Pöddulíf

eftir Elín Margrét Böðvarsdóttir

Nú þegar vorar fer í auknum mæli að verða vart við fjöldann allan af skordýrum. Þó pöddurnar séu ef til vill meira áberandi á vorin og yfir sumarmánuðina þá leynast þær bókstaflega út um allt, allt árið um kring og af og til dúkka þær upp kollinum. Ég er komin með upp í kok af pöddum.

Fréttir af því að hvorki meira né minna en sautján af bæði núverandi og fyrrverandi kvenráðherrum í Frakklandi hafi sent frá sér yfirlýsingu þess efnis að þær ætluðu að hætta að þegja yfir kynferðislegri áreitni fékk mig til að hugsa. Ég ætla því að fara að þeirra fordæmi og hætta að þegja. Sú staðreynd að valdamiklar konur í þróuðu lýðræðisríki verði einnig fyrir kynferðislegri áreitni í starfi sínu hlýtur að gefa til kynna hvað við erum í raun stutt á veg komin. Í sakleysi mínu hélt ég fyrir alvöru að eftir því sem maður verður eldri og áhrifameiri drægi töluvert úr líkunum á slíku, en sú virðist ekki vera raunin.

Ógeðslegur hluti af hversdagsleikanum

Allt frá „saklausum” sexist athugasemdum upp í það sem kalla má kynbundið ofbeldi er daglegt brauð í lífi kvenna, og í sumum tilfellum karla, sama hvaða stöðu, stétt eða aldri þau tilheyra, alls staðar í heiminum. Hér á Íslandi er ástandið jafnan töluvert betra en víðast hvar annars staðar í heiminum en þó fjarri því að vera ásættanlegt. Finnst okkur það í lagi?

Þetta er svolítið eins og með pöddur. Það er alveg hægt að venjast þeim, við vitum vel að þær eru þarna og stundum angra þær okkur. Þær eru hluti af hversdagsleikanum en þær hætta samt aldrei að vera ógeðslegar. Ólíkt skordýrum, þá er kynferðisleg áreitni ekki eitthvað sem nokkuð mannsbarn ætti að venjast.

Sem dæmi, af hverju í ósköpunum ættum við vera hræddar við að labba einar heim að kvöldlagi? Jú, vegna þess að ef þú labbar ein heim í gegnum garðinn, þá getur þú verið stungin af býflugu. Hver er ekki kominn með nóg af því að þurfa að haga lífi sínu í takt við það norm að það vera áreittur á förnum vegi sé daglegt brauð? Ég er að minnsta kosti hætt að nenna því.

„Svona er þetta bara, þið verðið bara að læra að lifa með þessu,” sagði vonandi enginn aldrei, en þannig er það nú bara samt að því er virðist.

Eflaust þykir einhverjum óviðeigandi að líkja mannfólki við pöddur, gott og blessað. Aftur á móti þykir mér kynferðisleg áreitni meira óviðeigandi og leyfi ég mér því að notast við þessa viðlíkingu í þetta skiptið.

Beinn og óbeinn skaði

Annað sem mikilvægt er að hafa í huga er að pöddurnar valda ekki aðeins beinum skaða heldur hafa þær einnig í för með sér ákveðnar aukaverkanir. Það að kynferðisleg áreitni sé jafn algeng og raun ber vitni getur haft það í för með sér að blásaklausir einstaklingar í vingjarnlegum erindagjörðum, góðu skordýrin, séu gerð tortryggileg. Það er ekki síður grafalvarlegt. Við viljum ekki mæta náunganum af tortryggni eða hafa nokkurn fyrir rangri sök og þess vegna er mikilvægt pöddurnar hverfi af braut. Pöddurnar sem í fyrstu geta virst nokkuð meinlausar en eru það ekki, þær sem eru snýkjudýr og loks þær sem geta stungið og skilið eftir ör, það eru pöddurnar sem við viljum losna við.

Í þessu samhengi er eini hæfi meindýraeiðirinn í starfið, eins og með svo margt annað og afsakið klisjuna; samtakamáttur samfélagsins, vitundarvakning, hugarfarsbreyting og almenn mannsæmandi hegðun. Því tel ég aldrei of oft á þetta minnt þar til ástandið batnar. Já, ég er hvít forréttindafrekja frá Íslandi að biðja um aukið réttlæti. Af því ég má það og af því þetta varðar okkur öll. Ég þoli ekki pöddulíf. Hættum að vera pöddur.

Megi vorboðinn breiða út boðskapinn.

Elín Margrét Böðvarsdóttir

Pistlahöfundur

Elín Margrét er nemi í stjórnmálafræði við Háskóla Íslands og fréttamaður á Stöð 2. Hún starfaði áður sem blaðamaður á mbl.is og Morgunblaðinu og ritstýrði Stúdentablaðinu skólaárið 2016-2017. Hún er einn stofnenda og fyrrverandi varaformaður ungmennaráðs UN Women á Íslandi og hefur einnig tekið þátt í starfi Vöku fls.