Pax Islandica: Ísland fyrst

eftir Ísak Einar Rúnarsson

Það kom á óvart þegar tilkynnt var um að fiskveiðisamningi Færeyja og Íslands hafði verið sagt upp og að færeyskum útgerðum yrði gert óheimilt stunda veiðar innan íslenskrar efnahagslögsögu og öfugt. Það var enginn undanfari og ekkert sem leit út fyrir stefndi í fiskveiðideilu við Færeyjar.

Þess vegna héldu sennilega margir að stutt væri á milli en aðeins meiri tíma tæki að klára nýja samninga. Þegar sjávarútvegsráðherra Færeyinga birti svo opið bréf þar sem hann sagði að Færeyingar litu svo á að ákvörðun Íslendinga væri ólögleg var því augljóslega vík milli vina.

Í grundvallaratriðum hafa samningar á milli landanna snúið að því að íslensk skip hafa haft heimildir til þess að veiða íslenskan kvóta af kolmunna innan færeyskrar lögsögu og um 80% kolmunnakvótans hefur verið veiddur í efnahagslögsögu Færeyja. Þeir fá hins vegar kvóta til veiða á botnsjávarfiski, einkum þorski, og svo heimild til þess að veiða 5% loðnukvótans. Heimild til veiða á loðnu skorðast þó við það íslensk stjórnvöld hafa sett takmarkandi ákvæði í samningana varðandi vinnslu Færeyinga á loðnu til manneldis. 

Íslensk stjórnvöld halda því nú fram að kröfur Færeyinga hafi verið of ríkar til þess að hægt sé að klára samning að nýju. Spekingar í sjávarútvegi segja að hingað til hafi hallað heldur á Íslendinga í þessum samningum og sumir vilja meina að tímabært hafi verið að segja þeim upp.

Þetta er hins vegar ekki bara fiskveiðistjórnunarmál heldur varðar samskipti ríkjanna og því einnig hluti af stærri heild. Í því samhengi er málið furðulegt.

Í því samhengi er eðlilegt að velta því upp hvort það sé alveg horfið úr minni þeirra sem með málið fara að þegar Ísland stóð hvað verst voru Færeyingar manna fyrstir til þess að halla sér upp að Íslendingum og veita okkur neyðarlán. Það lán var augljóslega fyrst og fremst táknrænt, en hafði sem slíkur gjörningur ríka merkingu. Það má ekki gleyma því að á þeim tíma voru Íslendingar allt að því holdsveikir í augum annarra ríkja og alls ekki margir sem réttu fram höndina.

Svo má einnig rifja upp að Færeyingar hafa verið að halla sér í ríkari mæli að Norðmönnum þegar kemur að Makríldeilunni. Í þeim dansi mætti halda að frekar væri tilefni til að draga Færeyinga nær okkur og gefa þeim þá örlítið eftir í fyrrnefndum samningum milli þjóðanna.

Í þorskastríðunum komumst við upp með að vera einstrengingsleg enda samningsstaða okkar góð, gríðarlegir hagsmunir undir og við vorum Davíð gegn Golíati, heimsveldinu Bretlandi. Samskipti Íslands og Færeyja eru sennilega eina tilfellið þar sem staðan er þveröfug og Ísland er Golíat. Það er heldur ekki gott afspurnar að geta ekki verið rausnarleg þjóð og þurfa alltaf að kyrja: Ísland fyrst með hálf-Trumpískum hætti.

Við ættum að vita betur en að traðka á Davíð þó það kosti okkur örlítið. Því í stóra samhenginu er ekki gáfulegt að spara aurinn en kasta krónunni.

Ísak Einar Rúnarsson

Pistlahöfundur

Ísak starfar sem sérfræðingur á hagfræðisviði Viðskiptaráðs Íslands. Hann hefur áður starfað fyrir Háskóla Íslands, var formaður Stúdentaráðs og blaðamaður á Morgunblaðinu og Viðskiptablaðinu.