Paradís einfaldleikans

eftir Jórunn Pála Jónasdóttir

Í aðdraganda kosninga er rétti tíminn til þess að kalla eftir afgreiðslu á þörfum málum eins og hefur sýnt sig á síðustu dögum og vikum, svo sem löngu tímabærar breytingar á hámarksgreiðslu í fæðingaorlofi og á framfærslu aldraðra, sem og öryrkja hafa sýnt. Núna er einnig meiri vilji á meðal stjórnmálamanna til að horfa út fyrir kassann en í gær var til að mynda samþykkt þingsályktunartillaga um að fela utanríkisráðherra að sækja um aðild Íslands að Geimvísindastofnun Evrópu. Þó er ekki sjálfgefið að þingmál sem eru sett í ferli svo stuttu fyrir kosningar verði að veruleika eins og byggingagrunnurinn fyrir framan Þjóðarbókhlöðuna minnir á.

Af sama tilefni er líka kjörið að leiða hugann að því hvernig ríkið aflar tekna. Í umfjöllun Kastljóss í síðustu viku var til dæmis fjallað um skattamál alþjóðlegra fyrirtækja með starfsemi á Íslandi. Sérstaklega var fjallað um skattamál fyrirtækjanna Alcoa og Bauhaus sem samkvæmt umfjölluninni greiða lægri skatt á Íslandi en við mætti búast. Fyrirtækin eru fjármögnuð með svokallaðri þunnri eiginfjármögnun sem lýsir sér þannig að eigið fé sem er lagt til við stofnun er takmarkað. Starfsemin er hinsvegar fjármögnuð með lánum frá móðurfyrirtæki. Vaxtakostnaður vegna lána frá móðurfyrirtækinu er síðan færður til frádráttar tekjum. Þar sem lánin eru hærri en eignir fyrirtækjanna er skattstofninn til tekjuskatts núll eftir frádráttinn. Með þessu móti komast þau hjá því að greiða skatt og telur Ásmundur G. Vilhjálmsson sérfræðingur í skattamálum fyrirtækja að það sé einmitt tilgangurinn með því að haga fjármögnun með þessum hætti. Væri öðruvísi staðið að fjármögnun þessara fyrirtækja, þ.e. að lagt væri til eigið fé, yrði niðurstaðan sú að þau myndu greiða hærri skatta.

Skattasniðgengnar náttúruauðlindir

Ef við íhugum stöðu Alcoa á Íslandi þá er ljóst að varla finnast betri aðstæður fyrir álver en á Íslandi. Raforkuverðið er með því hagstæðara sem gerist á heimsvísu og nóg er af plássi. Rafmagnið þarf þó að framleiða, og oftast með virkjun vatnsfalla, sem hefur mikil áhrif á vistkerfi, og stundum óafturkræf. Það kemur því mjög á óvart að ekki séu gerðar ítrustu kröfur til þess að greitt sé til fulls fyrir aðstöðuna hér á landi sem hlýtur að teljast eðlilegt og sanngjarnt í ljósi þeirra náttúruverðmæta sem um ræðir. Útkoman er að allir aðrir þurfa að bera meiri skattbyrðar og einnig að önnur fyrirtæki standa veikari fótum í samkeppnislegu tilliti.

Hvernig mætti leysa þetta?

Einfaldast væri að lögfesta reglur um þunna eiginfjármögnun en það hafa samanburðarlönd Íslands nú þegar gert. Frumvarp til breytingar á lögum um tekjuskatt sem áttu að takmarka möguleika á skattasniðgöngu með þunnri eiginfjármögnun var lagt fyrir tvisvar á þessu kjörtímabili en þau komust hvorugt lengra en í gegnum 1. umræðu. Í ágúst gaf Viðskiptaráð út yfirlýsingu um að ráðið styddi frumvarpið og í yfirlýsingunni kom einnig fram að ráðið teldi að núverandi fyrirkomulag skekkti samkeppnisstöðu íslenskra fyrirtækja.

Önnur lausn felst í heimild skattyfirvalda skv. 57. gr. tekjuskattslaga nr. 90/2003 til þess að líta í gegnum einkaréttarlega gerninga og skattleggja fyrirtæki miðað við raunverulega stöðu. Að baki þeirrar lagagreinar er ólögfest meginregla íslensks skattaréttar um skattasniðgöngu. Af einhverju ástæðum hafa skattyfirvöld enn sem komið er ekki skoðað skattamál fyrirtækjanna í ljósi ofangreindrar lagagreinar og samkvæmt fyrrnefndum sérfræðingi í skattamálum fyrirtækja Ásmundi er ástæðan að íslensk stjórnvöld hafa tilhneigingu til þess að „beygja sig gjarnan og bugta fyrir erlendum stórfyrirtækjum“. Færu stjórnvöld þá leið er þó líklegt að ágreiningur um endurreikninginn myndi enda fyrir dómstólum og að auki er óljóst hvaða þýðingu ákvæði fjárfestingasamnings sem gerður var á milli ríkisins og Alcoa árið 2003 myndi hafa.

Samkeppnishæfni Íslands

Í öllu falli er mikilvægt að koma á fyrirkomulagi sem tryggir jafna stöðu fyrirtækja á markaði. Þó má ekki gleyma öðru verðugu markmiði í skattamálum um að lagaumhverfi sé með þeim hætti að erlend fyrirtæki álíti Ísland vera ákjósanlegan stað fyrir starfsemi sína, enda er um tvo ótengda þætti að ræða og ekki útilokað að ná báðum markmiðum á sama tíma. Samkvæmt úttekt á samkeppnishæfni landa á grundvelli skattaumhverfis er Ísland í 13. sæti af 35 af ríkjum OECD hvað varðar fyrirtækjaskatt og í 11. sæti af 35 í samanburði á því hversu vel skattafyrirkomulagið virkar í alþjóðlegu samhengi. Til þess að ná betri árangri í samkeppnishæfni þurfum við þó ekki endilega að beygja okkur og bugta fyrir erlendum fyrirtækjum enda er hægt að skapa góðar aðstæður fyrir fyrirtæki með öðrum hætti eins og Pétur Blöndal fyrrum alþingismaður fyrir Sjálfstæðisflokkinn orðaði svo vel: “Markmiðið er að búa til rökrétt og mótsagnalaust kerfi sem er heiðarlegt og sanngjarnt en samt einfalt. Það er ekki markmiðið endilega að búa til skattaparadís heldur að búa til paradís einfaldleikans“.

 

Ljósmynd eftir Håkon Broder Lund.

Jórunn Pála Jónasdóttir

Pistlahöfundur

Jórunn Pála er lögfræðingur og búsett í Reykjavík. Hún sat áður sem formaður LÍS, hagsmuna- og lánasjóðsfulltrúi Stúdentaráðs formaður Vöku fls., og gjaldkeri Framtíðarinnar í Menntaskólanum í Reykjavík. Hennar helstu áhugamál eru hjólreiðar, fjallgöngur og ferðalög.