Plastpokalaus sveitarfélög

eftir Elís Orri Guðbjartsson

Metnaður þykir mér ótrúlega heillandi eiginleiki í fari einstaklinga. Raunar má yfirfæra metnaðinn yfir á nánast hvað sem er. Mér þykja metnaðarfullir skólar heillandi, sömuleiðis metnaðarfull fyrirtæki, metnaðarfull sveitarfélög og svona mætti lengi telja.

Metnaður er að því sögðu ekki línulegt fyrirbæri. Þó þú sért metnaðarfullur er ekki sjálfgefið að þú munir skara fram úr á einum vettvangi eða öðrum. Það er nefnilega ekki nóg að vera einungis metnaðarfullur, heldur þarf að stefna að markmiðum og þeim þarf að ná. Eins og Árelía Eydís, dósent við HÍ og lífsspekúlant, skrifar svo réttilega: „Mikilvægasta markmiðasetningin snýr að því að finna tilgang sinn.“

Árelía var vissulega að tala um markmiðasetningu manneskjunnar, en mig langar að yfirfæra þessa einu setningu yfir á sveitarfélög. Sveitarfélög sem hafa sett sér framsækin markmið um eigin tilgang og áætlanir um hvernig eigi að ná þeim hlýtur að vera gulls ígildi fyrir þá sem þar búa.

Plastpokavá

Samkvæmt Upplýsingaskrifstofu Sameinuðu þjóðanna fyrir Vestur-Evrópu hendum við íslendingar sjötíu milljónum plastpoka árlega. Nú er ég hvorki Smári McCarthy né Ásta Guðrún Helgadóttir, en ég er nokkuð viss um að það geri rúmlega 212 plastpoka á mann og það er helvíti mikið, er það ekki? Í ljósi þess að það getur tekur plastpoka allt að fimm hundruð ár að brotna niður í náttúrunni, þá myndi ég ætla það.

Miðað við lífaldur íslenskra karla í dag má reikna með að sá plastpoki sem ég kaupi þegar ég gleymi fjölnota innkaupapokanum mínum verði við það að hverfa af yfirborði jarðar þegar barna-barna-barna-barna-barnabarnið mitt verður á dánarbeðinu. Já, á dánarbeðinu. Plastpokar eru náttúruvá af verstu sort, og þess vegna er sorglegt að á þessum rúmlega sextán árum sem hafa liðið frá aldarmótunum 2000 hefur meira plast verið framleitt en á allri 20. öldinni.

Frumkvöðlarnir

Ég held að ég sé ekki að ljúga einu né neinu þegar ég segi að Stykkishólmur hafi riðið á vaðið og orðið fyrsta plastpokalausa sveitarfélagið. Það var virðingarvert markmið sem sveitarstjórn Stykkishólm setti sér og ánægjulegt að það hafi gengið, og gangi, eins vel og raun ber vitni, en bærinn var m.a. tilnefndur til náttúru- og umhverfisverðlauna Norðurlandaráðs.

Sömuleiðis má nefna að Hafnarfjarðarbær, með Margréti Gauju fremsta meðal jafningja, er einnig mjög framarlega þegar kemur að því að halda plastpokum í skefjum. Hafnarfjarðarbær ákvað t.a.m. að gefa íbúunum hvetjandi spark í rassinn og færa hverju einasta heimili fjölnota innkaupapoka þeim að kostnaðarlausu.

Í Hornafirði er stemningin örlítið heimilislegri en þar var taupokum komið fyrir í öllum verslunum í sveitarfélaginu þannig að þeir sem gleymdu fjölnota innkaupapokanum þyrftu ekki að naga sig í handarbökin og kaupa plastpoka fullir sektarkenndar. Þess í stað bíður þeirra taupoki sem þau geta fengið að láni og skilað eftir eigin hentisemi.

Dropinn holar steininn

Svo má einnig velta því upp hvort það skipti einhverju máli í stóra samhenginu hvort íslendingar brúki plastpoka eða ekki, þegar fjöldinn er ekki meiri en raun ber vitni. Varla eru rúmlega tvö þúsund hræður í Hornarfirði að fara að stöðva þá hnattrænu hlýnun sem hefur sprottið úr spori síðustu áratugi eða breyta gangi himintunglanna. Eða hvað?

Það væri ekki í fyrsta sinn sem við íslendingar breytum hinu alþjóðlega litrófi, en það gerðum við m.a. þegar við vorum fyrst allra þjóða til að viðurkenna sjálfstæði Eystrasaltsríkjanna frá Sovétríkjunum sálugu, sem og sjálfstæði Svartfjallalands frá Serbíu. Hvað hið fyrrnefnda varðar þá var það söguleg ályktun sem krafðist pólitísks kjarks enda verið að bjóða Gorbachev og Ráðstjórnarríkjunum byrginn.

Það er nefnilega þannig að dropinn holar steininn. Hvern hefði til dæmis grunað að enn þann dag í dag væri flennistór mynd af Jóni Baldvini Hannibalssyni á veggjum litháenska þingsins?

Elís Orri Guðbjartsson

Pistlahöfundur

Elís Orri er meistaranemi í alþjóðastjórnmálum við London School of Economics (LSE). Hann tók virkan þátt í stúdentapólitíkinni í Háskóla Íslands og gegndi þar ýmsum trúnaðarstörfum, bæði f.h. Röskvu og Stúdentaráðs, ásamt því að sitja í stjórn ungliðahreyfingar stjórnmálaflokks. Hann er nautnaseggur af bestu gerð og nýtur sín best í góðra vina hópi, sérstaklega með rauðvínsglas í hönd.