Brotnar rúður um allan bæ

eftir Sigurður Tómasson

Á unglingabrölti í ,,gamla daga” (ég er 24, hver er skilgreiningin á þessu?) með félögunum man ég eftir sportinu að kasta steinum í rúður í iðnaðarhverfi bæjarins. Þær brotnuðu ekki endilega strax, steinarnir voru stundum of litlir eða þeim kastað of laust. En að lokum brotnuðu rúðurnar og þá tók gamanið við. Við hlupum líkt og við værum með rakettur í rassgatinu, miklu lengra en til þurfti. Og svo hlupum við aðeins meira.

Ég man ekki sjálfur hvort mér hafi tekist að brjóta rúður eða hversu oft ég reyndi – en ég reyndi. Og af þessu var ég ekki stoltur og er það síst í dag – en ég gerði það.

Fyrir okkur vorum við ekki að taka neitt af neinum. Við vorum bara að bögga viðkomandi og leitast eftir adrenalínkikkinu í kjölfarið.

Brotnu gluggar hagfræðinnar

Spólum nú lengra aftur og í ,,alvöru gamla daga”. Árið 1946 gaf Henry Hazlitt nokkur út bók að nafni Economics in One Lesson sem ég hef lesið tíðum og er að mínu mati algjör skyldulesning. Hana er meira segja hægt að nálgast frítt. Á þeim tíma sem bókin kom út var seinni heimsstyrjöldin nýliðin og ýmsum borgum hafði verið tortímt. Þá, af bókinni að dæma og Hazlitt til lítillar ánægju, voru háværar raddir um hversu mikil atvinna væri í boði eftir stríð til að byggja upp þær borgir sem voru jafnaðar við jörðu, og talað um slíkt sem jákvæðan hlut. Störf verða til.

Þessu svarar minn maður Hazlitt með einföldu dæmi sem hann kallar The Broken Window.

Dæminu svipar til aðstæðunum sem ég var að lýsa áðan. Einhver óþroskaður vitleysingur brýtur glugga í bakaríi og fyrir vikið þarf að búa til nýjan glugga. Sumir líta á þetta sem atvinnuskapandi aðgerð fyrir gluggagerðarmann. Í raun var þetta ,,blessun eyðingarinnar” eða The Blessing of Destruction. Gluggagerðarmaðurinn fær verkefni og þar með tekjur sem hann hefði annars ekki fengið og hann mun kaupa sér eitthvað fyrir þessa vel-til-fundnu-tekjur.

En það varð ekkert nýtt til.

Bakarinn þarf núna að borga gluggagerðamanninum. Hann getur til dæmis ekki keypt sér nýja hrærivél og hefur tapar þeim munaði til þess að greiða fyrir gluggann. En allir gera sér grein fyrir þessu. Það sem er erfiðara að sjá er að hrærivélaframleiðandinn tapaði þarna líka tekjum. Og hann langaði í ný jakkföt þannig klæðskerinn tapaði líka tekjum. Og svo framvegis.

Þessari atburðarrás var komið af stað vegna eyðileggingar – ekki eftirspurn – vegna þess að ég grýtti einhvern glugga. Eða reyndi. Ég man ekki alveg.

Hið alvitra

Hægt er að heimfæra dæmið um brotnu gluggana á ýmis atriði.

Til dæmis lýsir það afleiðingum ákveðinnar skyldu sem nær allt mannkynið þarf að sinna: skattlagningu. Með álagningu skatta er stjórnvöldum gert kleift að safna tekjum til að ráðast í verkefni sem eru misarðbær, misnauðsynleg og misgegnsæ. Allir þurfa, af nauðsyn, að gefa frá sér tekjur til þess að greiða fyrir ýmislegt sem gagnast þeim mislítið. Það má í mörgum tilfellum meira segja draga í efa að þessir fjármunir gagnist einhverjum! Sumt er nauðsynlegt: heilbrigðisþjónusta, dóms- og löggæslukerfið og menntakerfið. Sumt er það alls ekki.

