rannsókn Rannsóknaseturs verslunarinnar við Háskólann á Bifröst var niðurstaðan sú að hagur ríkissjóður gæti vænkast við afnám tekjutengingar bóta öryrkja vegna launatekna. Að sögn verkefnastjóra rannsóknarinnar bendir allt til þess að tekjutenging dragi úr vilja til atvinnuþátttöku aldraðra og öryrkja. Ástæðan fyrir væntum hagnaði ríkissjóðs er sú að eftir því sem fleiri stunduðu launavinnu væri meiri skatttekjur að fá. Einnig var áætlað að bætur myndu aukast en á hinn bóginn ynni fólk að líkindum meira. Reiknað var út að árið 2005 hafi 12.755 manns þegið örorkulífeyri. Ef það væri gert ráð fyrir að atvinnuþátttaka þeirra yrði 10% og þeir hefðu meðallaun í tekjur, gæti hagur ríkissjóðs batnað um 1.140 milljónir króna á ári (miðað við verðlag ársins 2007) við það að afnema tekjutengingu bóta til örorkulífeyrisþega. Þessi tala væri sennilega hærri núna, þar sem skattar á lágtekjuhópa og jaðarskattar hafa hækkað mikið undanfarna áratugi.

Einn maður sem sá um að lagfæra hugbúnaðarkerfi TR, taldi 239 breytur sem hafa áhrif á útgreiðslu úr kerfinu: 239 leiðir til að skerða bætur þeirra sem fá um 200.000 kr. á mánuði.

Nánast allar greiðslur og tekjur sem öryrkjar fá geta haft áhrif á útreikning bóta. Því er mjög erfitt, bæði fyrir bótaþega og áhugafólk eins og mig, að átta sig á bótakerfinu. Í rannsókn á aðstæðum öryrkja kom í ljós að tekjutengingar bóta gerðu það að verkum að talsvert stór hópur þátttakenda hafði fengið ofgreiddar bætur (það t.d. hafði launatekjur yfir ákveðnu marki) og var rukkað um endurgreiðslur. Slíkt gat sett fjárhag fólks í mikið uppnám og gerði það auk þess að verkum að það var erfitt fyrir fólk að hafa yfirsýn yfir og skipuleggja fjármál sín.

Tekjutengingar draga því ekki einungis úr atvinnuvilja fólks og standa í vegi fyrir endurhæfingu þess og bata, heldur festa þær einnig fólk í fátæktargildum sem er mjög erfitt að losna úr. Þegar einstaklingur lendir í slysi þarf hann tíma til að mjaka sér hægt og rólega á vinnumarkaðinn eftir líkamlegri getu. Eina leiðin fyrir öryrkja til að komast út úr þessum aðstæðum er því að annað hvort verða fyrir kraftaverki: ná fullri heilsu og komast strax í fullt starf, eða að vinna í lottó. Ég veit ekki hvort er ólíklegra.

Já, það eru dýr ríkisútgjöld að greiða örorkubætur, en ríkið er eiginlega að skjóta sig í fótinn þegar það beitir kerfi sem refsar fólki sem reynir að komast aftur á vinnumarkaðinn. Þessi refsistefna heldur fólki ekki bara lengur í örorku, heldur líka fátækt. Bæði tvennt er vægast sagt mjög óhagkvæmt nú og til framtíðar. Líkt og kom fram í niðurstöðum starfshóps heilbrigðis- og tryggingamálaráðherra, sem ég vitnaði í hér að ofan, auka þessar aðstæður á félagslegan, andlegan og samfélagslegan vanda öryrkja. Það bæði eykur og lengir örorku þeirra. Stór hluti öryrkja eru jafnframt með börn á framfæri. Í íslenskri rannsókn á ungmennum sem ólust upp undir forsjá örykja sýndu flest öll ungmennin einkenni álags og önnur sállíkamleg einkenni, vanlíðan í skóla og félagslega einangrun sökum tíðra flutninga vegna þörf á ódýrara húsnæði. Auk minni þátttöku í tómstundum vegna skorts á fjármagni og hvatningu, upplifa þau einnig einangrun fjölskyldunnar frá samfélaginu vegna skeytingarleysis félagsþjónustunnar á málum þeirra. Áhrif fátæktar gæta því víða og þeim fylgir oft mikill kostnaður til lengri tíma. Þá spyr ég, eru tekjutengingar þessi virði?

En ef öryrkjar vilja vinna, en komast ekki út á vinnumarkaðinn vegna heilsuleysis af hverju fara þeir ekki bara í endurhæfingu? Þessu verður svarað næst í næsta pistli – stay tuned!