Óttinn við atvinnuleysið

eftir Daníel Freyr Hjartarson

Sjálfvirkni er ekki ný af nálinni. Iðnbyltingin gekk í grófum dráttum út á að skipta mennska handaflinu út fyrir vélarafl og í seinni tíð sjálfvirkar vélar. Vélarnar þurftu engar kaffipásur, kveinuðu aldrei yfir launum og afköstuðu margfalt á við mannaflið sem þær leystu af hólmi. Með þessu móti var með gufuknúnum tækjum unnt að stórauka afköst í verksmiðjum. Sem dæmi má nefna þá tæplega 380 földuðust afköst á hvern starfsmann í vefnaðariðnaðinum á 18. öld, aðeins við þessa vélvæðingu. Gufuknúnu vélunum hefur síðan þá verið skipt út fyrir glussadælur og rafmagnsmótora.

Iðnbyltingin hafði í heild sinni jákvæð áhrif; aukin framleiðni leiddi af sér aukinn hagvöxt, ný, og oftast betri, störf sköpuðust.

Tækniöldin

Næsta bylting er skammt undan, öld sjálfvirkni og gervigreindar er í þann mund að hefjast. Að þessu sinni verður mennskri hugsun og viðbragði skipt út fyrir gervigreind, skynjurum og hugbúnaði. Talið er að gervigreind geti tekið yfir 47% starfa í Bandaríkjunum á næstu 10 – 20 árum. Nú þegar eru ýmis áhrif byltingarinnar byrjuð að gera vart við sig, til að mynda í sjávarútvegi. Þar eru sjálfvirkar vinnslulínur um borð í mörgum skipum og frystihúsum, sem hefur haft í för með sér færri störf, aukin afköst og aukna nýtni.


Það er kallað gervigreind þegar vélar eða tæki sýna eiginleika til þess að bregðast við eða leysa vandamál. Gervigreind er oftast útfærð í hugbúnaði og þá með einhverskonar reikniriti (e. algorithm) sem hefur fyrirfram skilgreint markmið. Hugbúnaðurinn tekur við upplýsingum um skynjun umhverfisins frá nemum eða öðru inntaki. Hugbúnaðurinn bregst svo við þessu inntaki þannig að líkur á að ná settu markmiði hámarkist. Skoðum snöggt dæmi um gervigreind með þessu í huga, skoðum vél sem úrbeinar fiskiflök búin gervigreind. Gervigreindin í vélinni tekur við röntgenmynd af flakinu. Það er skynjunin. Hugbúnaðurinn reiknar svo út hvernig eigi að úrbeina flakið til að lámarka afskurð, eða hámarka nýtingu hráefnisins. Það er viðbragðið. Vélin framkvæmir að lokum viðbragðið sem hugbúnaðurinn reiknaði út.

Þessi 47% starfa sem ég minntist hér að ofan eru ekki aðeins færibandastörf eða verkamannastörf, þvert á móti. Afgreiðslufólk, lögfræðingar, bókarar, læknar, öryggisverðir, bílstjórar og forritarar eru allt starfsstéttir sem er meðal starfa sem farið er að gera tilraunir með að sjálfvirknivæða.

Maðurinn er óþarfur

Í dag er um 75% af kostnaði við vöruflutninga vegna starfsmannahalds flutningafyrirtækisins. Þess má því vænta að vörubílstjórum verði skipt út fyrir sjálfkeyrandi vörubíla. Að auki er vörubílstjórum aðeins heimilt að keyra 9-10 tíma á dag, samkvæmt lögum. Sjálfkeyrandi vörubílar gætu semsagt tvöfaldað afköst í flutningum fyrir brot af kostnaðinum. Þar að auki er hægt að bæta nýtingu eldsneytis með því að láta bílana keyra í halarófu þannig að einn bíll er í skjóli frá þeim næsta. Sjálfkeyrandi bílar almennt gætu, auk þess sem er talið upp hér að ofan, losað okkur við umferðaljós og minnkað umferðateppur.

Þetta er eitt af fjölmörgum dæmum um hvernig verið er að skipta út störfum sem einkennast af endurtekningum. Önnur störf, sem ekki fela í sér endurtekningu munu einnig breytast. Þar verður í fyrstu gervigreind að vinna samhliða mennskum starfsmanni. Þar má til dæmis nefna lögfræðinga og lækna og vafalaust eiga fleiri störf eftir að bætast í þann hóp.

