Popúlismi á kostnað frjálsyndis

eftir Ritstjórn

Margir ráku upp stór augu á laugardagskvöld þegar fyrstu tölur bárust úr Suðurkjördæmi í alþingiskosningum. Tölurnar sem komu upp úr kjörkössunum voru um margt ólíkar því sem áður hafði verið spáð og upphafið að afar langri kosningavöku fyrir marga frambjóðendur og tilvonandi þingmenn. 

Tveir nýjir flokkar náðu mönnum á þing, einn datt út af þingi og ríkisstjórnarflokkarnir misstu alls 12 þingmenn. Sjálfstæðisflokkurinn missti 5 þingmenn og er niðurstaðan sú næstversta í sögu flokksins. Vinstri grænum fataðist flugið eftir feykilega siglingu framan af kosningabaráttu og bættu aðeins við sig einum þingmanni. Inga Sæland grét Flokk fólksins inn á þing með eftirminnilegri frammistöðu í leiðtogaumræðum RÚV á föstudagskvöld.

Þegar leiðtogar flokkanna stigu fram úr rúminu í gær hófst einkennileg atburðarrás þegar hver þeirra á fætur öðrum kepptist við að lýsa annað hvort yfir sigri eða varnarsigri síns flokks. Í pottinum eru þó aðeins hundrað prósent og þingsætin 63. Þannig er ljóst að til þess að einhver einn vinni þarf annar að tapa. Þegar betur er að gáð, er kýrskýrt að taparar þessara kosninga eru ríkisstjórnarflokkarnir. Í því skiptir engu hvaða sögu formaður Sjálfstæðisflokksins reynir að skapa með því að lýsa yfir „varnarsigri”. Í raun galt Sjálfstæðisflokkurinn afhroð og vert er að spyrja sig hvort formaðurinn lýsi nú yfir hinum svokallaða „varnarsigri” til þess að vernda stöðu sína innan flokks síns sem veikist í sífellu. Landsfundur Sjálfstæðisflokksins verður haldinn á fyrstu mánuðum næsta árs og það verður forvitnilegt að sjá hvernig mál teiknast upp í aðdraganda hans.

Þó auðvelt sé að benda á taparana er öllu erfiðara að krýna sigurvegara því ekki var það hægri hlið stjórnmálanna sem sigraði en heldur ekki vinstri hliðin. 

Popúlisminn sigrar

Fyrir rétt tæpu ári þótti það stórsigur fyrir Íslendinga að hafna þjóðernispopúlisma sem Íslenska þjóðfylkingin boðaði. Slík stefna átti ekki upp á pallborðið í þessum kosningum og fengu forsvarsmenn flokkanna í raun aldrei tækifæri til þess að boða kjósendum fagnaðarerindið þar sem Íslenska þjóðfylkingin dró meðmælalista sína til baka áður en náðist að fara yfir þá.

Þótt kjósendum hafi ekki gefist færi á að hafna Þjóðfylkingunni öðru sinni er ekki þar með sagt að þeim hafi tekist að forðast þá bylgju popúlisma sem hefur riðið yfir heimsbyggðina alla. Það er deginum ljósara að Miðflokkurinn og Flokkur fólksins eru ótvíræðir sigurvegarar þessa kosninga. Báðir hafa þeir reitt fram töfralausnir sem ætlað er að leysa hin ýmsu vandræði sem steðja að íslensku samfélagi líkt og hendi sé veifað. Þegar betur er gáð eru hugmyndirnar varla meiri töfrar en krónan sem afar og ömmur finna stundum á bakvið eyru barnabarna sinna.

Framganga flokkanna tveggja dugði þó til og hinn popúlíski armur stjórnmálanna dró til sín 18% atkvæða. Aðeins tíminn mun leiða það í ljós hvort popúlisminn sé kominn til að vera eða hvort hann sé nægilega lasburða til þess að stuðningsmenn flokka á borð við Miðflokkinn og Flokk fólksins tvístrist í sitthvora áttina aftur.

Frjálslyndið tapar

Niðurstöður alþingiskosninganna fyrir ári síðan voru ótvíræður sigur frjálslyndra gilda, en þá sóttu í sig veðrið flokkar sem mætti kalla frjálslynda, eða höfðu í það minnsta frjálslynda þingmenn innanborðs. Þetta  varð til þess að það sem einhverjir kölluðu hægrisinnuðustu ríkisstjórn allra tíma, var mynduð. Deila má um hver afrakstur samstarfsins varð að lokum og hvort hún hafi yfir höfuð fengið tækifæri til þess að láta til sín taka. Þó verður ekki sagt að hún hafi verið sérstaklega hægri sinnuð, en það er efni í annan og lengri pistil.

Nú er annað upp á teningnum. Þegar úrslit kosninganna 2017 liggja fyrir er ljóst að málsvörum frjálslyndra sjónarmiða hefur fækkað og það töluvert. Með brotthvarfi þingmanna á borð við Pawel Bartoszek og Unni Brá Konráðsdóttur er þingheimur fátæklegri fyrir vikið.

Ákvörðun frjálslynda miðjuflokksins Bjartar framtíðar um að slíta ríkisstjórninni var afdrifarík. Ekki aðeins fyrir flokkinn sjálfan sem hvarf með öllu úr þingheimum, heldur einnig vægi frjálslyndra sjónarmiða á Alþingi sem Björt framtíð ákvað að hafa með sér í gröfina.

Allir tapa

Síðast en ekki síst eru það stórkostleg vonbrigði að sjá hlut kvenna og ungs fólks minnka á Alþingi, en aðeins 24 konur eru nú í hópi þingmanna og eru þær sex þingmönnum færri en áður. Fyrir ári síðan var markverðum árangri náð að þessu leyti og var það von flestra að það væri slíkur fjölbreytileiki væri kominn til að vera, allavega lengur en í eitt ár. Þvert á móti situr nú á bekkjum þingsins einsleitur hópur miðaldra og eldri karlmanna.

Þegar litið er yfir sviðið er erfitt að telja sér trú um að samsetning Alþingis sé betur til þess fallin að koma frjálslyndum málefnum á dagskrá. Það er miður og til mikillar mæðu fyrir alla.

Ritstjórn

Ritstjórn

Ritstjórn Róms skipa Björn Már Ólafsson, Ísak Rúnarsson, Tryggvi Másson, Erla María Tölgyes, Jónína Sigurðardóttir og Oddur Þórðarson.