Ýmsum hópum finnst hins vegar nauðsynlegt að taka sem mest af fólki og stýra peningunum þannig að eftirspurn ráði sem minnstu um hvernig tekjum fólks er útdeilt, heldur ákvarðanir embættismanna sem auðvelt er að hafa áhrif á. Og þessar raddir eru að verða háværari og háværari. Hazlitt hefði þannig alveg eins geta verið að lýsa kröfum samfélagsins eins og þær hljóða á vefmiðlum í dag þegar hann skrifaði bókina fyrir 70 árum síðan:

,,There is no more persistent and influential faith in the world today than the faith in government spending. Everywhere government spending is presented as a panacea [töfraformúla] for all our economic ills.”

Íslenska ríkið notar skattpeninga til að greiða undir ýmsa starfsemi sem er galið að skylda fólk til þess að greiða fyrir í stað þess að fjármögnun slíkrar starfsemi ráðist af eftirspurn. Til dæmis hefur rekur ríkið lánastofnun (Íbúðalánasjóð) sem hefur ítrekað þurft að greiða undir þó það sé í samkeppni við einkaaðila, viðskiptabanka, smásöluverslun (Fríhöfnina), áfengisverslun (sem ríkið þarf að greiða með þegar kemur að áfengissölunni), o.s.frv.

Þessi útgjöld hafa áhrif brotinna glugga með þeim hætti að í umgjörð slíks reksturs eru tekjur færðar frá fólki sem hefðu getað farið í eitthvað annað – út frá raunverulegri eftirspurn en ekki nauðsyn.

Brotnu gluggar íslenska efnahagsins

Nú er uppsveifla á Íslandi og hefur fólk keppst við að hrósa íslensku krónunni fyrir.

Það er margt til í því en þar eru líka brotnir gluggar sem verður að tala um. Það má spyrja sig hversu mörg fjárfestingarverkefni urðu ekki að veruleika vegna hás vaxtastigs, óstöðugs gjaldmiðils og lokaðs hagkerfis. Það má spyrja sig hvort stóru hugvitsfyrirtækin okkar væru enn stærri, það má spyrja sig hvort betur hefði gengið að sinna fasteignaeftirspurn fólks, það má spyrja sig hvar við værum stödd ef krónan hefði ekki verið við lýði heldur eitthvað annað.

En það er enginn að spyrja sig að þessu. Því fólk sér ekki þróunina sem ekki varð. Það sér bara það sem er. Þar af leiðandi er því haldið fram að ef krónan hefði ekki verið til staðar værum við á verri stað því við hefðum ekki getað farið þessa leið.

En við hefðum ekki farið sömu leið. Við hefðum mögulega farið einhverja betri.

Mögulega. Við vitum það ekki. Alveg eins og ég veit ekki hvort ég braut gluggana í denn, og ég veit ekki hvort eigandi gluggans hafi fyrir vikið misst af greiðslu af bílnum sínum og lenti í skuldafeni fyrir vikið. Ég mun hins vegar hugsa mig tvisvar um næst þegar mig langar til þess að brjóta glugga. Það þarf alltaf einhver að borga.

 

Var ég búinn að nefna bókina Economics in One Lesson? Lesið hana! Hún er stutt og frábærlega skrifuð.

 

Ljósmynd eftir Håkon Broder Lund

Sigurður Tómasson

Pistlahöfundur

Sigurður er hagfræðingur með M.Sc. úr Kaupmannahafnarháskóla og B.Sc. úr Háskóla Íslands. Sigurður starfar nú sem ráðgjafi í Danmörku en áður starfaði hann hjá Viðskiptaráði Íslands og viðskiptafréttadeild Morgunblaðsins. Skrif hans í Rómi beinast einna helst að hagfræðilegum málefnum.