IBM hafa þróað gervigreind sem er kölluð IBM Watson og er kannski frægust í dag fyrir að sigra spurningaþáttinn Jepordy hér um árið. Watson er í dag nýttur til aðstoðar í krabbameinsgreiningum og -meðferðum. Hann gefur krabbameinslæknum ráðgefandi álit varðandi greiningar og meðferðir. Gervigreindin var þjálfuð með 600.000 rannsóknaskýrslum,1,5 milljón sjúkraskrám, meðferðaskýrslum og um 2 milljónum blaðsíðna úr fræðigreinum.

Slík gervigreind næði semsagt að fylgjast með öllum nýjustu rannsóknum og niðurstöðum á sviði krabbameinsfræða, lesa allar sjúkraskrár sjúklinga og sömuleiðis sjúkrasögur sjúklinga með svipuð einkenni eða sjúkdóma. Það tæki lækni um 160 tíma á viku bara að fylgjast með nýjustu greinum í læknavísinda. Auk þess að spara tíma hafa tilraunir með lungnakrabbamein gefið vísbendingu um að Watson sé nú þegar líklegri til að gefa réttari greiningu en læknar.

Er iðnbyltingin að endurtaka sig?

Það er á þessari stundu erfitt að segja til um hvort þessi tæknibylting mun vera að einhverju leiti öðruvísi en iðnbyltingin. Öðruvísi að því leiti hvort hún muni útrýma störfum eða skapa ný og betri störf. Ljóst er að ef margir missa störfin sín mun neysla minnka og þar með ekki lengur þörf á vélvæddri framleiðslu, því neytendur eru ekki til staðar. Hinn póllinn er að þó einni stétt sé útrýmt skapast atvinna á nýjum stöðum, til að þjónusta nýja tækni. En það er einmitt í sambandi við þennan ótta við atvinnuleysi sem menn hafa undanfarið rætt um borgaralaun og skattlagningu róbota. Þannig er unnt að tryggja að allir borgarar fái grunnframfærslu og hagkerfið tapi ekki neytendum sínum. Það er erfitt að spá fyrir um hvort tilvikið verður raunin – líkast til verður það blanda af hvoru tveggja.

Gervigreind þarf ekki að vera fullkomin til að taka yfir, hún þarf aðeins að vera jafngóð eða betri en mennski keppinauturinn. Kostir þess að sjálfvirknivæða almennt eru ótal margir eins og hefur verið komið inn á. Því ættum við Íslendingar að einblína á að skapa hér farveg, lagalegan og akademískan, fyrir sjálfvirkni að þróast og taka þessari nýjung fagnandi. Verður róbotum heimilt að sinna þeim störfum, sem í dag eru vernduð með lögum, eða ætlum við að bola þá í burtu eins og við gerðum með Uber á sínum tíma? Ætlum við að þvinga tölvurnar til að taka 10 tíma hvíldartíma?

Á næstu árum munu sprotafyrirtæki keppast um að koma fyrir gervigreind í hinum og þessum tækjum, bílum, heimilistækjum, rúmum og svona mætti lengi telja. Ef við ætlum að taka þátt í þessari þróun ættum við í fyrsta lagi að byrja að tryggja að sem flestir læri forritun. Skapandi hugsun, að mistakast, umhyggja, afþreying og að uppgötva eru allt dæmi um eitthvað sem verður seint, ef nokkurntímann vélvætt, við ættum að hafa það bak við eyrað þegar við uppfærum námskrár í skólum landsins. Þegar kemur að háskólunum, þá vantar að mennta hér sérfræðinga á sviði gervigreindar og sjálfvirkni. En hvað sem verður ættum við að nýta okkur hve fámenn við erum og fljót að aðlagast nýjum aðstæðum til þess að vera í fararbroddi þróunar.

Daníel Freyr Hjartarson

Stjórn & vefstjóri

Daníel Freyr er útskrifaður verkfræðingur af sviði stýri- og reglunartækni við tækniháskólann í Delft, Hollandi. Hann hefur einnig lokið B.Sc. gráðu í vélaverkfræði og tölvunarfræði frá Háskóla Íslands. Samhliða námi tók Daníel þátt í að hanna og smíða rafknúinn kappakstursbíl með Team Spark. Daníel er áhugamaður um hjólreiðar, tölvur og tækni. Hann sér um öll tækni- og vefmál Róms.