Persónuleikasnauð pólitík

eftir Vigdís Ingibjörg Pálsdóttir

Nú eru rétt um þrjár vikur í kosningar. Bæði íslenskir kjósendur og stjórnmálamenn eru uppteknir við að úthúða andstæðingum og segja það sem passar við tískustrauma samfélagsmiðla hverju sinni. Vanalega er kosningabaráttan mun lengri og betri tími til undirbúnings. Nú eru herbúðir flokkanna fullar af ákafasömu fólki að safna vilyrðum um atkvæði.

En það er enginn flokkur að slá í gegn, nema kannski Vinstri grænir með því að gera sem minnst. Baráttan er strax orðin leiðinleg og komin á lágt plan. Sem betur fer hefur íslenska karlalandsliðinu í knattspyrnu tekist að gleðja landann og sameina þjóðina í grámyglulegu kosningaskammdeginu.

Það er kominn tími til að stjórnmálaflokkar og stjórnmálamenn á Íslandi hugsi út fyrir rammann. Markaðssetning á stjórnmálamönnum er ekki svo ólík markaðssetningu fyrirtækja. Hvaða fyrirtækjum vegnar vel í dag? Hvaða fyrirtækjum vegnar illa? Þeir fá atkvæði sem þora að vera öðruvísi, horfast í augu við breytt samfélagslegt landslag, mynda sér skýra stefnu, sýna samfellu og skera sig úr með sterkum persónuleika. Seinasti punkturinn er ef til vill sá sterkasti.

Við þurfum ekki að kafa djúpt eða leita langt til að finna sterkar dæmisögur úr heimi stjórnmála. Trump komst í Hvíta húsið út á vörumerkið ,,Donald Trump – make America great again”. Hann hafði rauðan þráð til að rekja sig í gegnum kosningabaráttuna og sótti á skilgreind atkvæðamið. Hann nýtti samfélagsmiðla á sögulega snjallan hátt og náði árangri. Jón Gnarr varð borgarstjóri Reykjavíkur vegna þess að hann spilaði á andstæður og lofaði að brjóta öll kosningaloforð nema það að ísbjörn skyldi verða sýningagripur í Fjölskyldu- og húsdýragarðinum. Það loforð efndi hann ekki – en síðan hvenær uppfylla stjórnmálamenn öll loforð?  

Áhrifavaldar um allan heim nýta sér töfrana sem felast í því að hleypa fólki að sér og sýna persónuna að baki fyrirsögninni. Við fylgjumst með ókunnugu fólki heima hjá sér á Snapchat og eyðum klukkustundum í að hlusta á venjulegt fólk tala um allt milli himins og jarðar á YouTube. Og við treystum þeim. Við erum líklegri til að kaupa tómatsósu sem uppáhalds Instagrammarinn okkar mælir með heldur en vörumerkið sem við sjáum auglýst í dagblaði. Hollywood stjörnur nýta sér þetta líka í miklum mæli, Jennifer Lawrence og Adele eru dáðar um allan heim því þær taka af sér grímuna og eru skemmtilega mannlegar í viðtölum.

Stjórnmálamenn sem eru flatir, sammála öllu sem kemur fram á samfélagsmiðlum og fjölmiðlum, hafa ekki skýrar skoðanir, fjúka eins og lauf í vindi og taka ævinlega þátt í múgæsingi, munu ekki ná hylli þjóðarinnar nema stundarkorn í senn.

Til þess að byggja upp vörumerki einstaklings eða stjórnmálaflokks þarf að gefa af sér, gera mistök og þora að hafa staðfastar skoðanir, jafnvel þó þær séu ekki alltaf þær vinsælustu hverju sinni. Við erum öll mannleg og við kjósum líka leiðtoga sem eru mannlegir. Við kjósum jafnvel einstaklinga sem við værum til í að þekkja persónulega – góð dæmi eru Justin Trudeau og Barack Obama.

Um leið og flokkur eða stjórnmálamaður hérlendis mun tileinka sér nýja nálgun munum við sjá snarhækkandi kjörsókn hjá yngri kynslóð landsins. Sú kynslóð tengir ekki við yfirborðskennda og almenna pólitík.

Við þurfum stjórnmálamenn og stjórnmálaflokka sem eru eins og íslenska karlalandsliðið í knattspyrnu. Eru trúir kjarna sínum, gera mistök og tapa annað slagið en læra  bæði af sigrum og ósigrum. Verum jákvæð og eyðum ekki púðri í að tala niður andstæðingana eða fjölskyldur þeirra. Sýnum hugrekki og yfirvegun, höfum skýr markmið og sameinum þjóðina.

Vigdís Ingibjörg Pálsdóttir

Pistlahöfundur

Vinga er viðskiptafræðingur með MBA gráðu frá IE Business School Í Madrid og Bs gráðu í viðskiptafræði frá Háskóla Íslands/University of Wyoming. Hún starfar í dag sem markaðsstjóri hjá bandaríska hátæknifyrirtækinu NetApp. Áður hafði hún að mestu fengist við markaðsmál, almannatengsl og vörumerkjastjórnun ásamt því að koma að fyrirtækjarekstri og frumkvöðlastarfsemi.