Popúlísk sveifla

eftir Ritstjórn

Síðastliðin vika var lognið á undan stormi kosningaloforðanna. Fátt var í fréttum, ekki tókst öllum flokkum að birta fullbúna framboðslista og fá ef nokkur málefni komu fram á sjónarsviðið.

Svo lítið var í fréttum að Fréttablaðið hóf vikuna á því að reyna að búa til fréttir með afbrigðilegum túlkunum á nýjum tölum Hagstofu Íslands um launaþróun. Á þriðjudaginn bar forsíðufrétt Fréttablaðsins fyrirsögnina: „Hæst launuðu fengu hæstar launahækkanir”. Þannig var vísað til þess að þeir sem voru með hæst laun hafi fengið hærri krónutöluhækkanir á sínum launum heldur en þeir tekjulægstu árunum 2014-2016. Ef hins vegar er litið til hlutfallslegrar hækkanna í launum má sjá að laun þeirra tekjulægstu hafa hækkað meira en þeirra tekjuhæstu.

Í sömu frétt kvað Vilhjálmur Birgisson, verkalýðsforkólfur á Akranesi, prósentuhækkanir aflgjafa miskiptingar í hagkerfinu. Þetta sagði hann eftir að hafa sjálfur unnið að og skrifað undir kjarasamninga sem lögðu sérstaka áherslu á að hækka lægstu laun hlutfallslega meira en þeirra sem eru með hærri laun. Það var verðugt markmið sem hefði geta leitt til sambærilegra launahækkanna upp allan launastigann, en gerði ekki. En í stað þess að viðurkenna árangurinn þá kom verkalýðsforinginn sér fyrir í hinum popúlísku skotgröfum, enn einu sinni.

Óábyrgt tal sem þetta grefur undan trúverðugleika vinnumarkaðarins og dregur enn frekar úr líkunum á því að hér takist að taka upp sjálfbært vinnumarkaðskerfi að norrænni fyrirmynd, þar sem launahækkanir eru í prósentum leiddar af vexti hagkerfisins og útflutings (sem eru líka mæld í prósentum).

Atkvæði til sölu

Verkalýðsforkólfurinn á Akranesi lét ekki þar við sitja heldur hélt fund fyrir hálftómum sal í Háskólabíó í gær sem bar heitið: ,,Guð blessi heimilin: Okurvextir og verðtrygging, mesta böl heimila þjóðarinnar”. Vilhjálmur stóð ekki einn að fundinum, þótt það mætti halda það miðað við mætinguna, heldur var Ragnar Þór Ingólfsson, formaður VR, stærsta verkalýðsfélags á Íslands einnig einn skipuleggjenda.

Allt frá því að Ragnar Þór náði kjöri sem formaður VR fyrr á þessu ári hafa þeir Vilhjálmur sameinast um popúlískan og villandi málflutning í ýmsum efnum. Sem dæmi má nefna afnám verðtryggingarinnar, líkt og yfirskrift fundarins í gær gaf til kynna. Á fundinum tilkynnti Ragnar Þór, (aftur, formaður stærsta verkalýðsfélags á landinu), að atkvæði sitt væri til sölu til þeirra sem ætluðu að afnema verðtrygginguna. Málflutningur Ragnars um að hér sé hægt að stórbæta lífsgæði Íslendinga með því að afnema verðtrygginguna og okurvexti með einu pennastriki er óábyrgt og beinlínis rangt eins og Rómverjar hafa ítrekað bent á. [1][2][3].

Hugmyndir í þessa veru eru ekki nýjar af nálinni, en þeir sem hafa barist fyrir slíku hafa oftast gert það með framboði til Alþingis. Oftar en ekki hefur almenningur séð í gegnum hann, til að mynda fyrir tæpu ári þegar Ragnar Þór bauð sig fram fyrir Dögun í Suðvesturkjördæmi, en hlaut aðeins 1,68% atkvæða.

Uppgangur popúlismans

Hugmyndir á borð við afnám verðtryggingarinnar hafa síðustu ár verið auðkeyptar af kjósendum. Nærtæk dæmi um það eru Besti flokkurinn og leiðrétting Sigmundar Davíðs Gunnlaugssonar, fyrrum formanns Framsóknarflokksins. Segja má að þessar hugmyndir hafi markað ákveðið upphaf í uppgangi popúlismans á Íslandi. Hann hefur nú náð kjölfestu í íslenskum stjórnmálum og fyrirséð er að popúliskir stjórnmálaflokkar hljóti töluvert brautargengi í komandi kosningum, jafnvel meira en á undanförnum árum.

Þó svo að hugmynd Sigmundar Davíðs um leiðréttinguna hafi verið popúlísk þá verður ekki hægt að segja að Framsóknarflokkurinn sé popúlískur í eðli sínu, hvað þá eftir brotthvarf Sigmundar. Það sama má segja um marga aðra flokka, en popúlískum hugmyndum hefur verið beitt til þess að laða að kjósendur lengur en elstu menn muna.

Sú staðreynd, að hver popúlíski flokkurinn á fætur öðrum spretti hér upp á fætur öðrum, er nýlunda og hvað þá að umræddir flokkar hljóti brautargengi. Í kosningunum 2013 kom á sjónarsviðið nýr flokkur sem í eðli sínu er popúlískur svo sem með andúð sinni gegn núverandi valdaskipulagi og hinni spilltu elítu og fátt sem bendir til þess að hann sé að hverfa af sjónarsviðinu. Fyrir rúmu ári síðan kom Inga Sæland inn í íslensk stjórnmál eins og stormsveipur með róttækar hugmyndir. Hún komst ekki á þing með sinn flokk, Flokk fólksins, en hefur síðan þá náð að draga að sér töluvert fylgi.

Síðastur og alls ekki sístur er það svo nýr flokkur Sigmundar Davíðs Gunnlaugssonar, Miðflokkurinn sem er í raun stofnaður utan um persónu Sigmundar. Frá því að Sigmundur hrökklaðist frá völdum sem forsætisráðherra hefur hann náð að gera mikið fórnarlamb sjálfum sér, fórnarlamb hinnar spilltu elítu. Líkt og fram hefur komið þá hefur Sigmundur áður komið fram með popúlískar hugmyndir s.s. leiðréttinguna en innan flokks sem hefur verið leiðandi í mótun íslensks samfélags í áranna rás.

Nú hefur komið í ljós að hinn nýji flokkur hefur talsvert aðdráttarafl og fylgi að baki sér. Samanlagt fylgi Miðflokksins og Framsóknarflokksins er töluvert hærra en Framsóknarflokkurinn fékk í síðustu Alþingiskosningum. Enn er lítið um málefni sem Miðflokkurinn hefur lagt fram en Sigmundur hefur lofað því að hann hafi upp í erminni stórkostlegt loforð tengt fjármálakerfinu sem við eigum eftir að sjá von bráðar.

Hvort það verði eitthvað á par við það sem félagar hans í verkalýðshreyfingunni boða verður að koma í ljós en það er nokkuð ljóst að uppgangur popúlisma á Íslandi er víðar en fólki grunar. Þó svo hér sé ekki um að ræða þjóðernispopúlisma á borð við þann sem hefur náð að ryðja sér til rúms í Evrópu og Bandaríkjunum þá er engu að síður mikilvægt að hafa augu og eyru vel opin og vera var um gylliboð sem eiga ekki eftir að verða þjóðinni til hagsbóta til lengri tíma litið.